Hjörleifur Guttormsson 20. febrúar 2015

Umsögn til Alþingis um frumvarp um náttúrupassa

Undirritaður hefur kynnt sér framkomið stjórnarfrumvarp, mál 455 á yfirstandandi þingi
um náttúrupassa. Það er undrunarefni að fram sé komið svo illa unnið stjórnarfrumvarp, sem hvorki er samstaða um  hjá ferðamálaaðilum né þeim sem sinna eiga náttúru- og umhverfisvernd lögum samkvæmt.
Undirritaður er andvígur ákvæðum um náttúrupassa skv. 1.‒4. grein frumvarpsins. Þess í stað ætti að afla aukinna tekna til náttúruverndar og uppbyggingar fyrirbyggjandi aðstöðu á ferðamannastöðum með eftirfarandi:

1. Hækkun á gistináttagjaldi sem kveðið er á um í lögum  nr. 87/2011;
2. Hækkun á skatthlutfalli virðisaukaskatts úr 11% í 24% af fólksflutningum, útleigu hótel- og gistiherbergja og annarrar gistiþjónustu og þjónustu ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda.
Tekjur af aukinni skattheimtu í ríkissjóð sem þessu nemur renni til náttúruverndar, uppbyggingar og verndunar á ferðamannastöðum og til öryggismála tengdum ferðamennsku.

Almennur röskstuðningur

Ferðaþjónusta hefur á síðasta aldarfjórðungi orðið æ veigameiri atvinnugrein sem keppir nú við sjávarútveg um gjaldeyrisöflun í þjóðarbúið. Árið 1990 heimsóttu um 142 þúsund erlendir ferðamenn Ísland, á síðasta ári reyndist þessi tala nálægt einni milljón sem þýðir rösklega sjöföldun á þessu tímabili. Síðustu ár hefur aukningin verið nálægt 20% milli ára. Fyrir utan tekjur af erlendum ferðamönnum verja Íslendingar miklu til ferðalaga innanlands. Stór áform eru uppi um byggingu hótela, bæði suðvestanlands og í öðrum landshlutum. Slíkt er eðlilegt miðað við fjölgun ferðamanna en ástæða er þó til að hvetja til varfærni í slíkum fjárfestingum þannig að þær verði í sem bestum takti við veruleikann. Það eru hinsvegar aðrir þættir í skipulagi og undirstöðu ferðamála hérlendis sem kalla á átak og árvekni í samstarfi einkaaðila og hins opinbera. Þar á ég við skipulag í móttöku og dreifingu ferðamanna og umfram allt að tryggja að ekki sé gengið á undirstöðu atvinnugreinarinnar sem er landið sjálft.

Aðdráttaraflið er íslensk náttúra

Margir samvirkandi þættir þurfa að vera í lagi til að tryggja góða og arðbæra ferðaþjónustu í bráð og lengd. Mannlegi þátturinn, alúðlegt og þjálfað starfsfólk skiptir þar miklu sem og fjölbreytt framboð af afþreyingu og menningartengdu efni. En svo ómissandi sem slíkir þættir eru sýna kannanir með ótvíræðum hætti að það er lega landsins og náttúra þess sem dregur þorra erlendra ferðamanna hingað. „Margir fjölsóttir ferðamannastaðir eru mjög illa farnir og þola alls ekki þann fjölda ferðamanna sem þangað koma nú og því síður fjölgun þetta.“ Þetta má lesa í tillögu um ferðamálastefnu sem lögð var fyrir Alþingi 1990. Hafi það átt við þá er ljóst að nú er komið í algjört óefni á ýmsum vinsælustu ferðamannastöðum landsins. Þetta tekur til vega, áningarstaða, göngustíga, hreinlætisaðstöðu, eftirlits með umgengni og öryggisþátta. Með hverju ári erum við þannig að ganga á auðlindina og þau þolmörk sem virða þarf svo að hægt sé að tala um sjálfbæra ferðaþjónustu. Kostnaðurinn við að bæta úr vex frá ári til árs meðan ekkert er að gert, fyrir utan hnekki fyrir orðspor landsins.
 
Auðlindagjald tengt ferðamálum

Á sama hátt og fiskistofnarnir og heilbrigð vistkerfi sjávar eru sú auðlind sem íslenskur sjávarútvegur hvílir á er það í tilviki ferðaþjónustunnar náttúra landsins. Pólitísk samstaða hefur náðst um að rekstraraðilar í sjávarútvegi greiði veiðigjald fyrir nýtingu sjávarauðlindanna. Hliðstæðan mælikvarða er eðlilegt að leggja á nýtingu landsins af hálfu fyrirtækja í ferðaþjónustu og að tekjum af álögðu gjaldi sé varið til viðhalds á undirstöðu greinarinnar, ekki síst til grunnuppbyggingar og endurbóta á áningarstöðum. Þar fyrir utan er sjálfsagt að tekið sé gjald fyrir veitta þjónustu á hverjum stað, án þess að það rekist á við almannarétt til umgengni um landið. Hugmyndir um innheimtu aðgangseyris af ferðamönnum við innkomu á einstaka ferðamannastaði eru hins vegar dæmdar til að mistakast. Gera verður þá kröfu til yfirstjórnar ferðamála að kannaðar verði og kynntar mismunandi leiðir til gjaldtöku áður en ákvarðanir eru teknar. Til hliðsjónar má hafa reynslu erlendis frá í þessum efnum, m.a. á Nýja-Sjálandi.

Skipulag og fjölgun friðlýstra svæða

Dreifing ferðamanna er liður í að nýta sjálfbært í þágu ferðaþjónustu þá auðlind sem landið er. Skipulag þar að lútandi þarf að byggja á þekkingu sem aflað hefur verið með rannsóknum og auka markvisst við þær. Hálendið er sérstaklega mikilvægt í þessu samhengi en um leið viðkvæmt. Ýmis víti er þegar að varast eins og í Landmannalaugum og á Hveravöllum þar sem alltof mörgu fólki er stefnt saman til dvalar samtímis fast ofan í náttúrugersemum. Rannsóknir sem Anna Dóra Sæþórsdóttir og samstarfsmenn hafa staðið fyrir á viðhorfi manna til ferðalaga á miðhálendinu skapa mikilvægan grunn sem hægt er að byggja á vel útfært og heildstætt hálendisskipulag. Jafnhliða gerð þess þarf að vinna að friðlýsingu stórra svæða og víðerna á miðhálendinu. Vonandi sameinast Alþingi um samþykkt fyrirliggjandi tillögu um Hofsjökulsþjóðgarð og eftir engu er að bíða að leita samstöðu um Mýrdalsjökuls- og Langjökulsþjóðgarð með nálægum landsvæðum.

Náttúruvæn ferðamennska

Miklu skiptir fyrir þróun ferðamála að hún tengist framsækinni stefnu í náttúru- og umhverfisvernd. Náttúruvæn ferðamennska (ecotourism) ryður sér nú til rúms víða, þar sem í skipulagi og framkvæmd er leitast við að lágmarka áhrif á umhverfið og laða að ferðafólk sem samsamar sig slíkri nálgun. Kyndilberi á þessu sviði er Kosta ríka í Mið-Ameríku, herlaust smáríki, helmingi minna en Ísland að flatarmáli og með um fjórar milljónir íbúa. Um fjórðungur landsins er friðlýstur sem náttúruverndarsvæði, mörg af þeim skipulögð sem þjóðgarðar. Við Íslendingar eigum líka möguleika á að verða fyrirmyndarland í ferðamennsku með því að samþætta hana náttúruvernd og norðlægum aðstæðum. Það gerist hins vegar ekki af sjálfu sér heldur sem niðurstaða af meðvitaðri og framsýnni stefnumörkun. Öflun nauðsynlegs fjármagns er þar undirstöðuatriði og sú leið sem hér er bent á getur skilað umtalsverðum fjárhæðum þegar á næsta ári. Það er eðlilegt að atvinnugreinin sjálf standi undir fjáröflun til að tryggja sjálfbæran grundvöll ferðaþjónustunnar.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim