Hjörleifur Guttormsson 3. mars 2016

Verndarskipulag fyrir miðhálendið í skýrum áföngum

Ferðamál og náttúruvernd eru sem vænta má ofarlega á baugi. Þjóðin stendur frammi fyrir mikilli áskorun um að ná tökum á ferðaþjónustu sem mikilvægum atvinnuvegi og gæta þess jafnframt að helsta aðdráttaraflið, náttúra Íslands, bíði ekki hnekki. Flestir hljóta að sjá að vöxtur í greininni er háskalega hraður nú um stundir og mikið vantar á að stoðkerfi til móttöku sívaxandi fjölda ferðamanna þróist sem skyldi. Þetta á ekki síst við um skipulag á aðgengi og náttúruvernd. Um síðustu helgi var haldin í Hörpu ráðstefna sem bar yfirskriftina Miðhálendið – einn mesti fjársjóður Íslands. Að henni stóðu náttúruverndarsamtök og Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar.  Megináhersla skipuleggjenda var að allt miðhálendið verði sem fyrst gert að þjóðgarði. Undir þá kröfu er tekið í tveimur þingsályktunartillögum sem nú liggja fyrir Alþingi.

Söguleg reynsla í vegarnesti

Áhugi og skilningur á náttúruvernd fer vaxandi. Það endurspeglaði m.a. góð aðsókn að ráðstefnunni um hálendið í Hörpu. En til þess að ná árangri sem skili sér í reynd þarf margt að koma til. Við þurfum m.a. að draga lærdóma af sögu síðasta aldarfjórðungs. Þegar umhverfisráðuneytið var loks stofnað 1990 lagði stjórnskipuð nefnd til að miðhálendið yrði gert að sjálfstæðri stjórnsýslueiningu. Því höfnuðu fulltrúar sveitarfélaga víða að af landinu. Árið 1994 var með breytingu á skipulagslögum heimilað að ráðast í skipulagsvinnu fyrir miðhálendið og árið 1998 var slíkt skipulag til ársins 2015 samþykkt á Alþingi. Jafnframt voru mörk sveitarfélaga framlengd upp í vatnaskil á miðhálendinu. Samtímis voru samþykkt lög um þjóðlendur og sett á fót Óbyggðanefnd til að skera úr um mörk lands í ríkiseign og einkalendna. Niðurstaða liggur nú fyrir úr því ferli á stórum hluta landsins, m.a. á miðhálendinu, nema varðandi svæði vestan og norðvestan Langjökuls (sjá meðfylgjandi uppdrátt). Í mótun er af hálfu stjórnvalda „eigendastefna“ fyrir þjóðlendur þar sem margir samverkandi þættir koma saman um ráðstöfun lands og gerð skipulags. Ljóst er að krafa um náttúruvernd á greiðari leið að ná fram á þjóðlendum en á einkalendum, m.a. í formi þjóðgarða.

Reynslan af Vatnajökulsþjóðgarði

Fyrir liggur dýrmæt reynsla af Vatnajökulsþjóðgarði, en undirbúningur að honum hófst með samþykkt Alþingis 1999. Það tók 8 ára ötula vinnu margra uns þjóðgarðurinn komst á laggirnar, ekki síst með samráði og samvinnu við sveitarstjórnir allt um kring sem eiga hlut í stjórn hans. Á þeim árum sem síðan eru liðin hafa þjóðgarðinum bæst mörg verðmæt svæði og hann tekur nú til hátt í 40% af flatarmáli miðhálendisins. Frá tilkomu hans hefur fengist mikilsverð reynsla sem gagnast mun við stofnun nýrra verndareininga á hálendi Íslands, m.a. varðandi samvinnu við nálægar byggðir. Sveitarfélög fara með ákvarðandi skipulagsvald með hliðsjón af landsskipulagi og góð gagnvirk samvinna er forsenda þess að vel takist til og jafnframt að nægt fjármagn fáist frá ríkinu sem eiganda til uppbyggingar, fyrirbyggjandi aðgerða og landvörslu. Sé það tryggt og sé rétt að málum staðið eru forsendur til að bæta við nýjum þjóðgörðum og hliðstæðum verndareiningum á allra næstu árum.  

Nýjar einingar í sjónmáli

Í tillögu minni um þjóðgarða á miðhálendinu 1999 var gert ráð fyrir fjórum svæðum umhverfis stóru jöklana sem kjarna. Eftir þá niðurstöðu sem nú liggur fyrir um þjóðlendur hafa forsendur fyrir stofnun þeirra styrkst til muna. Þannig ætti Hofsjökulsþjóðgarður með Þjórsárver, Kerlingarfjöll, Orravatnsrústir og Guðlaugstungur innan marka að geta orðið að veruleika á fáum árum í góðri samvinnu við sveitarfélög nyrðra og syðra. Sama á við um Suðurþjóðgarð með Torfajökul, Friðland að fjallabaki, Mýrdals- og Eyjafjallajökul, Þórsmörk og Heklu innan sinna vébanda, í náinni samvinnu við öll aðliggjandi sveitarfélög. Forsenda er að ríkið leggi til myndarlegt stofn- og rekstrarframlag til slíks svæðis til að byggja þar upp innviði í samvinnu við nærumhverfið. Á stofnun hálendisþjóðgarða þarf að líta sem mikilsverða aðgerð í þágu byggðanna og virkja um leið heimafólk til þátttöku. Þriðja stóra aðgerðin sem ætti að vera sjálfsögð er stækkun Þingvallaþjóðgarðs norður undir Langjökul í samvinnu við Bláskógabyggð, m.a. með Skjaldbreið og Hlöðufell innan marka. Síðan kæmi röðin að Langjökli/Eiríksjökli ásamt með Arnarvatnsheiði strax og þjóðlenduferli á því svæði er til lykta leitt.

Stígum skrefin á fullveldisári 2018

Það verkefni sem hér hefur verið reifað og fékk vind í seglin á ráðstefnunni í Hörpu er stórt en viðráðanlegt. Það er líka forsenda þess að varðveita þá auðlind sem ferðaþjónusta sem atvinnugrein hvílir á. Fjölmargir aðilar í samfélaginu þurfa að koma að slíku verkefni og vanda þarf allar ákvarðanir um skipulag og hönnun. Tryggja þarf skýra afmörkun víðerna hálendisins og að maðurinn setji sem minnst mark sitt á  þau, svo og látlausar samgönguæðar á allt öðrum forsendum en vegi í byggðum. Til að ná þessu fram þarf samstillt átak sem er verðugt viðfangsefni í aðdraganda fullveldishátíðar að tveimur árum liðnum.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim