Hjörleifur Guttormsson 14. mars 2015

Ísland skorið niður úr ESB-snörunni

12. mars verður eflaust lengi minnst í stjórnmálasögu lands okkar sem dagsins þegar ljóst var að þjóðin hefði með ríkisstjórnarsamþykkt verið losuð úr viðjum aðildarumsóknar að Evrópusambandinu. Alltof lengi hafði það dregist að stjórnvöld bindu endi á þann hráskinnaleik sem settur var á svið í kjölfar hrunsins 2008.

Tveir flokkar með andstæða stefnu um aðild að Evrópusambandinu sammæltust um  ríkisstjórn vorið 2009, sem með naumum meirihluta knúði fram samþykkt á Alþingi um „að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.“ Hvor flokkurinn um sig, VG og Samfylkingin, áskildi sér rétt til að hætta þessu ferli hvenær sem væri.

Í aðdraganda þessarar samþykktar felldu þingmenn sömu flokka í júlí 2009  tillögu á Alþingi um að gengið skyldi fyrirfram til þjóðaratkvæðis um hvort sækja ætti um aðild. Um aðildarferlið sjálft voru hafðar uppi grófar blekkingar sem komu í ljós stig af stigi í viðræðuferlinu við ESB.

Eftir þriggja ára formlegar samningaviðræður við Evrópusambandið 2010‒2012 ákvað fyrrverandi ríkisstjórn að stöðva frekari aðildarviðræður í aðdraganda alþingiskosninganna vorið 2013. Í þeim kosningum töpuðu báðir stjórnarflokkarnir miklu fylgi og við tók ríkisstjórn flokka sem lýst höfðu fyrir kosningar andstöðu við ESB-aðild.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar vorið 2013 var bókað að hlé yrði gert á aðildarviðræðum og úttekt gerð á stöðu viðræðna. Ekki yrði haldið lengra í aðildarviðræðum nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Í febrúar 2014 lagði utanríkisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar fram þingsályktunartillögu þar sem ríkisstjórninni er falið að draga til baka umsókn Íslands um aðild að ESB. Ekki yrði sótt um aðild á nýjan leik nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland stefni að aðild að Evrópusambandinu.

Þessari tillögu var af stjórnarandstöðunni mætt á Alþingi með löngum og sögulegum tilburðum sem urðu til að stöðva framgang tillögunnar þannig að ekki reyndi á þingviljann í málinu. Þó virtist ljóst að fyrir tillögunni væri öruggur meirihluti. Það kemur því einkennilega fyrir sjónir þegar formaður Samfylkingarinnar gagnrýnir nú að málið sé ekki til lykta leitt á Alþingi.

Ætla verður að sá meirihluti landsmanna sem um árabil hefur lýst sig andvígan aðild  að Evrópusambandinu fagni því að endi sé loks bundinn á þetta öfugsnúna umsóknarferli. Sama gildir væntanlega um þingmenn flokka eins og VG, sem hefur þrátt fyrir allt sem á undan er gengið, enn á stefnuskrá sinni að hag Íslands sé best borgið utan ESB. Með tilkynningu ríkisstjórnarinnar er stigið réttmætt og mikilvægt skref, en síðan er það allra réttur að reyna að vinna annarri stefnu fylgi í framtíðinni.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim