Hjörleifur Guttormsson | 22. október 2015 |
Hringborð norðursins í Hörpu var ánægjulegur stórviðburður Það er ekki á hverjum degi sem augu umheimsins beinast að norðurslóðum og sviðsljósið fellur á Ísland í leiðinni. Þetta var þó að gerast um síðustu helgi þriðja árið í röð á ráðstefnunni Arctic Circle eða Hringborð norðursins sem sótt var af nær 2000 skráðum þátttakendum. Þessi liðssafnaður átti það sameiginlegt að fræða og vilja fræðast um umhverfi norðurslóða, miðla af þekkingu og niðurstöðum rannsókna og fjalla um leiðir til að bregðast við hröðum umhverfisbreytingum á norðurskautssvæðinu. Þarna birtist Frakklandsforseti rifinn upp úr dagsins önn heima fyrir, forsætisráðherrar vestnorrænu landanna og sendiherrar fleiri en tölu væri á komið, háskólanemar og áhugafólk um umhverfisvernd og umfram allt fjöldi vísindamanna sem miðluðu áheyrendum af niðurstöðum sínum á þessum þriggja daga fundi. Þakkavert frumkvæði forseta Íslands Ég hef fylgst með þessu hringborði í Hörpu frá byrjun og fundið hvernig það hefur þroskast að innihaldi og dregið að sér vaxandi athygli umheimsins þannig að fáir sem það sækja efast Vaxandi athygli á norðurslóðum Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með breyttu viðhorfi umheimsins til norðurslóða síðasta aldarfjórðung. Í aðdraganda Ríó-ráðstefnunnar 1992 var norðurskautið ekki talið verðskulda umfjöllun sem sérstakt svæði. Í okkar heimshluta snerist umræðan þá mest um stækkun Evrópusambandsins. Í greinargerð með þingsályktunartillögu um Norðurstofnun á Akureyri sem undirritaður flutti 1994 voru niðurlagsorðin þessi: „Nú um skeið hafa forráðamenn þjóða í norðanverðri Evrópu litið mest í suðurátt og eru Íslendingar í þeim hópi. Mál er að horfa til fleiri átta og þar er norðrið nærtækt og örlagavaldur í lífi þjóðarinnar fyrr og síðar. Brýnt er að efla þekkingu okkar á norðurslóðum til að geta stuðlað að sjálfbærri þróun á þessu svæði sem miklu varðar um afkomu Íslendinga.“ Síðan þá hafa stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Háskólinn á Akureyri og margir fleiri lagt til góðan skerf, þrátt fyrir takmörkuð fjárráð. Hlýnunin og súrnun sjávar Á vegum Norðurskautsráðsins hefur verið safnað saman fjölþættum upplýsingum um hafís, lífríki, mannlíf, mengun og aðra umhverfisþætti á norðurslóðum. Um það vitnar fjöldi útgefinna skýrslna, m.a. samantekt um líffræðilega fjölbreytni í norðri (CAFF 2013). Fyrsta skýrsla ráðsins um loftslagsmál kom út 2004 þegar fram voru komnar vísbendingar um langtum örari hlýnun á norðurslóðum en á suðlægari breiddargráðum. Sú vitneskja skýrir m.a. öra bráðnun íssins í norðurhöfum, en hann gæti heyrt sögunni til í lok þessarar aldar. Súrnun sjávar tengist þessum breytingum og áhrifin á veðurkerfi eru talin geta orðið stórfelld. Aðrir þættir eins og þiðnun sífrera kunna að magna enn frekar upp þær breytingar sem þegar eru í gangi. Enginn er eyland í þessu umróti og fyrir okkur Íslendinga sem fiskveiðiþjóð er hér augljóslega mikið í húfi. Loftslagsmálin og olíuvinnsla Orsakavaldur þeirra manngerðu loftslagsbreytinga sem nú eru ræddar á samkomum víða um heim er orkubúskapur með jarðefnaeldsneyti. Á norðurslóðum er að finna um fjórðung af ónotuðum forða slíkra efna. Nýtingu þeirra sem orkugjafa verður ekki líkt við annað en sjálfsmorð. Á ráðstefnunni í Hörpu lýstu færeyskir stjórnmálamenn vonbrigðum yfir að 20 ára olíuleit hefði engum árangri skilað. Rödd úr sal óskaði þeim til hamingju með þessa niðurstöðu. Íslenski forsætisráðherrann átti síðasta orðið á ráðstefnunni. Hann missti af því gullna tækifæri að aflýsa öllum áformum um leit og vinnslu olíu á Drekasvæðinu. Hjörleifur Guttormsson |