Hjörleifur Guttormsson 12. janúar 2015

Ögurstund nálgast í loftslagsmálum

Fyrir lok þessa árs á að liggja fyrir hvort ríki heims ná saman um bindandi samning til að draga úr hlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum þannig að hún fari ekki yfir 2°C-öryggismarkið. Hvort þetta tekst ræðst á 21. ársfundi aðildarrríkja að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna (COP-21) í París fyrrihluta desember 2015. Að óbreyttu stefnir í allt að 5°C hlýnun andrúmslofts með ólýsanlegum hörmungum fyrir mannkynið og vistkerfi jarðar. Aldrei hefur alþjóðasamfélagið staðið frammi fyrir jafn afdrifaríkri áskorun, sem skilið getur á milli feigs og ófeigs. Eftir ársfundinn í Lima fyrir mánuði eru margir svartsýnni en áður á að Parísarfundurinn skili tilætluðum árangri, þar eð mikið vantar á að eitthvað í líkingu við samningsdrög liggi nú fyrir. Í Lima tókst aðeins að draga upp grófar línur um framhaldið, sem felur í sér að hvert ríki fyrir sig, einnig þróunarríki, setji sér nú á fyrsta ársfjórðungi 2015 markmið um losun frá og með 2020, en þá á nýr skuldbindandi samningur að taka gildi.

Ekki lengur deilt um hlýnun

Upphaflegur loftslagssamningur SÞ var formlega frágenginn á Ríó-ráðstefnunni 1992 og mikilvægur áfangi náðist í Kyótó 2007 þar sem gengið var frá bókun um losunartakmarkanir hjá iðnríkjunum. Lengi vel voru uppi háværar gagnrýniraddir um vísindalegan grundvöll forsagnarinnar um hlýnun af mannavöldum en þeim röddum hefur fækkað smám saman og mega nú heita hljóðnaðar. Ekki kom á óvart að á bak við efasemdakórinn stóðu m.a. fjölþjóðafyrirtæki og aðrir hagsmunaaðilar í orkuiðnaði. Gífurleg áhersla hefur verið lögð á fjölþættar loftslagsrannsóknir undir merkjum IPCC-nefndarinnar, m.a. til að greina sem best á milli náttúrulegra sveiflna og áhrifa af losun gróðurhúsalofts. Eins og fram kom á sérstökum leiðtogafundi SÞ í New York sl. haust má heita að sammæli sé um 2°C-markið og mat á líklegum afleiðingum af óheftri nýtingu jarðefnaeldsneytis. Verði ekki brugðist skjótt við með takmörkunum stefni í voða um veröld víða, með hækkun sjávarborðs, súrnun sjávar, röskun gróðurlenda og eyðimerkurmyndun, samhliða því sem öfgar aukist stig af stigi í veðurfari. Mest og afdrifaríkust yrðu áhrifin á heimsskautasvæðum og því mikið í húfi fyrir Íslendinga.

Ónotað jarðefnaeldsneyti

Ótvírætt er að stóran hluta af eldsneytisbirgðum í jörðu, kolum, olíu og gasi, má ekki nýta ætli mannkynið að standa við 2°C hlýnun sem hámark. Nýleg úttekt sem gerð er grein fyrir í nýju hefti af tímaritinu Nature frá 8. janúar 2015 (Christophe McGlade & Paul Ekins. The geographical distribution of fossil fuels unused when limiting global warming to 2°C). Þar kemur fram það mat að þriðjung af þekktum olíubirgðum, helminginn af jarðgasi og yfir 80% af kolum í jörðu megi ekki nýta næstu 40 árin ef nást eigi sett takmörk um hlýnun. Jafnframt er þar bent á hvar sé einkum að finna þessar birgðir, sem ekki eigi að hrófla við. Efst á blaði í því sambandi er Norðurheimsskautssvæðið (The Arctic). Í engu tilviki sé réttlætanlegt að bora eftir olíu og gasi á norðurslóðum eða fjárfesta þar í frekari leit. Það eigi raunar líka við um frekari leit að slíkum orkulindum annars staðar sem nú er varið til háum fjárhæðum. Niðurdæling og geymsla á gróðurhúslofti í jarðlögum er jafnframt af greinarhöfundum talin litlu sem engu skipta um heildarniðurstöðu. Hafin er umræða um hvernig megi, í tengslum við væntanlegan loftslagssamning, takmarka nýtingu þekktra birgða af jarðefnaeldsneyti og hugsanlegar skaðabætur til þjóða, einkum þróunarríkja, sem taka á sig slíkar hömlur.

Þáttur Íslands

Forystumenn hérlendir hafa mikla æfingu í að tala tungum tveim þegar kemur að loftslagsmálum. Annars vegar er bent á miklar endurnýjanlegar orkulindir í vatnsafli og jarðvarma, hins vegar gert út á fámennið. Þannig varð til „íslenska ákvæðið“ í Kýótó-ferlinu, með vísan í smæð íslenska  hagkerfisins, en með því var heimiluð gífurleg ókeypis aukning í losun frá nýjum stóriðjufyrirtækjum hérlendis. Á tímabilinu 1990–2010 jókst losun gróðurhúsalofts frá Íslandi um 30%. Síðan gerðumst við árið 2012 þáttakendur í ETS-viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, fyrirkomulagi sem reynst hefur í meira lagi gloppótt og byggir á markaðlausnum með kolefniskvóta í stað þess að mengunarvaldurinn standi reikningsskil. Fyrrverandi ríkisstjórn setti líka kúrsinn á olíuvinnslu á Drekasvæðinu og núverandi stjórn fetar skv. stjórnarsáttmála dyggilega í fótsporin, þannig „að nýting hugsanlegra olíu- og gasauðlinda geti hafist sem fyrst, finnist þær í vinnanlegu magni.“ Í áramótagreinum forystumanna flokka á Alþingi minntist enginn nema formaður VG á þá ögurstund sem nálgast óðfluga í loftslagsmálum. VG er hins vegar í hafti tveggja ára gamalla leyfisveitinga um olíuleit og  olíuvinnslu á íslensku yfirráðasvæði. Með þeim ákvörðunum töpuðu Íslendingar af því sögulega tækifæri að gerast talsmenn þess á alþjóðavettvangi að  ekki verði hreyft frekar en orðið er við jarðefnaeldsneyti á norðurslóðum. Því fyrr sem sá þráður er upp tekinn þeim mun betra fyrir alda og óborna.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim