Hjörleifur Guttormsson 15. desember 2015

Stefnumið Parísarfundarins eru afar mikilvæg, en eftirleikurinn verður ekki auðveldur

Mikilvægasta afurð COP-21 loftslagsfundarins í París um síðustu helgi er tvímælalaust viðurkenning ríkja heims á því að hverfa verði frá notkun jarðefnaeldsneytis á þessari öld eigi að forða allsherjarófarnaði. Yfirlýstir áfangar þjóðríkja um samdrátt í losun gróðurhúsalofts á næsta áratug eru fögur fyrirheit, en óskuldbindandi, og áætlanir þar að lútandi verða viðfangsefni á árlegum vettvangi loftslagssamningsins framvegis. Þannig kemur smám saman í ljós hvort staðið verður við boðaðan samdrátt í losun og hvort glíman við óhóflega hlýnun  í gróðurhúsinu Jörð er að skila árangri. Markið er sett á að stöðva sig við 1,5°C í meðalhita, sem þegar hefur hækkað um eina gráðu frá upphafi iðnbyltingar. Miðað við framkomin óskuldbindandi fyrirheit þjóðríkja stefnir hins vegar í 2,7°C, sem er afar langt yfir æskilegum mörkum.

Eftirfylgni á herðum margra

Margir eru nefndir til sögunnar þegar spurt er um hver eigi að sjá um að fyrirheitin verði ekki orðin tóm. Ríkisstjórnir hvers lands og yfirstjórnir ríkjasamsteypa eins og Evrópusambandsins verða í aðalhlutverki við að standa skil á losunarbókhaldi og stilla saman um úrræði sem eru á  þeirra valdi. En gerendur sem vísað er til eru auk almennings ekki síst fjölþjóðafyrirtæki sem flest leika lausum hala á viðskiptavelli heimsins og telja sig lítt bundin af íhlutun þjóðríkja. Breytingin burt frá jarðefnabrennslu snýr að stórfyrirtækjum í eldsneytisframleiðslu, en 90 þau stærstu bera ábyrgð á 63% heimslosunar, kunnugleg nörfn eins og BP, Shell, Gazprom, Exon Mobil og Saudi Aramco í þeim hópi. Krafan um skattlagningu kolefnis í söluafurðum slíkra fyrirtækja hlýtur að verða hávær á næstunni sem og á fyrirtæki sem stunda kolanámugröft og vinnslu úr setlögum (fracking). Eðlilegt sýnist að tekjur af slíkum skatti renni í sjóð til fátækra ríkja í tengslum við loftslagsaðlögun. Fjölbreyttasti hópurinn eru svo fjárfestar á öllum stigum og kauphallir sem leikendur á fjármálasviði. Hingað til hefur reynst torvelt að láta markaðinn lúta langtímahagsmunum og þar er líklega á ferðinni stærsti og óstýrilátasti óvissuþátturinn. Áhrifin á efnahagsstarfsemi einstakra ríkja og heimshluta munu mæta mönnum við hvert fótmál á þessari vegferð.

Skipasamgöngur og flug leika lausum hala

Skipaferðir og og flugsamgöngur, sem til samans eru fimmti stærsti þátturinn í losun gróðurhúsalofts á heimsvísu, samanlagt álíka mikið og losun frá Þýskalandi og Bretlandi til samans, en bæði þessi svið standa utan við samkomulagið. Losun frá þessari starfsemi jókst um 80%  á tímabilinu 1990-2010 og enn hefur ekkert þak verið sett á hana. Tilraun fulltrúa Marshalleyja í París í þá átt náði ekki fram að ganga. Hagsmunir ferðamannaiðnaðar og viðskipta reyndust hér vega þungt. Þessi svið heyra hvort undir sína stofnun Sameinuðu þjóðanna, sem hvorug hefur gert tillögur um þak á losun þeirra. Ólíklegt er þó að svo verði til frambúðar, annað hvort að slíkt þak verði sett eða starfsemin skattlögð. Á þetta hlýtur að reyna fyrr en síðar um leið og þrengt verður að öðrum þáttum sem miklu valda um hlýnun andrúmsloftsins.

Olíuleit á Drekasvæðinu væntanlega hætt

Í ljósi skilaboða Parísarsamkomulagsins um að þjóðir heims komist sem fyrst út úr vinnslu jarðefnaeldsneytis er frekari fjárfesting í leit að vinnslu oliu og gass augljós tímaskekkja og þá ekki síst slík starfsemi á norðurslóðum. Það verður prófsteinn á alvöru íslenskra stjórnvalda að standa við nýlegar yfirlýsingar og sýna lit, að leit að áformaðri vinnslu jarðefneldsneytis á Drekasvæðinu verði formlega hætt. Fyrrverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna gerði sig að viðundri í umhverfismálum með framgöngu í því máli og báðir flokkarnir hafa nú loksins séð sig um hönd með samþykktum landsfunda.

Ísinn brotinn á umhverfisviði.

Stærsta þýðing Parísarfundarins felst í sameiginlegri yfirlýsingu þjóða heims, stórra og smárra, um að núverandi sigling í orkubúskap heimsins stefni til glötunar og sameina verði kraftana til að snúa frá villu vegar. Athygli vekur hins vegar að Parísarfundurinn leiddi hjá sér umræðu um kjarnorku sem viðsjárverðan orkugjafa vegna gífurlegrar mengunarhættu og geilsavirks úrgangs.

Skipti á orkugjöfum burt frá kolefnisbrennslu er undirstöðumál, sem lengi hefur verið krafist af náttúruverndarfólki og öðrum framsýnum öflum, að Rómarklúbbnum meðtöldum. Eigi slík breyting  að verða í reynd þarf henni að fylgja umsnúningur á flestum öðrum sviðum í átt að sjálfbærni og jöfnuði. Vel megandi þjóðum ber að hafa forgöngu um þau efni og sýna að þeim sé alvara. Núverandi neyslusamfélög með vaxandi ójöfnuði kalla á grundvallarbreytingar eigi árangur að nást til frambúðar. Vistvæn meðferð auðlinda, skipulagsmál og breytt hagstjórn eru þeir þættir sem mest ríður á að teknir verði nýjum tökum til samræmis við gjörbreytingu í orkubúskap heimsins.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim