Hjörleifur Guttormsson 18. apríl 2015

Söguleg nálgun Bandaríkjanna og Kúbu

Síðustu ár hafa einkennst af versnandi horfum í alþjóðamálum, vopnuðum átökum einkum í norðanverðri Afríku og Miðausturlöndum með ólýsanlegum hörmungum. Það er því kærkomin tilbreyting að verða vitni að viðleitni til að lægja öldur og ná vísi að samkomulagi eins og nýlega gerðist í deilu Írana við umheiminn, og nú í lok páskaviku með sögulegu handtaki Obama forseta og Raúl Castro Kúbuleiðtoga á fundi Ameríkuríkja. Með slökun gagnvart Íran og viðurkenningu á Kúbu er Obama að stíga mikilvæg skref sem eru afar umdeild í Bandaríkjunum en vekja vonir um breytt og bætt samskipti víðar. Afnám viðskiptabanns á Kúbu þarf hins vegar atbeina Bandaríkjaþings og mun bera hátt í aðdraganda forsetakosninga þarlendis.

Róttæk bylting á Kúbu 1959

Í ársbyrjun 1959 héldu skæruliðasveitir undir forystu Fidels Castro inn í Havanna og steyptu af stóli Batista einræðisherra, sem þar hafði ríkt í skjóli Bandaríkjanna frá 1952. Bandarísk fyrirtæki og landeigendur voru á valdatíma hans ráðandi í efnahagslífi eyjarinnar og stjórn hans var gerspillt og illa þokkuð af almenningi sem að drjúgum hluta bjó við sára fátækt. Stjórn Castros stóð þegar í byrjun fyrir víðtækum umbótum í þágu almennings á mennta- og heilbrigðissviði, landareignum var skipt upp milli samvinnufélaga og takmörk voru sett á umsvif erlendra stórfyrirtækja. Stjórn Eisenhowers snerist frá byrjun öndverð gegn þessum nýju valdhöfum og setti viðskiptabann á Kúbu, m.a. á innflutning á sykri sem lengi hefur verið helsta útflutningsvaran. Jafnframt undirbjó bandaríska leyniþjónustan innrás í landið með þjálfun málaliðasveita, sem biðu sögulegan ósigur eftir landgöngu í Svínaflóa (Playa Girón) í apríl 1961. Þá hafði John F. Kennedy tekið við embætti forseta þannig að innrásin og áframhaldandi viðskiptabann hélt áfram í skjóli hans. Á þessum tíma og lengst af öldinni töldu Bandaríkin sig geta sagt ríkisstjórnum í Rómönsku Ameríku fyrir verkum og stóðu m.a. að baki valdatöku Augusto Pinochet í Chile 1973 sem ríkti sem einræðisherra til 1990..

Castro hrakinn í fang Sovétríkjanna

Í viðtali sem Ernest Hemingway átti við bandarískan blaðamann skömmu eftir sigur Castros á Batista og birtist í Morgunblaðinu 1. apríl 1959 lýsti hann yfir stuðningi sínum við málstað byltingarinnar: „Ég geri mér miklar vonir um byltingu Castros, því að hún hefir stuðning kúbönsku þjóðarinnar. – Ég trúi á málstað hennar.“  Hemingway hafði þá haft aðsetur í nær tvo áratugi á eynni og efnt þar í meistaraverk eins og Gamla manninn og hafið. Annar heimsþekktur rithöfundur, Jean-Paul Sartre, tók undir með málstað byltingarinnar, heimsótti Castro og út kom 1961 bókin Sartre on Cuba. Byltingunni á Kúbu var þannig fagnað af róttækum öflum og talsmönnum nýfrjálsra þjóða víða um heim. Hún var þjóðleg uppreisn með sósíalísku ívafi en ekki að sovéskri fyrirmynd eða leiðsögn úr þeirri átt. Fjandsamleg viðbrögð Bandaríkjastjórnar frá fyrsta degi gegn aðgerðum Castro-stjórnarinnar, með viðskiptabanni og hernaðaríhlutun, urðu hins vegar til að hrekja Kúbu í fang Sovétríkjanna. Þau keyptu útflutningsafurðir eyjaskeggja og brátt hófst þar uppsetning eldflaugapalla, sem leiddu til Kúbudeilunnar haustið 1962. Kjarnorkustyrjöld virtist yfirvofandi, en Kennedy og Krústsjoff Sovétleiðtogi sömdu um lausn á elleftu stundu. Skotpallarnir voru teknir niður gegn því að Bandaríkin lofuðu að virða fullveldi Kúbu.

Fidel á Ríó-ráðstefnunni 1992

Staða Kúbu á alþjóðavettvangi var einstök í þrjá áratugi fram að falli Sovétríkjanna og hefur raunar haldist þannig allt til nútíðar. Þetta eyríki á stærð við Ísland með um 11 milljónir íbúa hefur haldið uppi ríkisreknu velferðarkerfi, sem tæpast á sinn líka í þriðja heiminum, í skjóli pólitísks einræðis kommúnistaflokks Kúbu og lokað sig að mestu af frá meginreglum kapítalísks hagkerfis. Þessi sérstaða með öllum sínum annmörkum hefur ásamt rótgróinni menningu virkað sem segull á róttæklinga víða um heim, ekki síst í Rómönsku Ameríku. Ég hef ekki komið til Kúbu en á alþjóðaráðstefnum hef ég upplifað þá athygli sem talsmenn þessa smáríkis njóta í krafti sérstöðunnar. Þannig var það t.d. á Ríó-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna vorið 1992 sem á annað hundrað þjóðarleiðtoga heimsótti, þeirra á með Vigdís forseti Íslands og Fidel Castro. Ræðutími fyrir ávörp þjóðhöfðingja á fyrsta degi var 5 mínútur og hugsuðu margir fyrirfram til Fidels hvort hann myndi virða þau fundarsköp. Hann notaði samtals 4 ½ mínútu og sagði m.a.:
"Þegar horfin er ógnin sem talin var stafa af kommúnismanum og ekki er lengur hægt að bera fyrir sig köld stríð, hernaðarkapphlaup og útgjöld til hermála, hvað er það sem kemur í veg fyrir að þegar í stað sé notað það sama fjármagn til að styðja við þróun í þriðja heiminum og til að bægja frá ógninni af eyðingu vistkerfa jarðarinnar."
Lófatakið að lokinni ræðunni stóð lengur en hið talaða orð.
Nú er að sjá hvað gerist á Kúbu í kjölfar sögulegra umskipta í sambúð við risaveldið norður af.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim