Hjörleifur Guttormsson 18. febrúar 2015

Forðumst yfirvofandi skipulagsslys við Skógafoss

Hraðvaxandi ferðamannastraumur erlendis frá þykir gott búsílag eftir kreppu og samdrátt á mörgum sviðum. Þótt meginþunginn beinist að höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess horfir fólk víða um land vonaraugum til þess að fá mola af þessu veisluborði með störfum við þjónustu og leiðsögn. Taka má undir það að með forsjálni í skipulagi og framkvæmdum eigi að vera unnt að taka sómasamlega á móti þeirri milljón erlendra ferðamanna sem nú leggur hingað leið sína án þess að stefna náttúruverðmætum og gæðum ferðaþjónustunnar í tvísýnu. Gallinn er sá að undirstöðuþættirnir eru víða í molum, aðstaða í grunnþjónustu allt frá salernum til verndaraðgerða á þeim stöðum sem hafa mest aðdráttarafl. Fálmkennd vinnubrögð yfirstjórnar ferðamála, fjárskortur til fyrirbyggjandi aðgerða og skammsýni þegar kemur að skipulagi á ferðamannastöðum valda því að víða stefnir í óefni, jafnvel í neyðarástand þar sem verst lætur.

Umdeilt deiliskipulag við Skógafoss

Fossar, skriðjöklar og jökullón eru dæmi um náttúrufyrirbæri sem draga að sér fjölda gesta. Glæsileg sýnishorn slíkra eru við alfaraleið þá farið er um landið sunnanvert: Urriðafoss, Seljalandsfoss, Skógafoss og Jökulsárlón, að ógleymdu Skaftafelli og öðru því sem Vatnajökulsþjóðgarður hefur að bjóða. Mannmergðin á þessum stöðum ásamt farartækjum af öllum gerðum sem henni fylgir er orðin yfirþyrmandi, þannig að mörgum ofbýður, heimafólki sem öðrum. Eigi þetta ekki að springa í höndum okkar með tilheyrandi áföllum, er vandað og framsýnt skipulag helst til bjargar. Þar reynir á sveitarstjórnir sem skipulagsaðila og aðra þá sem að ákvörðunum koma. – Í Morgunblaðinu var sl. mánudag vakin athygli á deiliskipulagi við Skógafoss á vegum Rangárþings eystra sem verið hefur í mótun um skeið. Ég kom við hjá Skógafossi sl. sumar og leist satt að segja ekki á þau mannvirki og stíga sem þegar eru í næsta nágrenni við fossinn. Nú er fyrirhugað að auka þar við svo um munar, byggja við það sem fyrir er og reisa stórt hótel og ferðaþjónustu sunnan við almenningsbílastæði. Lóðin er áætluð 9.300 m2  eða um hektari að stærð, byggingarreitur hótelsins allt að 2.200 m2, sumpart á tveimur hæðum. Mannvirki þessi eru fast við mörk friðlýsts svæðis umhverfis fossinn og verða ríkjandi í umhverfi hans. Af hverju í ósköpunum eru menn að efna í það skipulagsslys sem hér er í uppsiglingu?

Aðrir kostir innan seilingar

Auðvelt ætti að vera fyrir okkur Íslendinga að læra af mistökum fortíðar í staðsetningu gistiaðstöðu og annarrar þjónustu tengda eftirsóttum náttúrusvæðum. Þar er af nógu að taka í fortíðinni, bæði hér heima og erlendis. Bandaríkjamenn brenndu sig á því framan af síðustu öld að byggja upp gistingu í hjarta glæsilegra þjóðgarða. Síðan kom sprengingin sem fylgdi einkabílnum og aðstaðan var færð út fyrir mörk þjóðgarðanna. Hérlendis byggðu menn ferðamannaskála fast ofan í viðkvæmum náttúrufyrirbærum, eins og Landmannalaugum og á Hveravöllum, vandræðalítið miðað við aðstæður þeirra tíma. Nú ætti að vera einboðið að byggja ekki gistiaðstöðu og bílaplön ofan í náttúruperlum og margfalda þar með álag á þær, fyrir utan sjónræn lýti. Það er til bjargar á Þingvöllum að móttökustöð er nú vestan við Hakið og engin gisting nema á tjaldstæðum. Í Skaftafelli völdu menn að koma upp þjónustumiðstöð á sandinum og lagningu göngustíga þaðan. Hótelgisting er austar í Öræfum. Í Skógum er ærið landrými og ástæðulaust að setja gistihús niður steinsnar frá Skógafossi. Sunnan þjóðvegar austan Skógaár er ósnortinn sandur svo dæmi sé tekið. Þar væri nóg landrými fyrir hvers kyns gistiaðstöðu og bílaflota í góðri göngufjarlægð og með útsýni til fossins á Fimmvörðuháls.

Hugsum skipulag ferðamannastaða upp á nýtt

Það er afar brýnt að skipulag á ferðamannastöðum verði tekið öðrum og framsýnni tökum en gerst hefur víða hérlendis. Skammsýnir hagsmunir fjárfesta eða annarra mega þar ekki ráða för. Sveitarfélögin þurfa í senn aðstoð og aðhald til að rata gullinn meðalveg sem tryggi farsæla þróun á þessu sviði. Ég efast ekki um að heimamönnum í Rangárþingi eystra er annt um Skógafoss eins og öðrum sem til hans þekkja. Enn er lag til að endurmeta framkomnar skipulagshugmyndir og ég er áreiðanlega ekki einn um að vænta þess að það ráðrúm verði notað.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim