Hjörleifur Guttormsson 28. maí 2015

Bæta verður úr vanrækslu gagnvart Náttúruminjasafni Íslands

Ísland er líklega eina landið í Evrópu sem ekki státar af myndarlegu náttúrufræðisafni í höfuðstað sínum. Hér hóf Hið íslenska náttúrufræðifélag (HÍN) að koma slíku safni á fót 1889 og árið 1908 flutti safn þess í myndarlegan sýningarsal í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Árið 1946 voru sýningargestir þar um 15 þúsund talsins. Ári síðar afhenti HÍN ríkinu safnið til eignar ásamt byggingarsjóði félagsins gegn loforði um að byggt yrði yfir safnið á lóð Háskólans. Það gekk ekki eftir. Þó var af vanefnum komið upp sýningu náttúrugripa í leiguhúsnæði Náttúrufræðistofnunar Íslands við Hlemm og var hún opin almenningi á árunum 1967‒2008 en þá lokað. Árið 2007 voru sett lög um Náttúruminjasafn Íslands sem eitt af þremur höfuðsöfnum landsins en ekki bólar enn á sýningarsafni á þess vegum og málefni þess eru í ládeyðu og fullkominni óvissu. Mennta- og menningarmálaráðuneytið sem ábyrgðarmaður opinberra safna, hefur að undanförnu sýnt lítinn metnað í að bæta úr þessu ástandi. Við svo búið má ekki standa.

Skýrsla og tillaga um Perluna 2012

Í janúar 2012 sendi Ríkisendurskoðun að eigin frumkvæði frá sér skýrslu um Náttúruminjasafn Íslands. Þar er forsagan rakin og gagnrýnt að lítil og ónóg stefnumörkun hafi farið fram um málefni safnsins í aðdraganda lagasetningarinnar 2007. Er þar frá því greint að forstöðumaður safnsins hafi gert fimm atrennur að stefnumörkun fyrir safnið fyrstu árin en engin þeirra hlotið samþykki ráðuneytisins. Ekki hafi ráðuneytið sjálft heldur haft frumkvæði að því að móta stefnu um rekstur þess. Framlög til safnsins námu á þessum fyrstu 5 árum að meðaltali aðeins um 24 mkr árlega og fóru lækkandi.
Skýrsla Ríkisendurskoðunar var rædd á Alþingi 3. febrúar 2012 að frumkvæði þáverandi menntamálaráðherra. Tóku þingmenn úr öllum flokkum þátt í umræðunni og hvöttu til aðgerða í þágu safnsins. Fáum dögum seinna settu áhugamenn um málefni Náttúruminjasafns fram hugmynd um að nýta Perluna til sýningarstarfsemi fyrir safnið og buðu fram aðstoð við undirbúning. Hugmyndin var sett í mat starfshóps á vegum ráðuneytisins og Reykjavíkurborgar sem eigenda Perlunnar. Niðurstaðan var jákvæð og gáfu ráðherra og borgarstjóri út viljayfirlýsingu þar að lútandi. Leigusamningur til 15 ára var síðan undirritaður 13. mars 2013, staðfestur af ráðherrum. Fyrirheiti um fjárveitingu á fjárlögum árins 2014 var hins vegar hafnað af nýrri ríkisstjórn.

Eftirfylgni Ríkisendurskoðunar

Nú í maí sendi Ríkisendurskoðun frá sér svonefnda „eftirfylgni“ við fyrri skýrslu um málefni Náttúruminjasafnsins. Er það lofsvert framtak, skilmerkileg en afar dapurleg lesning um vanrækslu og sinnuleysi stjórnvalda um málefni þessa mikilvæga safns. Þar segir m.a.:

„Könnun Ríkisendurskoðunar árið 2015 leiddi í ljós að ekki hefur verið brugðist við ábendingu stofnunarinnar um mótun framtíðarstefnu fyrir Náttúruminjasafn Íslands. Safnið er rekið án formlegrar stefnu og af vanefnum og starfsemi þess uppfyllir ekki þær skyldur sem því eru settar í lögum um safnið og í safnalögum nr. 141/2011. Að mati Ríkisendurskoðunar er viðunandi húsnæði ein helsta forsenda þess að Náttúruminjasafn Íslands geti sinnt verkefnum sínum og skyldum. ... Ríkisendurskoðun telur nauðsynlegt að tekið verði af skarið um hvernig öllum lögbundnum verkefnum þess verði sinnt til lengri tíma litið.  Það verður ekki gert nema með skýrum markmiðum og raunhæfri stefnu sem nýtur stuðnings bæði mennta- og menningarmálaráðuneytis og fjárveitingarvaldsins.“

Viðbrögð ráðuneytisins við fyrirspurnum Ríkisendurskoðunar eru nú sem fyrr veikluleg og óskýr. Í svari þess segir að ekki hafi verið fengin niðurstaða um athuganir á sýningu í Perlunni, „en vegna mikilvægis verkefnisins fyrir starfsemi safnsins hefur frekari vinna við framtíðarstefnu fyrir það verið látin bíða þar til hún verður ljós.“ Einnig komi til álita af hálfu ráðuneytisins tillögur hagræðingarhóps frá 11. nóv. 2013, sem snúi að söfnum sem rekin eru á vegum ríkisins. Allt er þetta í véfréttastíl.

Látum ekki skammsýni lengur tefja för

Hlutverk náttúruminjasafna er ekki síst að styðja við fræðslu og efla skilning uppvaxandi æsku á náttúru Íslands, verndun hennar og þeim lögmálum sem að baki búa. Tækifærin til nútímalegrar miðlunar í söfnum hafa gjörbreyst frá því sem áður var og opinberar rannsóknastofnanir geta stutt við starfsemi safnsins. Á sama hátt styður myndarlegt náttúruminjasafn við ferðaþjónustu og sjálfbært atvinnulíf og bætta umgengni við náttúru og auðlindir landsins. Það er að mínu mati óverjandi skammsýni að skapa ekki Náttúruminjasafni Íslands góð skilyrði hið fyrsta. Forstöðumaður vinnur ekki kraftaverk með tvær hendur tómar. Perlan á Öskjuhlíð með sínu umhverfi er ákjósanlegur staður fyrir safnið og mikil aðsókn sem þar er fyrirsjáanleg mun á fáum árum skila tilkostnaði til baka. Viðbótarhúsnæði fyrir geymslur og skrifstofur er auðvelt að koma smekklega fyrir í grenndinni. Látum kjark og djörfung frumherja HÍN fyrir meira en öld verða okkur leiðarljós.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim