Hjörleifur Guttormsson | 4. febrúar 2016 |
Ástkæra ylhýra ... og hérna ... málið Biðorð og brýr í frásögn Eitt af því sem breyst hefur í mínu minni er krafan um hraðan talanda, sem leggst saman við annað óðagot í tilverunni. Fyrst fór að bera á þessu hjá fréttamönnum í hljóðvarpi sem virtust þurfa að sanna sig með æðibunu í framsögn. Fór síðan margur viðmælandinn að reyna að líkja eftir, enda oft naumt skorinn tíminn í spjalli. Andrúm eða smáhvíld í framsögn samrýmist ekki þessum nýja stíl, og eru þó langt í frá allir þar undir sök seldir. Með honum urðu fátíðar aðferðir gamalla sögumanna, sem tíðum brugðu fyrir sig „jæja“ eða „nú, nú“ til að tengja saman söguþráð, gaumgæfa og halda athygli. Klassísk dæmi um slíka eru Sigurbjörn í Gilsárteigi og Steinþór á Hala. Lengi vel skreytti „sko“ í tíma og ótíma mál manna, en nú hefur það vikið fyrir innskotinu „og hérna“, sem margur hreytir út úr sér í annarri hverri setningu – og hérna ... og hérna ... og hérna. Þessi kækur virðist vera bráðsmitandi svo mjög hefur hann sótt í sig veðrið upp á síðkastið og virðast lærðir jafnvel næmari fyrir smiti en alþýða manna. Þetta stagl truflar fólk eflaust misjafnlega mikið, en ýmsir sem ég hef rætt við telja það óheillaþróun. Hjörleifur Guttormsson |