Hjörleifur Guttormsson 11. júní 2015

Tryggja verður verndun Þingvalla

Lögum samkvæmt eru Þingvellir við Öxará og grenndin friðlýstur helgistaður allra Íslendinga. Land þjóðgarðsins skal vera friðað í því skyni að varðveita ásýnd þess og viðhalda eins og kostur er hinu upprunalega náttúrufari. Allt jarðrask, m.a. byggingar, vegagerð og ræktunarframkvæmdir eru óheimilar nema með samþykki Þingvallanefndar.
Dagana 26.‒27. maí sl. sagði  Morgunblaðið frá drögum að endurskoðun  á stefnumótun Þjóðgarðsins á Þingvöllum og birti viðtöl við þjóðgarðsvörð. yfirlandvörð og aðalráðgjafa þjóðgarðsins.  Þar komu fram miklar áhyggjur yfir sívaxandi straumi ferðamanna sem heimsæki þjóðgarðinn við ófullnægjandi aðstæður auk gífurlegrar gegnumumferðar og hraðaksturs. Þingvallanefnd sem fer með yfirstjórn þjóðgarðsins hefur til skoðunar drögin sem vísað er til. Ljóst er að róttækra breytinga er þörf í málefnum Þingvalla og kemur það ekki á óvart þeim sem lengi hafa fylgst með þessum stað.

Verndun hafi forgang

Lögin um þjóðgarðinn (nr. 47/2004) kveða á um að það er verndun náttúru og menningarminja sem eiga að hafa forgang við allar skipulagsákvarðanir á Þingvöllum í bráð og lengd. Þegar nýr vegur var lagður frá Hrafnagjá að Leirum í aðdraganda þjóðhátíðar 1974 voru forsendur hans þær að hann lagaði sig að landslagi og aksturshraði væri takmarkaður við 50 km hámark. Þegar svonefndur Lyngdalsheiðarvegur var undirbúinn fyrir nokkrum árum greindi Vegagerðin svo frá að „í gögnum málsins sé skýrt kveðið á um að hámarkshraði innan þjóðgarðsins sé 50 km/klst og það komi ekki til með að breytast með nýjum vegi.“ (Úrskurður Skipulagsstofnunar 24. maí 2006, s. 9). Í sambandi við fyrirhugaðar viðhaldsframkvæmdir á þessari leið, virðist Vegagerðin nú þrýsta á um aukinn hámarkshraða úr 50 í 70 km og breikkun öryggissvæða í 5 m út frá vegbrún. Að mati þjóðgarðsvarðar myndu því fylgja mikil náttúruspjöll og slysahætta. Því verður ekki trúað að Þingvallanefnd ljái máls á slíku. Jafnframt er brýnt að með stöðugu eftirliti sé tryggt að ekki sé farið fram úr leyfðum umferðarhraða.

Nýtt stórhýsi á Efrivöllum?

Þjóðgarðsvörður upplýsir að verið sé að ræða um „að reisa hús við furulundinn þar sem gengið er upp að Öxarárfossi og þar gæti Alþingi m.a. haft aðstöðu. En það yrði ekki eingöngu fyrir þingfundi, heldur væri þetta hús fyrir þing og þjóð.“ Sem sjá má er hér ekkert smáhýsi til umræðu, þar sem fyrir 1929 stóð Valhöll og Konungshús Friðriks 8. Það er með ólíkindum, ef slíkar hugmyndir um stórhýsi á Völlunum eru nú ræddar af alvöru árið 2015. Vilja menn gleyma því að við erum þarna á jarðfræðilega kviku svæði og mengunarhætta frá slíkum umsvifum er mikil?  Ég vissi ekki betur en sammæli væri um það að halda Völlunum fríum af varanlegum mannvirkjum. Þannig segir í stefnumörkun Þingvallanefndar 1988: „Stefnt er að því, að engin óþarfa þjónusta, sem laðar að fólk og bíla, verði neðan gjár.“ Til þess sama er einnig vísað í gildandi stefnumörkun fyrir tímabilið 2004‒2024 þar sem segir m.a.: „Útilokað má telja að almenningur á Íslandi geti fellt sig við verulega uppbyggingu innan þjóðgarðsins, einkum nálægt þinghelginni sjálfri.“ Útihátíðir á Þingvöllum má halda nú sem fyrr með aðfluttum búnaði sem auðvelt er að fjarlægja að þeim loknum.

Stækka ætti þjóðgarðinn að Langjökli

Á síðustu áratugum hefur oft komið til tals að stækka Þingvallaþjóðgarð samhliða því sem  hert verði á ákvæðum um verndun Þingvallvatns. Minna má á varnaðarorð Péturs M. Jónassonar í því sambandi. Í gildandi stefnumörkun er á það bent að Þingvellir og umhverfi hafi ómetanlegt gildi sem jarðfræðilegur minnisvarði. Mikilvægt er að innan þjóðgarðsins verði eldstöðvakerfin sem teygja sig norð-norðaustur frá sigdældinni með eldhraunum og glæstum sýnishornum gosstöðva. Þannig yrðu innan garðsins m.a. Skjaldbreiður, Tindaskagi, Þjófahraun og móbergsstaparnir Skriða og Hlöðufell. Allt er þetta svæði þjóðlenda og um leið afrétt Þingvalla ofl. jarða. (Sjá úrskurði Óbyggðanefndar og Hæstaréttardóm í máli 67/2008). Með slíkri stækkun opnast mikil færi á að dreifa álagi ferðamanna á svæðinu samhliða náttúruvernd. Jafnhliða er einboðið að færa þjóðgarðinn undir almenna þjóðgarðastjórn, jafnhliða því sem Þingvallnefnd yrði ráðgefandi um sjálfa þinghelgina. Skýra stefnumörkun um svæðið allt þarf að lögfesta, svipað og gert er í Vatnajökulsþjóðgarði.

Lærum af sögu og mistökum

Margt má læra af sögu Þingvalla fyrr og síðar. Friðlýsingin 1930 var jákvætt skref en margar aðgerðir stjórnvalda í framhaldinu einkenndust af skammsýni, m.a. með úthlutun lóða innan þjóðgarðs undir sumarbústaði. Stefnumörkun frá 1988 og síðar eru skref í rétta átt sem fylgja þarf eftir með mun skýrari verndunarstefnu.  Í kvæðinu Alþingishátíðin frá 1930 minnir Halldór Kiljan Laxness okkur á það sem máli skiptir þegar prjáli og tildri sleppir á þessum þjóðhelga stað:

                  Sögulaus auðnin, ímynd allrar gnægðar,
                  andar á ný um skóginn dularbláan
                  og Þíngvöll. Það er aftur hún sem á hann
                  ósnortinn traðki þúsund ára frægðar.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim