Hjörleifur Guttormsson 28. janúar 2015

Upplýsingar um kofana á Fagradal

Með vegalögum sem samþykkt voru á Alþingi í apríl 1894 var gert ráð fyrir flutningabraut fyrir hestvagna um Fagradal, en framkvæmd við hana var sett aftast af níu tilgreindum. Um þetta leyti og allt fram um aldamót stóðu yfir allheitar deilur um það meðal Austfirðinga, hvort leggja ætti slíka braut yfir Fjarðarheiði, Eskifjarðarheiði eða um Fagradal. (Magnús Bl. Jónsson. Endurminningar II. Reykjavík 1980, s. 246‒252). Stóð tæpt að Fagridalur hefði vinninginn umfram hinar leiðirnar og kæmist inn í nefnda lagaheimild.

Kofi byggður haustið 1901

Í ársbyrjun 1900 var síðan lögfest að brúa skyldi Lagarfljót við Egilsstaði og koma jafnframt upp svifferju úti við Steinsvað. (Hjörleifur Guttormsson. Úthérað. Árbók Ferðafélags Íslands 2008, s. 209). Var brúarefni skipað upp á Reyðarfirði 1901 og brátt hafist handa við að leggja vegslóða yfir Fagradal, þar sem enginn slíkur var fyrir. Komst efnið þá um haustið upp að Biskupshlaupi og var fyrirhugað að aka því á gaddi yfir dalinn um veturinn 1901‒1902. „Var því byggður kofi á miðjum dalnum fyrir menn og hesta“ haustið 1901. (Hrólfur Kristbjörnsson. Brot úr sögu vegagerðar í Suður-Múlasýslu. Múlaþing 2 1967, s. 154‒164) Hélt annar af tveimur vinnuflokkum til í kofanum nýreista, en vinnuflokkur kom af Héraði á móti. Tókst að koma brúarefninu í Egilsstaði sumarið 1902, en tafir urðu á framkvæmdum við brúna, sem loks var vígð 14. september 1905.

Mikilvægur áningastaður

Kofinn frá 1901 á Fagradal gegndi miklu hlutverki sem áningarstaður næstu áratugi og eru ýmsar frásagnir því til staðfestingar. Fyrstu tilraunir með akstur bíla yfir dalinn hófust á árunum 1916‒1917 og um 1930 voru hestakerrur að mestu úr sögunni, en varningur öðrum þræði fluttur á klakk yfir Þórdalsheiði allt til 1945. Vegurinn yfir dalinn var ófær meginhluta vetrar fram að endurbyggingu hans á árunum 1954‒1978. Í óveðursköflum máttu menn með póst og annan flutning á hestasleðum dúsa dögum og jafnvel vikum saman í Kofa. (Hjörleifur Guttormsson. Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar. Árbók Ferðafélags Íslands 2005, s. 20‒22) Frásögn Hrafns Sveinbjarnarsonar frá ferð yfir dalinn snjóaveturinn 1936 á útmánuðum er lýsandi um slíkar aðstæður:

Þá, 1936, og miklu lengur lá vegurinn allajafna djúpt undir fönn og þegar verst gegndi slíkum snjóþyngslum að símastaurar hurfu á köflum og dalurinn öðlaðist vetrarsvip upprunans, nema hvað „kofinn“, þ.e. sæluhúsið frá 1901, stóð á hávaða syðst undir Sauðafellshlíðum, byggður úr torfi og grjóti og tvískiptur fyrir hesta og menn. Pallur og einhverjar þiljur í innri hlutanum, eldavél og stundum fábreytt matföng og strigadýnur handa mönnum, kolamolar í kassa við maskínuma, oliulögg í dunk og vegglampi, en í fremri hluta steyttir heypokar vegna hestanna.
Pétur Jónsson á Egilsstöðum hafði póstinn yfir dalinn mjög lengi, útbúinn með hesta og sleða og hrausta menn sem fóru ferðirnar ásamt honum oft, en stundum einir. Og þeir sem þurftu að komast leiðar sinnar, t.d. í skip á Reyðarfirði, eða flytja eitt og annað yfir dalinn nutu fyrirgreiðslu Péturs og pilta hans og mjög oft gistingar og beina þeirra Elínar og Péturs. ... [Hrafn segir síðan frá því að hann fór frá Egilsstöðum í Kofa að hjálpa mörgu fólki sem þar var veðurteppt til byggða, þar á meðal voru sjúklingar] „Niðurstaðan var sú að leggja tafarlaust af stað. Vistin á hestunum var ill; þeir stóðu svo þétt að ekki var hægt að troða sér meðfram þeim og varð að skríða eftir bökum þeirra til að komast í mannlegu vistarveruna í húsendanum. Heyforði var því sem nær til þurrðar genginn og matföng lítil nema freðýsan, en það sem úrslitum réð voru síst batnandi veðurhorfur. Þegar á allt var litið – ekki betra að bíða næsta dags. ... Þetta veður var upphaf á hálfs mánaðar ótíðarkafla, svo að ekki þurftum við að iðrast þess að brjótast til byggða.“ (Ármann Halldórsson. Hrafn á Hallormsstað og lífið kringum hann. Reykjavík 1986, s. 115‒118)

 
Nýr kofi byggður 1940

Í árbók Ferðafélags Íslands 1940 er „Skrá yfir sæluhús“ á öllu landinu, þá talin vera 169 talsins. Þar má lesa á síðu 55:

            109. Sæluhús á Fagradal (V.R.) [vegagerð ríkissjóðs]
milli Héraðs og Reyðarfjarðar, um vatnaskil á miðjum dal. Vistlegt og vandað. Byggt 1940 úr timbri, járnklætt, 4,5 x 3,8 m að stærð, fordyri og rúmgóð stofa með 6 rúmstæðum og eldavél. Nokkuð svefnrými á bitalofti. Gamla sæluhúsið stendur rétt hjá og er nú notað fyrir hesta.

Ekki hef ég séð heimild um hvenær gamla sæluhúsið var rifið, en ég hygg það hafi verið horfið í árslok 1950 þegar ég gekk fyrst yfir Fagradal á skíðum í veg fyrir skip á Reyðarfirði.

Myndir af kofunum

Vigfús Ólason, lengst af búsettur á Reyðarfirði en nú syðra, hefur gefið mér ýmsar upplýsingar um kofana og miðlað mér ljósmyndum, sem teknar eru af Kristjáni Ólasyni fyrrum klæðskera á Reyðarfirði og komnar úr vörslu Magnúsar sonar hans. Afi Vigfúsar Ólasonar, Vigfús Jónsson verkstjóri, starfaði lengi hjá Vegagerðinni og kom að viðhaldi beggja kofanna. Ég læt hér fylgja með tvær ljósmyndir Kristjáns, sem sýna báða kofana, trúlega teknar á 5. áratug síðustu aldar. Af annarri má sjá að Kofinn hefur öðrum þræði gagnast sem skíðaskáli. Ítrekað skal að Kristján Ólason er höfundur að þessum myndum.

Vegminjar

Auk Kofans á Fagradal er á dalnum, einkum austan Fagradalsár, að finna alllanga kafla af gamla bílveginum ásamt brúarstæðum, og líklega fylgdi hann sömu slóð og lögð var sem kerruvegur upp úr aldamótunum 1900. Ég teldi eðlilegt að þessari slóð verði haldið sem hluta af vegminjum og henni ekki raskað frekar en orðið er.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim