Hjörleifur Guttormsson 4. febrúar 2016

Ástkæra ylhýra ... og hérna ... málið
 
Íslenska er sem betur fer sveigjanlegt tungumál sem tekur við ýmsum breytingum úr málfarsumhverfinu, einnig erlendis frá. Þó er helsta afrek þeirra sem málinu unna og rækta það að búa til nýyrði um flest þau hugtök á sviði tækni og vísinda sem skotið hafa upp kollinum í tímans rás og þau náð að aðlagast íslensku málkerfi. Íslenskur almenningur hefur stutt þessa þróun og verið ómissandi þátttakandi í henni. Í þessu sker íslensk tunga sig rækilega frá nágrannamálum og vonandi verður hlúð að þessari þróun framvegis. Dönskuslettur voru umtalaðar á mínum æskudögum og flestir öndvegishöfundar okkar sameinuðust um að gera þær brottrækar, kunnu þó fleiri Íslendingar dönsku á þeirri tíð en nú um stundir. Halldór Laxness var einn af þeim sem var ötull við að afhjúpa ambögurnar, „þó segjum við mart með sömu orðum og danir, án þess að vera að sletta dönsku.“  (Við heygarðshornið, s. 78) Í sama riti fjallaði hann um „sko“-blaðamennsku í léttum dúr, sagði hana tekna eftir danska atviksorðinu sgu, „blótsyrði sem eftir dönskum uppruna sínum þýðir „svei mér“eða „faríhelvíti“.“ (s.81) Nú er þarflítið að elta ólar við dönskuslettur en þær ensku sækja óðum á og virðast eiga greiðan aðgang að leikum sem lærðum, sbr. orðskrípin að „tækla“ eitthvað og á þessum „level“ sem glymja í eyrum daglega.

Biðorð og brýr í frásögn

Eitt af því sem breyst hefur í mínu minni er krafan um hraðan talanda, sem leggst saman við annað óðagot í tilverunni. Fyrst fór að bera á þessu hjá fréttamönnum í hljóðvarpi sem virtust þurfa að sanna sig með æðibunu í framsögn. Fór síðan margur viðmælandinn að reyna að líkja eftir, enda oft naumt skorinn tíminn í spjalli. Andrúm eða smáhvíld í framsögn samrýmist ekki þessum nýja stíl, og eru þó langt í frá allir þar undir sök seldir. Með honum urðu fátíðar aðferðir gamalla sögumanna, sem tíðum brugðu fyrir sig „jæja“ eða „nú, nú“ til að tengja saman söguþráð, gaumgæfa og halda athygli. Klassísk dæmi um slíka eru Sigurbjörn í Gilsárteigi og Steinþór á Hala. Lengi vel skreytti „sko“ í tíma og ótíma mál manna, en nú hefur það vikið fyrir innskotinu „og hérna“, sem margur hreytir út úr sér í annarri hverri setningu – og hérna ... og hérna ... og hérna. Þessi kækur virðist vera bráðsmitandi svo mjög hefur hann sótt í sig veðrið upp á síðkastið og virðast lærðir jafnvel næmari fyrir smiti en alþýða manna. Þetta stagl truflar fólk eflaust misjafnlega mikið, en ýmsir sem ég hef rætt við telja það óheillaþróun.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim