Hjörleifur Guttormsson 25. júní 2015

Á ferð um landið á sumarsólstöðum

Það er ánægjuleg tilbreyting að rífa sig upp frá daglegu amstri í höfuðstaðnum og verja vikutíma í heimsókn um kunnuglegar slóðir nyrðra og eystra. Landið skartaði sínu fegursta í bjartvirði alla leiðina norður, fjöll snævikrýnd, úthagi grár eftir kalt vor og lambfé enn á túnum. Þjóðvegurinn kemur betur undan vetri en búast mátti við, ólíkt götunum í höfuðstaðnum. Blönduóslögreglan er á sínum stað við umferðareftirlit og þyrfti að eiga sér fleiri bandamenn á hringveginum. Tilefni ferðar okkar var að þessu sinni skólaslit við Menntaskólann á Akureyri, sem ég kvaddi fyrir 60 árum ásamt 43 bekkjarfélögum vorið 1955. Þriðjungur hópsins er horfinn yfir móðuna miklu, ámóta margir áttu ekki heimangengt, en síðasti þriðjungurinn var  hér samankominn og samfagnaði ungum og eldri árgöngum sem vitjuðu síns gamla skóla.

Skólabærinn Akureyri

Akureyri er vaxandi skólabær. Fyrir tíu árum heimsóttum við Verkmenntaskólann á Akureyri, og sá skóli hefur dafnað og stækkað síðan undir stjórn Hjalta Jóns Sveinssonar, nemendafjöldinn um 1200 síðasta skólaár. Nú lögðum við leið okkar í Háskólann á Akureyri og fengum góðar móttökur hjá Eyjólfi Guðmundssyni rektor sem kynnti stofnun sína af bjartsýni, enda skólinn vaxandi að nemendafjölda og námsframboði, konur sem víðar í drjúgum meirihluta. Einnig heimsóttum við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar í Borgum þar sem forstöðumaðurinn Níels Einarsson tók á móti hópnum og greindi frá starfi þessa norðurslóðaseturs sem gegnir mikilvægu hlutverki innanlands og alþjóðlega. Því tengist prófessorsstaða í norðurslóðafræðum við Háskólann. Megintilefnið voru síðan hátíðarhöld og skólaslit Menntaskólans eins og löng hefð er orðin fyrir með samkomum í Íþróttahöllinni. Þar er skipst á kveðjum og gamanmálum og fram fór hátíðleg útskrift 152 nýstúdenta að morgni þjóðhátíðardags. Ekki færri en 900 manns hlýddu á efnismikla skólaslitaræðu Jóns Más Héðinssonar skólameistara. Okkur gamlingum þótti miður að heyra að latínunám væri nú aflagt í MA, hefðum heldur viljað sjá það aukið en kastað fyrir róða.

Boðskapur skólameistara

Í útskriftarræðu sinni fjallaði skólameistari MA meðal annars um brotthvarf nemenda úr skóla og orsakir þess og nauðsynleg viðbrögð. (Sjá heimsíðu skólans www.ma.is ) Tækniheimurinn og sölumennska honum tengd tæki athygli nemendanna og við því þyrfti að bregðast með því að skólarnir kenndu nemendum að nýta sér tækin til gagns. Meginhugsjónin ætti að vera að efla öryggi og sjálfsvitund nemenda með ráðgjöf og fyrirbyggjandi aðgerðum. Hins vegar væri eitt helsta vandamál nemenda æfingarleysi í lestri, og það þyrfti að bæta, helst með samstarfi skóla og heimila. Eins þyrfti að efla forvarnir gegn kvíða og vaxandi vanlíðan skólanemenda. Hafin væri í skólanum rannsókn nokkurra kennara með nemendum, sem stefndi að því að nemendur rannsaki eigin feril og finni leiðir til að bæta árangur sinn í skóla. Skólinn ætti skv. námskrá að vera skapandi lærdómsstofnun. „Við setjum okkur það markmið að mennta nemendur sem sjálfstæða borgara með sterka siðferðisvitund,“ sagði Jón Már. – Ónóg lestrarfærni og dreifing hugans vegna áreitis fjölmiðlunar og tækninýjunga er örugglega orðin almennt vandamál í skólastarfi sem bregðast þarf við á öllum námsstigum.

Möðrudalur á Efra-Fjalli

Frá Akureyri lá leiðin til gistingar í Möðrudal á Fjöllum, sem nú er hæst byggðra bóla yfir sjó hérlendis. Bærinn var í alfaraleið fram um síðustu aldamót og liggur nú sem fyrr við gömlu fjallgarðaleiðina um 8 km frá þjóðvegi 1. Hvergi á Íslandi njóta menn viðlíka útsýnis suðvestur um Ódáðahraun, til Herðubreiðar og inn til Kverkfjalla. Hér gerðu Jón Stefánsson (1919–1971) og Þórunn Vilhjálmsdóttir Oddsen garðinn frægan á öldinni sem leið, m.a. með kirkjubyggingu á eigin vegum. Möðrudalur var prestsetur fram til 1716 og sérstök sókn við hann kennd á miðöldum og náði til býla á Efra-Jökuldal. Nú er fjárbú og vaxandi ferðamannabýli í Möðrudal, hvort tveggja byggt á gömlum hefðum en með öllum nútímaþægindum. Húsráðendur eru ung hjón, Vilhjálmur Vernharðsson af Möðrudalsætt og Elísabet Svava Kristjánsdóttir, leiðsögumaður og flugmaður. Héðan liggur hálendisslóð inn á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, í Hvannalindir og Kverkfjöll.

Skógardagurinn mikli

Með þessari fyrirsögn hefur verið endurvakin fjölskylduhátíð skógarbænda og tengdra stofnana eystra, nú haldin í 11. sinn um síðustu helgi í Mörkinni á Hallormsstað.  Sú spilda var friðuð fyrir sauðfé fyrst reita á staðnum 1902 og er nú lögð undir vinsælt Trjásafn Skógræktar ríkisins. Samkomulag skógarunnenda og fjárbænda er nú orðið svo náið og gott að samtök þeirra síðarnefndu lögðu til sérstaka dagskrá og dilkakjöt á aðfararkvöldi hátíðarinnar. Allt fór þetta fram að viðstöddum 1200 manns og með fjölbreyttri dagskrá í einmunablíðu, sem sagt er að fylgt hafi þessari samkomu frá upphafi. Munurinn á þessari skemmtun og Atlavíkursamkomum fyrri tíðar felst m.a. í að enginn ber það við að vökva hér sálartetrið með áfengi og stjórnmálamenn hafa hægt um sig. Á þessari sólstöðuhátíð ríkti því friðsældin ein.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim