Hjörleifur Guttormsson 9. júní 2016

Efnahagskerfi í blindgötu og hraðvaxandi umhverfisógnir

Átta árum eftir alþjóðlega efnahagskreppu hrannast upp nýjar blikur sem fyrr en varir geta valdið langvarandi og djúpstæðum áföllum. Um leið og það er sagt er þó haldið í vonina um að staðbundin ófriðarbál í Mið-Austurlöndum og víðar leiði ekki til stórstyrjaldar í kjarnorkuvæddum heimi. Stærsti ógnvaldurinn þess utan er ríkjandi efnahagskerfi byggt á nýfrjálshyggju sem ræður ferðinni að heita má um allan heim og hefur reynst stærsta hindrunin í vegi efnahagslegs stöðugleika, réttlætis í skiptingu lífsgæða og  viðleitni til sjálfbærrar framtíðar. Þeir sem telja þetta ýkjur ættu m.a. að kynna sér nýlegar aðvaranir úr óvæntri átt, þ.e. frá rannsóknateymi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, sem setur spurningamerki við efnahagsstefnu frjálhyggjunnar sem fylgt hefur verið undangengna þrjá áratugi. Er þá bæði vísað til þess að skammtíma fjármagnsflutningar síðustu áratuga hafi meira en tvöfaldað hættu á banka- og gjaldmiðilskreppu og aukið jafnframt á misskiptingu og þrengingar með samdrætti í efnahagslífi og atvinnuleysi. (IMF magasin: Finance & Development, júníhefti).

Óvissa magnast á efnahagssviðinu

Efnahagskerfi heimsins er nú samslungnara en nokkru sinni fyrr og því næmara fyrir sveiflum og samdrætti en áður var. Almennt hefur dregið úr hagvexti og framleiðni í þróuðum ríkjum síðustu árin. Ef ekki hefði haldist mikill hagvöxtur í Kína mörg undanfarin ár væri örugglega skollin á alvarleg efnahagskreppa á Vesturlöndum. Efnahagslíf í Japan hefur um árabil hangið á horriminni og viðleitni til örvunar litlu sem engu skilað.  Hagvöxtur í Kína hefur hægt á sér og óvissa er um framhaldið. Ástandið í flestum ríkjum Evrópusambandsins hefur um árabil einkennst af stöðnun og miklu atvinnuleysi. Tilraunir til að blása lífi í efnahagsstarfsemina á kostnað launafólks hefur leitt til harðra átaka, nú síðast í Frakklandi þar sem stefnir í neyðarástand. Átökin innan Evrópusambandsins taka á sig æ dramatískari myndir með uppgjör Breta um aðild innan seilingar. Tilraunir til að koma á fríverslunar- og fjárfestingasamningnum TTIP milli ESB og Bandaríkjanna hafa siglt í strand eftir að vitnaðist um innihaldið, þar sem m.a. yrði gengið þvert á evrópska umhverfisstaðla og bætt við yfirþjóðlegu dómskerfi.

Jafnaðarmannaflokkar án kjölfestu

Sósíaldemókratískir flokkar hafa upp á síðkastið verið að tapa fylgi víðast hvar í Evrópu, þó hvergi eins mikið og Samfylkingin hérlendis. Fyrrum stuðningsmenn þessara flokka hafa leitað bæði til hægri og vinstri og kennt er um óskýrri stefnu og vonbrigðum með þátttöku flokkanna í ríkisstjórnum, nú síðast í Svíþjóð, Þýskalandi og Frakklandi. Einnig hafa þjóðernissinnaðir flokkar víða dregið til sín fylgi frá sósíaldemókrötum, eins og dæmi frá Skotlandi og Austurríki sýna ljóslega. Einkennandi fyrir flesta krataflokka er að þeir hafa ekki megnað að setja fram trúverðuga stefnu í umhverfismálum, sumpart vegna tregðu innan stéttarfélaga í viðkomandi ríkjum að horfast í augu við æskilegar breytingar. Fylgi við umhverfissjónarmið hefur því leitað til græningja og vinstrigrænna flokka.  Ósjálfbær efnahagsstarfsemi, loftslagsbreytingar og ör fólksfjölgun eru sem aldrei fyrr ógn við umhverfi jarðar. Stjórnmálaflokkar sem ekki horfast í augu við þá váboða og bjóða upp á trúverðug svör við þeim eru ekki líklegir til að öðlast traust almennings. Málið er flókið og varðar alla samfélagsþætti, ekki síst leikreglur efnahagslífsins og brotthvarf frá ofneyslu til einfaldari lífshátta.

Endurmat og eldskírn nýrra kynslóða

Hraðfara breytingar eru einkenni síðustu áratuga, knúðar fram af ágengum tækninýjungum og samkeppni fjölþjóðafyrirtækja um markaði. Á fáeinum árum hefur samskiptaumhverfi tekið algjörum stakkaskiptum og heimurinn fyrir daga Nets og snjallsíma er ungu fólki hulin ráðgáta. Margar spurningar vakna um áhrif upplýsingaflóðs og samfélagsmiðla á stjórnmál og glímuna við þau erfiðu vandamál sem bíða nýrra kynslóða. Sumir vilja setja allt sitt traust á Netið og beint lýðræði sem stjórntæki í krafti þess. Þá yfirsést mönnum að ekkert kemur í staðinn fyrir yfirvegaða greiningu mannshugans og samtakamátt fjöldans til að knýja fram breytingar, en samskiptatæknin getur vissulega leikið stórt hlutverk.
 Benda má á sjálfsprottnar hreyfingar eins og Podemos á Spáni sem breytt hafa landslagi stjórnmálanna þarlendis á örfáum árum og valda því að þar ríkir nú pattstaða í aðdraganda þingkosninga 26. júní. Syriza í Grikklandi eru samtök á svipuðum meiði sem náðu þingræðislegum meirihluta og fá nú forsmekkinn af glímunni við óbilgjarna lánardrottna, sem heimta sitt. Þeir kraftar sem hafa undirtökin í efnahagslífi heimsbyggðarinnar láta ekki sinn hlut af fúsum vilja og úrslit átaka á þeim vígvelli munu nú sem fyrr skipta sköpum. Nýjar kynslóðir sem hyggjast bera fram klassískar kröfur um frelsi, jafnrétti og bræðralag og þurfa jafnframt að takast á við aðsteðjandi umhverfisógnir standa því frammi fyrir erfiðasta verkefni Homo sapiens til þessa.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim