Hjörleifur Guttormsson xx. janúar 2015

Parísarráðstefnan, loftslagsbreytingar og þögn íslenskra stjórnvalda

Mikið er undir á ársfundi aðildarríkja Loftslagssamnings SÞ (COP-21) sem hefjast á í París um komandi helgi. Allt frá því staðið var upp eftir árangurslausan fund sömu aðila í Kaupmannahöfn 2009 hefur verið leitað samkomulags í stað Kyotóbókunarinnar frá 1997 um að bregðast við augljósum og háskalegum loftslagsbreytingum af  mannavöldum. Þar var þó samþykkt að stefna að því að halda hlýnun andrúmsloftsins að meðaltali innan við 2°C og að iðnríkin legðu þróunarríkjum til 100 milljarða dollara árlega til að aðstoða þau við aðlögun að röskun á loftslagi jarðar. Augljóst var að meginábyrgð á að ekki náðist víðtækt samkomulag á Kaupmannahafnarfundinum var andstaða Bandaríkjanna og Kína, en hvorugt ríkjanna, sem til samans losa um 40% gróðurhúslofts, hafði tekið á sig skuldbindingar samkvæmt Kyótó. Vonir um að nú megi ná árangri byggjast ekki síst á því að á síðasta ári lýstu bæði Kína og Bandaríkin yfir vilja sínum til að takmarka losun, þó án skuldbindandi markmiða. Þannig var í fyrra í Líma lagður grunnur að þeirri aðferðafræði sem síðan hefur verið unnið eftir í aðdraganda Parísarfundarins, þ.e. að hvert einstakt aðildarríki að loftslagssamningi SÞ tilgreini þær skuldbindingar sem það sé reiðubúið að taka á sig eftir 2020. Summa þeirra skuldbindinga eigi að skila því markmiði að halda hlýnun innan 2°C-marksins. Tekist verður á um lagalega stöðu þessara áforma á fundinum í París og þar með hvort til verður samkomulag sem eitthvert hald reynist í.

Fjölmargar efasemdaraddir

Nú í aðdraganda Parísarfundarins heyrast varnaðarorð úr ýmsum áttum. Þau snerta í senn aðferðafræðina og mat á því hvort eitthvert hald verði í hugsanlegu samkomulagi. Lyfta þarf grettistaki ef komast á út úr öngstræti jarðefnaeldsneytis sem orkugjafa. Menn eru brenndir af skilningsleysi og skammtímahugsun á liðinni tíð og síendurtekinni refskák sterkra hagmunaafla. Allt frá því um 1970 sýndu mælingar vísindamanna á Hawai hvert stefndi með uppsöfnun gróðurhúsalofts í andrúmsloftinu og forspá þeirra hefur fullkomlega gengið eftir (sjá mynd). Það tók hins vegar alþjóðasamfélagið tvo áratugi að ná saman um loftslagssamninginn á Ríó-ráðstefnunni 1992 og síðan 5 ár að leggja grunn að Kýótóbókuninni. Eftir að hún rann sitt skeið 2012 fengust aðeins nokkur ríki, sem stóðu fyrir um 15% heimslosunar, til að styðjast áfram við þessa bókun fram til ársins 2020. Hópur vísindamanna við MIT í Bandaríkjunum sem leggur mat á framtíðarhorfur í umhverfis- og orkumálum fullyrðir að fyrirhugað samkomulag sé verra en ekkert, m.a. þar eð það byggi á óskhyggju og skammsýnum eiginhagsmunum. Jafnvel OPEC sé í hópi ábekinga! Forysta SÞ leggi nú mest upp úr sýndarárangri. 2°C-markið þýði að takmarka verði CO2-losun við samtals 1000 gígatonn og jafnvel þótt staðið yrði við allar framkomnar skuldbindingar væri því marki náð um 2030 og engu mætti bæta við í losun þaðan í frá. Margvísleg gagnrýni hefur einnig komið frá alþjóðasamtökum eins og Oxfam og Greenpeace, m.a. að engin skilyrt gagnkvæmni sé innbyggð í ferlið og áhugasamtökum hafi verið haldið frá undirbúningi fundarins.

Segja verður skilið við jarðefnaeldsneyti

Lengi hefur verið ljóst að árangri verður ekki náð í glímunni við loftslagsbreytingar af mannavöldum nema markvisst verði dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis. Með núverandi aukningu stefnir í 5°C hlýnun í stað 2°C sem talið er það hámark sem unnt væri að búa við. Um þrefalt meiri birgðir jarðefnaeldsneytis eru þekktar en hægt væri að nýta ef halda á sig innan við 2°C-markið. Samkvæmt nýlegum niðurstöðum athugana University College í London þyrfti að láta um 80% af kolum ónotuð, um 50% af jarðgasi og þriðjung af þekktum olíulindum. Engin skynsemi sé í að hreyfa við olíu og gasi á norðlægum slóðum. Eigi að nást samkomulag um fjárhagslega hagkvæma nýtingu innan þessara marka á heimsvísu þurfi að verja stórum fjárhæðum í millifærslur til að bæta þeim sem láta af nýtingu þessara birgða. Hér væri á ferðinni hagsmunadæmi á heimsvísu af áður óþekktri stærð. Þetta sýnir jafnframt hversu óskynsamlegt er að verja háum fjárhæðum á vegum ríkja og fyrirtækja í leit að frekari birgðum þessara úreltu orkugjafa. Meðfylgjandi mynd  frá Global Commons Institute (GCI) sýnir hvernig einstök lönd og svæði þurfa að draga saman í losun fram til næstu aldamóta til að halda hlýnun innan þolanlegra marka.

Hver verður stefna íslenskra stjórnvalda?

Íslensk stjórnvöld hafa frá því loftslagsmálin komu á dagskrá alþjóðasamfélagsins leikið tveim skjöldum. Stuðningur þeirra við Kyótóbókunina var bundinn því skilyrði að losun frá álverum yrði tekin út úr bókhaldinu! Nú hengir ríkisstjórnin sig á snaga hjá ESB um 40% samdrátt í losun til 2030, en engin áætlun þar að lútandi hefur enn séð dagsins ljós. Á sama tíma eru í undirbúningi nokkur stóriðjuver sem bæta drjúgum við losunarbókhaldið. Við skulum vona að þögn íslenskra stjórnvalda bendi ekki til að enn eigi að fara á flot með sérstakar undanþágur Íslandi til handa.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim