Hjörleifur Guttormsson 31. mars 2015

Sjálfbær landsskipulagsstefna er vonandi í augsýn

Þann 12. mars sl. sendi Skipulagsstofnun umhverfis- og auðlindaráðherra tillögu að landsskipulagsstefnu til næstu 12 ára. Á hún rætur í gildandi skipulagslögum nr. 123/2010. Málið kom til kasta fyrrverandi ríkisstjórnar, en þingsályktunartilaga frá þáverandi umhverfisráðherra (823. mál á 141. þingi) varð þá ekki útrædd. Hún kvað á um skipulag á miðhálendinu, um búsetumynstur og dreifingu byggðar og um skipulag á haf- og strandsvæðum. Fyrirliggjandi tillaga fylgir um margt forsögn hinnar fyrri, en til viðbótar er fjallað um skipulag í dreifbýli. Tillagan byggir á markmiðum gildandi skipulagslaga og stefnan á að taka mið af fyrirliggjandi áætlunum opinberra aðila um landnotkun og stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun. Hér er stórt og mikilvægt mál á ferðinni sem væntanlega kemur til kasta Alþingis innan skamms.

Samspil ríkis og sveitarfélaga

Íslendingum hefur margt verið betur gefið en framsýni í skipulagsmálum. Fyrstu skipulagsákvarðanir á síðustu öld lutu fyrst og fremst að þéttbýlisstöðum og það er fyrst á árinu 1979 að landið allt var lýst skipulagsskylt. Það var þó dauður bókstafur í tvo áratugi og fyrst árið 1997 var kveðið á um aðalskipulag sem ná skyldi til alls lands sveitarfélaga og voru mörk þeirra ári síðar framlengd að vatnaskilum á miðhálendinu. Þáverandi stjórnvöld höfnuðu hins vegar eindregnum kröfum um landsskipulagsstig og að miðhálendið yrði lýst sérstakt stjórnsýslusvæði.  Hins vegar var 1998 samþykkt á Alþingi tillaga um skipulag fyrir miðhálendið á vegum sérstakrar samvinnunefndar og á það að gilda í samspili við aðalskipulag sveitarfélaga uns landsskipulagsstefna hefur hlotið staðfestingu. Nýrri stefnu um landsskipulag er ætlað að hafa áhrif á skipulagsáætlanir sveitarfélaga innan fjögurra ára frá samþykkt hennar og Skipulagsstofnun er ætlað að tryggja að stefnunni sé fylgt eftir.

Ákvæði um miðhálendið

Síðustu áratugi hefur umræða um framkvæmdir og nýtingu lands mest verið tengd óbyggðum og miðhálendinu. Því munu sjónir manna um landsskipulagsstefnu ekki síst beinast að ákvæðum þar að lútandi og hvernig frá þeim verði gengið. Um skipulag á miðhálendi Íslands segir m.a. í tillögu Skipulagsstofnunar: „Staðinn verði vörður um náttúru og landslag miðhálendisins vegna náttúruverndargildis og mikilvægis fyrir útivist. Uppbygging innviða á miðhálendinu taki mið af sérstöðu þess.“ Áhersla verði lögð á „verndun víðerna hálendisins, landslagsheilda, mikilvægra vistgerða og gróðurlenda og verðmætra menningarminja.“ Einnig verði áhersla á sjálfbæra gróðurframvindu og beitarálag í samræmi við ástand vistkerfa og endurheimt náttúrulegra vistkerfa. Ákvæði verði útfærð í hverfisvernd í skipulagsákvæðum sveitarfélaga, m.a. tilgreind svæði í verndarflokki vegna orkunýtingar og náttúruverndar. Þá skal uppbygging aðstöðu fyrir ferðafólk stuðla að því að óbyggðaupplifun og náttúrugæði skerðist sem minnst vegna mannvirkja og umferðar. Megináhersla verði lögð á uppbyggingu vegna ferðamennslu á jaðarsvæðum hálendisins. Orkulindir á miðhálendinu verði nýttar með sjálfbærni og umhverfisvernd að leiðarljósi, með sérstöku tilliti til verndunar víðerna.

Sjálfbært skipulag í dreifbýli

Við skipulag í dreifbýli er lögð áhersla á fjölbreytta nýtingu lands í sátt við náttúru og landslag, beina eigi vexti byggðar að þeim kjörnum sem fyrir eru og gæta að varðveislu sérstæðrar náttúru, sögu og menningar. Ráðstöfun lands til landbúnaðar og annarrar nýtingar byggi á flokkun lands. Val á svæðum til skógræktar taki mið af því að hún falli vel að landi og að samþætt séu sjónarmið skógræktar, annars landbúnaðar og útivistar. Skipulag landnotkunar í dreifbýli stuðli að eflingu ferðaþjónustu um leið og gætt verði að því að varðveita þau gæði sem eru undirstaða hennar. Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði tekin afstaða til  möguleika á orkunýtingu með vatnsafli, jarðvarma og vindorku, í sátt við náttúru og samfélag. Við skipulag byggðar verði tekið tillit til náttúruvár og loftslagsbreytinga, m.a. á að skilgreina núll hæðarlínu við byggð svæði vegna breytinga á sjávarborði. Vegna skipulags haf- og strandsvæða er vísað til nánari gagnaöflunar og stefnumörkunar síðar í ljósi hennar.

Þjóðlendur og miðhálendið

Í tillögu Skipulagsstofnunar um landsskipulagsstefnu er ekki fjallað um skipulag með tilliti til eignarhalds á landi. Þó er ljóst að hlutverk ríkisins sem almannavalds er þar annað og meira en á öðrum svæðum landsins, þótt sveitarfélög komi þar einnig við sögu. Enginn má án leyfis hafa afnot af þjóðlendu fyrir sjálfan sig, reisa þar mannvirki, valda jarðraski eða nýta auðlindir, aðrar en búfjárbeit þegar um afréttareign er að ræða. Tæp 90% þess hluta miðhálendisins, sem úrskurðað hefur verið um, teljast þjóðlendur. ‒ Ríkar kröfur eru uppi um verndun miðhálendisins samkvæmt náttúruverndarlögum. Líklegt er að ákvarðanir þar að lútandi eigi eftir að tengjast umræðu um landsskipulagsstefnu. Með framkominni tillögu fær Alþingi verðugt verkefni, sem vonandi er að það rísi undir.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim