Hjörleifur Guttormsson 15. október 2015

NAUST ‒ Náttúruverndarsamtök Austurlands hafa áfram verk að vinna.

Á þessu ári eru 45 ár liðin frá því stofnuð voru samtök áhugamanna um náttúruvernd á Norðurlandi og Austurlandi og hófu öfluga baráttu fyrir víðtækri náttúruvernd. Hliðstæð félög spruttu fljótlega upp í öðrum landshlutum og varð áttundi áratugurinn blómaskeið í starfsemi þeirra. Á vordögum 1970 kom hópur manna saman á Hallormsstað og sendi frá sér ávarp með áskorun um félagsstofnun. Margir sinntu því kalli og var stofnfundur NAUST haldinn á Egilsstöðum 13. september um haustið. Skráðir félagar voru þá um 150 talsins og átti eftir að fjölga í um 250 næstu árin. Ýmis félög og fyrirtæki gerðust styrktaraðilar að samtökunum. Ný náttúruverndarlöggjöf var samþykkt vorið 1971 og samkvæmt henni voru haldin Náttúruverndarþing þriðja hvert ár með víðtækri þátttöku almannasamtaka sem kusu fulltrúa í Náttúruverndarráð, og aðeins formaðurinn var skipaður af ráðherra. Fyrstu 6 árin var Eysteinn Jónsson, forseti Alþingis til 1974, formaður ráðsins, en hann hafði átt drjúgan þátt í endurskoðaðri löggjöf um málaflokkinn. Náttúruverndarráð undir hans forystu hafði náið samstarf við náttúruverndarfélögin og fleiri sasmtök almennings víða um land. Gafst þessi skipan vel og náðist fljótlega margháttaður árangur, bæði með friðlýsingum og bættum undirbúningi opinberra framkvæmda. Félagar úr NAUST voru kjörnir í Náttúruverndarráð, fyrst sá sem þetta skrifar og síðar Sigurður Blöndal.  Hélst þessi skipan fram á 10. áratuginn en þá var loks sett á fót sérstakt umhverfisráðuneyti.
            Sem dæmi um verkefni sem fengu snemma byr í samstarfi NAUST og Náttúruverndarráðs má nefna friðlýsingu Lónsöræfa, friðun Hólmaness, Helgustaðanámu og Álfaborgar svo og Ingólfshöfða. Jafnframt voru margir staðir og svæði sett á opinbera náttúruminjaskrá að tillögu NAUST. Samtökin létu sig einnig snemma varða opinberar framkvæmdir og auðlindanýtingu. Dæmi um það er að á aðalfundi 1971 var aðalumræðuefnið ofveiði og mengun og 1973 orkumál og virkjanir á Austurlandi. Ferðir voru skipulagðar fyrir almenning á hverju sumri, oft fjölsóttar, og kynntust margir þannig í fyrsta sinn stöðum sem áttu eftir að verða þekktir eins og Hvannalindum, Kverkfjöllum og Stórurð.
            Fjölmargir hafa lagt NAUST lið á áratugunum sem fylgdu í kjölfarið og mæddi eðlilega mest á stjórn samtakanna hverju sinni. Oft var um stór og umdeild mál að ræða. Þannig beitti NAUST sér fyrir samstarfi um Lagarfljótsnefnd vegna miðlunar í Fljótinu í kjölfar Lagarfossvirkjunar. Eitt tók við af öðru og bar hæst deilurnar um Fljótsdals- og Kárahnjúkavirkjanir um og eftir aldamótin. Sló þá í alvarlega brýnu við virkjunarsinna sem gerðu tilraun til að yfirtaka samtökin.
            Umfang náttúruverndarmála hefur vaxið stig af stigi síðustu áratugi, og æ fleirum verður ljóst að náttúruvernd og skynsamleg auðlindanýting er grundvallarmál, sem skilja mun á milli feigs og ófeigs. Ferðamál og umhverfisvernd voru aðalmál á aðalfundi NAUST 1973 og sá málaflokkur hefur síðan ítrekað verið til umræðu og tilefni ályktana hjá NAUST. Svo verður eflaust á þeim aðalfundi samtakanna sem boðað er til á Egilsstöðum laugardaginn 24. október. Þörfin fyrir almannasamtök um náttúruvernd er brýn nú ekki síður en fyrir 45 árum.  Þar skiptir mestu þátttaka uppvaxandi kynslóða sem eiga allt sitt undir að sjálfbær þróun verði fyrr en seinna annað og meira en fagurt fyrirheit.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim