Hjörleifur Guttormsson | 29. apríl 2015 |
Áskorun um heildstæð lög um gróður- og jarðvegsvernd Okkur Íslendingum ætlar seint að takast að umgangast landið að siðaðra manna hætti. Við gengnar kynslóðir þýðir lítt að sakast, en nú er engin afsökun fyrir þeim afglöpum sem einkenna í ríkum mæli samskipti við landið. Aukin þekking á íslensku umhverfi og náttúru landsins ætti ásamt alþjóðlegum viðhorfum og reynslu að nægja til betri umgengni við auðlindina gróður og jarðveg. Íslenskir vísindamenn eru stöðugt að bæta í þekkingarsjóðinn, nú nýverið náttúrufræðingarnir Snorri Baldursson og Ólafur Arnalds með ágætum bókum. Eftir sem áður blasir við spurningin: Er vilji hjá löggjafar- og framkvæmdavaldi til að nýta sér þekkinguna og móta ramma um nýtingu og viðhald þessarar auðlindar? Hálfrar aldar gamlir lagabálkar Fyrstu lögin um „skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands“ voru sett árið 1907 en sjö árum síðar var verkefnunum skipt upp milli tveggja stofnana, Sandgræðslu Íslands og Skógræktar ríkisins. Að baki upphaflegu lögunum bjó í senn hugsjónaeldur og knýjandi nauðsyn. Gildandi lög um skógrækt eru frá árinu 1955 og lög um landgræðslu frá árinu 1965, en aðeins minniháttar breytingar hafa síðan verið á þeim gerðar. Sandgræðsluheitinu var 1965 breytt í Landgræðsla ríkisins. Margar atrennur hafa verið gerðar síðan af hálfu stjórnvalda til heildarendurskoðunar á þessum lagabálkum en allar runnið út í sandinn. Að endurskoðun skógræktarlaga hefur starfað hátt í tugur stjórnskipaða nefnda og frumvörp oftsinnis birst á Alþingi en dagað uppi. Skýringin á þessari tregðu er ekki síst sú að um endurskoðun laganna hafa einkum fjallað innanhússmenn, tengdir viðkomandi málaflokkum og stofnunum. Svipuð tregða var uppi við stofnun umhverfisráðuneytisins 1990, og það var fyrst árið 2008 að skógrækt og landgræðsla fluttust þangað frá ráðuneyti landbúnaðarmála. Þessi saga ætti að vera víti til varnaðar nú þegar í undirbúningi eru breytingar á lögum um þetta mikilvæga málasvið. Breytt umhverfi og ný nálgun Á árinu 2012 kynnti þáverandi umhverfisráðherra til sögunnar tillögur tveggja starfshópa, annars vegar um efni nýrra landgræðslulaga, hins vegar nýrra skógræktarlaga og var leitað álits um efni þeirra. Í umsögn sem ég sendi ráðuneytinu 27. ágúst 2012 gagnrýndi ég þá aðferðafræði að fjalla aðgreint um þessa málaflokka. Hins vegar kom margt gagnlegt fram í áliti þessara starfshópa, ekki síst um landnýtingu. Ný heildstæð löggjöf um gróður- og jarðvegsvernd þarf auðvitað að byggjast á bestu fáanlegri þekkingu, ákvæðum alþjóðasamninga og reynslu hér heima og erlendis. Slík löggjöf ætti jafnframt að taka til skógverndar, skógræktar og landgræðslu. Hliðstæð áhersla birtist í lagafrumvarpi sem ég flutti ásamt fleirum á árinu 1998 (111. mál á 123. löggjafarþingi) með ítarlegum rökstuðningi. Þetta er rifjað upp nú, þar sem á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er áfram verið að vinna að endurskoðun gömlu lagabálkanna með áðurnefndri aðgreiningu. Brýnt er að breyta um aðferð í þessu efni og nálgast málið út frá auðlindinni gróður og jarðvegur og tengja það við skipulag, náttúruvernd og ákvæði um landnýtingu, þar á meðal um búfjárbeit. Heildstæð málstök í stað þröngra sérhagsmuna Með gagnrýni á úrelta málsmeðferð er engan veginn verið að kasta rýrð á margt af því sem vel hefur verið gert á liðinni tíð í nafni umræddra stofnana og samtaka áhugamanna. Hins vegar blasa við margháttuð mistök sem læra þarf af, þar á meðal vegna notkunar og útbreiðslu ágengra tegunda. Þetta á einnig við um ýmislegt sem unnið hefur verið að með stuðningi af lögum um landshlutaverkefni í skógrækt (nr. 95/2006) og forvera þeirra, að ekki sé minnst á lög nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. Grautað er saman hugtökunum skógvernd og skógrækt, landvernd og landgræðsla. Friðun lands fyrir búfjárbeit leysir ein og sér úr læðingi þá krafta sem búa í íslensku gróðurríki og skilar sér áður langt um líður í fjölþættu birkiskóglendi á láglendi. Ekki á að vera sjálfsagt að rjúka til með útplöntun barrviða eða annarra aðfluttra tegunda í kjölfar friðunar fyrir beit. Oftar en ekki liggur fyrir ófullkomið mat á ástandi lands sem tekið er undir svonefnda nytjaskógrækt, sem skipulagslega séð ætti að flokkast undir landbúnað. Hagur af slíkum aðgerðum er líka sýnd veiði en ekki gefin og víða skortir á umhirðu. Áhætta er t.d. tekin með víðtækri útplötun lerkis hérlendis miðað við veðurfar, þ.e. algeng hlýindi á útmánuðum sem síðan fylgja vorhret líkt og nú gengur yfir. Búfjárbeit víða í ólestri Ný löggjöf um gróðurvernd þarf ekki síst að ná til búfjárbeitar, sauðfjár og hrossa. Úrskurður svonefndrar yfirítölunefndar um Almenninga norðan Þórsmerkur er dæmigerður um forneskjuviðhorf. Minna má á að Búnaðarþing 2008 ályktaði um nauðsyn á endurskoðun úreltra laga um afréttarmálefni, til þess m.a. „að ná sátt um nýtingu afrétta við gjörbreyttar forsendur í búfjárhaldi“. Gróður og jarðvegsvernd er stórmál, hliðstætt við verndun fiskistofna. Vonandi ná stjórnvöld, Alþingi og ráðuneyti, að innleiða nýja og vandaða heildarlöggjöf á þessu sviði sem fyrst. Hjörleifur Guttormsson |