Hjörleifur Guttormsson 12. nóvember 2015

Ráðstefna Líffræðifélags Íslands endurspeglaði  gróskuna í lífvísindum

Góð tíðindi fara oftast ekki hátt á auglýsingaöld. Það á við um þriggja daga magnaða ráðstefnu Líffræðifélags Íslands dagana 5.‒7. nóvember í Öskju og húsi Íslenskrar erfðagreiningar. Þar birtist sú þróttmikla gróska sem einkennir nú lífvísindi hérlendis, en brátt er hálf öld liðin frá því kennsla hófst í líffræði við Háskóla Íslands 1968. Í fyrstu var hún einkum sniðin að menntun kennara fyrir gagnfræðaskóla en brátt gildnaði stofninn og greinist nú inn á öll helstu svið lífvísinda með tilheyrandi rannsóknum. Líffræðiráðstefnur sem frá 2009 hafa verið haldnar á tveggja ára fresti eru orðnar samstarfsvettvangur stofnana og samtaka sem tengjast þessu fjölbreytta sviði.

Öflug starfsemi – ótrúleg fjölbreytni

Líffræðifélag Íslands sem stofnað var 1979 hefur frá upphafi staðið fyrir fræðslufundum og ráðstefnum sem orðið hafa æ metnaðarfyllri eins og þessi síðasta ráðstefna endurspeglar. Auk yfirlitserinda innlendra og erlendra fyrirlesara var boðið upp á 68 erindi í mörgum málstofum. Einna fyrirferðarmest voru nú svið sameindalíffræði og ónæmisfræði en vist- og þróunarfræði komu einnig við sögu. Á málstofu um vistkerfi jarðhitasvæða voru haldin ekki færri en 21 erindi og sérstakur fundur fjallaði um áhrif sauðfjárbeitar hérlendis og víðar á norðlægum slóðum. Umhverfi fundarins í Öskju skreyttu síðan ekki færri en 50 veggspjöld með kynningu á rannsókum á ólíkustu sviðum fræðanna. Það vekur athygli gamals náttúrufræðings að aðeins tvö tungumál komu við sögu á þessari ráðstefnu, þ.e. íslenska og enska, meirihluti erinda nú fluttur á ensku, bæði af erlendum og íslenskum fyrirlesurum. Þetta endurspeglar aðþjóðlega þróun. Helst þótti mér á skorta að útdráttur á íslensku lægi frammi á ensku erindunum, leikmönnum til glöggvunar.
                                                                    
Brautryðjendastarf í hálfa öld

Á upphafsdegi ráðstefnunnar voru tveimur vísindamönnum veittar sérstakar viðurkenningar, Guðmundi Eggertssyni prófessor emeritus við Háskóla Íslands fyrir farsælan feril og Sigrúnu Lange sameindalíffræðingi fyrir gott upphaf rannsóknaferils. Hún lauk doktorsprófi við HÍ 2005 og starfar nú við University College í London. Bæði fluttu þau erindi á ráðstefnunni.  Guðmundur fór yfir feril sinn allt frá því hann lauk stúdentsprófi við MA 1951, hóf nám í grasafræði og síðan erfðafræði við Hafnarháskóla, lauk doktorsprófi frá Yale-Háskóla 1965 og stundaði erfðafræðirannsóknir þar og víðar uns hann sinnti kalli og kom heim við upphaf líffræðináms við HÍ 1968 þar sem hann var skipaður prófessor ári síðar. Það kom þá í hans hlut öðrum fremur að skipuleggja námið við líffræðiskor Háskólans þar sem hann kenndi með rannsóknum til sjötugs árið 2003. Hann þakkar móður sinni áhugann á náttúrufræði og grösum sem kviknaði hjá honum á heimaslóð í Skorradal. Eftir að opinberum starfsferli lauk hefur Guðmundur m.a. sinnt ritstörfum og frætt almenning, síðast með ritgerðasafninu Ráðgáta lífsins (útg. 2014) sem er frábær lesning.

Staða  náttúruverndar og sjálfbærni

Á meðal fyrirlestra af almennum toga á ráðstefnunni staldra ég við erindi Snorra Baldurssonar líffræðings og þjóðgarðsvarðar sem hann nefndi Náttúruvernd á krossgötum, og erindi Brynhildar Davíðsdóttur prófessors um Hlutverk líffræði í sjálfbærni á Íslandi.
 Í erindi Snorra kom fram snörp gagnrýni á stöðu náttúruverndar hérlendis sem hann kenndi ekki síst um sundurvirku opinberu kerfi í þessum málaflokki. Hann lýsti áhyggjum af ágengum tegundum og hversu hægt gengi um friðlýsingu miðhálendisins. Þá fór hann hörðum orðum um opinbera stefnu í skógrækt með handahófskenndri útplöntun innfluttra trjátegunda. Snorri er doktor í trjáerfðafræði og vann í áratug við rannsóknir á sviði landgræðslu og skógræktar að námi loknu.
Brynhildur rakti í mjög fróðlegu erindi niðurstöðu alþjóðlegra mælikvarða á sjálfbærnistöðu Íslands. Þeir væru nokkuð misvísandi, allt frá því að sjálfbærni hér teldist allgóð niður í það lakasta meðal þjóða heims, m.a. komi vistspor Íslands (ecological footprint) hörmulega út og færi versnandi. Til bjargar kæmi okkur fámennið og ríkulegar auðlindir, en á móti vinnur vöntun á samræmdri stjórnun umhverfis- og auðlindamála og ófullkomin grunnþekking á íslenskum vistkerfum. Því þyrfti margt að breytast eigi að tryggja hér sjálfbærni og þar hafi líffræðingar verk að vinna.

Líffræðifélaginu til sóma

Ráðstefna þessi var líkt og margar hinar fyrri Líffræðifélaginu og forystu þess til mikils sóma. Hún endurspeglar í senn metnað og þrótt í lífvísindum hérlendis sem leggja nú fram æ meiri skerf til hagnýtrar uppskeru í atvinnuþróun og rannsóknum. Hins vegar vantar mikið á að sá þekkingargrunnur sem hér er lagður skili sér í bættri stjórnsýslu, náttúruvernd og meðferð auðlinda. Sá sem þetta skrifar hefur skilning á að þingmenn hafa í mörg horn að líta, en hér hefðu þeir getað nestað sig til góðra verka. Svipað má segja um fjölmiðla, sem ég varð ekki mikið var við í Vatnsmýrinni þessa nóvemberdaga.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim