Hjörleifur Guttormsson 10. mars 2015

Listin að lifa með íslensku krónunni

Sjö ár eru senn að baki frá efnahagshruninu haustið 2008 og enn stendur þjóðin frammi fyrir afleiðingum þess vegna þrotabúa bankanna sem settir voru í gjaldþrot um leið og nýir voru stofnaðir á rústum þeirra föllnu. Þessar aðgerðir kostuðu marga, m.a. íslenska ríkið, háar fjárhæðir, en þær voru nauðvörn sem um margt heppnaðist vel, andstætt því sem gerðist sums staðar erlendis þar sem hið opinbera hljóp undir bagga til að bjarga bönkum frá falli eins og á Írlandi og í Bandaríkjunum. Gjaldeyrishöft voru óhjákvæmileg afleiðing íslensku leiðarinnar sem ásamt öðrum stjórnvaldaðgerðum liðinna ára, m.a. í tíð ríkisstjórnarinnar 2009–2013, fleyttu íslenskum þjóðarbúskap og almenningi í gegnum sársaukafullan niðurskurð. Um einstök atriði er eðlilega deilt, endurreisn einkabanka og Icesafe-samninginn, sem fékk farsælan endi með atfylgi forseta Íslands, þjóðarstuðningi og að lokum jákvæðri dómsniðurstöðu. Mikinn hluta þessa tímabils hefur verið knúið á um losun og afnám hafta á fjármagnshreyfingar gagnvart útlöndum. Sem betur fer hafa  stjórnvöld farið sér hægt í þeim efnum og fyllsta ástæða er til að feta þá slóð áfram af varúð og láta ekki frýjunarorð leiða til vanhugsaðra aðgerða.

Miklum höftin ekki fyrir okkur

Stór orð hafa um langt skeið verið höfð uppi um skaðlegar afleiðingar núverandi hafta á gjaldeyrisviðskipti, en í fæstum tilvikum hefur því fylgt sannfærandi rökstuðningur. Að undanförnu hefur verið hert á slíkum málflutningi sem borinn er uppi af talsmönnum þrotabúa föllnu bankanna. Á þeim bæjum hafa menn herskara af lögfræðingum í þjónustu sinni auk tengsla við spunameistara úr ýmsum áttum. Höftin ganga vissulega gegn trúarsetningum um „frjálsa fjármagnsflutninga“ sem skráðar eru í EES-samninginn, en undarlegra er að heyra talsmenn flokka til vinstri eins og varaformann VG heimta afnám hafta og telja það „mikilvægasta mál samtímans“. Ákvarðanir um að létta núverandi höftum verða vonandi ekki teknar án þess að horft hafi verið til allra átta í því máli, metnar líklegar afleiðingar og leitað samstöðu milli stjórnar og stjórnarandstöðu um leiðir. „Opin umræða“ um svo flókið og margþætt mál er ekki líkleg til að skila miklu, svo sjálfsögð sem hún er eftir að greining og skýrt val á milli ákveðinna úrræða liggur fyrir. Svo virðist sem á vegum Seðlabanka Íslands sé nú unnið ötullegar en áður að því að greina vandann og er það vel. Það er jafnframt álitamál, hvort ekki eigi að taka að nýju upp þráðinn þar sem frá var horfið með skýrslu Rannróknarnefndar Alþingis 2010 og umfjöllun um hana, og þá með sérstöku tilliti til hafta og vænlegra skrefa til afléttingar á þeim.

Munum lengi búa við krónuna

Eitt er að greiða úr þeim vanda sem safnaðist upp í kjölfar hrunsins 2008 og sem m.a. snýr að þrotabúum föllnu bankanna. Annað er það sem varðar almenna efnahagsstefnu og viðleitni til að viðhalda jafnvægi í þjóðarbúskap okkar og bærilegu atvinnustigi miðað við að búa áfram við krónuna sem gjaldmiðil. Umræðan um að Ísland taki upp annan gjaldmiðil hefur staðið lengi og ýmsir hafa í orði lagst á þá sveif að kasta beri krónunni. Um skeið var mikið ræddur sá kostur að taka upp evru sem gjaldmiðil með því að Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu og Efnahags- og myntbandalagi þess. Allir vita í hvaða stöðu það mál er nú þar sem aðildarviðræðum hefur verið hætt og Íslendingar geta prísað sig sæla á meðan ekki er haldið lengra á þeirri braut. Myntbandalag ESB er nú í djúpri kreppu og alls óvíst að það lifi hana af. Ólíkur efnahagsgrunnur aðildarríkjanna veldur því að spennitreyja sameiginlegrar myntar leiðir af sér gífurleg vandamál, sem atvinnuleysið í mörgum ESB-ríkjum er til marks um.  Íslendingar munu eins og horfir búa áfram við krónuna sem gjaldmiðil og verkefnið ætti að vera að bæta umgjörðina um hana þannig að sem best farnist.  Þær hömlur sem því kunna að fylgja geta vegið upp hættur sem fylgja ólgusjó „frjálsra fjármagnshreyfinga“ fyrir lítið samfélag.

Nýtum mannauð og þekkingu

Eftir að hafa gengið í gegnum efnahagshrunið 2008 ættu Íslendingar að vera betur að sér en margir aðrir um afleiðingar kollsiglingar á efnahagssviði og hvað beri að varast litið til framtíðar. Í kjölfar einkavæðingar fjármálastofnana varð okkur að falli ótryggur umbúnaður fjármálakerfisins og tengingin við EES-samninginn.  Við þessar aðstæður tókst fjármálabröskurum, sem engu skeyttu um þjóðarhag, að draga stjórnvöld og almenning með sér í gullgrafaraleiðangur. Margt hefur verið ritað upplýsandi um þetta ferli, enda eigum við fjölda velmenntaðra og hæfra einstaklinga sem búa yfir alþjóðlegri yfirsýn. Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis lagði góðan grunn og bætti miklu við þekkingu á stofnunum og samspil á fjármálasviði, auk ábendinga um siðferðilega bresti. Dæmi um afar fróðlega og nýlega viðbót er bók Guðrúnar Johnsen sem á ensku ber heitið „Bringing down the banking system“. Æskilegt væri að fá þetta rit þýtt á íslensku, því að efnið þyrfti að ná til sem flestra.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim