Hjörleifur Guttormsson 9. nóvember 2016

Bandarísku kosningarnar snerust um afleiðingar hnattvæðingar

Kosningabarátta í Bandaríkjunum hefur löngum minnt á hanaat þar sem málefni hverfa í skugga merkingarlausra slagorða um „hina miklu þjóð“ sem verðskuldi forystu viðkomandi frambjóðanda. Í aðdraganda forseta- og þingkosninga  þar vestra var hins vegar gengið lengra í leðjuslagnum en nokkru sinni með auðkýfinginn Trump í fararbroddi. Þetta veldur áhyggjum hjá öllum sem fylgjast með heimstaflinu, bæði hjá þeim sem horft hafa til Bandaríkjanna sem forysturíkis og eins hinna sem gagnrýnt hafa stefnu þeirra og aðgerðir um langt skeið. Ástæður stóryrtari umræðu nú en áður eru margþættar og endurspegla djúpstæðari klofning í bandarísku samfélagi en dæmi eru um frá lokum Vietnam stríðsins. Meginorsökin er að margra mati nýfrjálshyggja og hnattvæðing efnahagslífins sem mjög var hert á með frjálsum fjármagnsflutningum fyrir aldarfjórðungi. Verkafólk og millistéttir sem urðu bjargálna á eftirstríðsárunum hafa mátt þola ört dvínandi tekjur og atvinnumissi á stórum svæðum þar vestra án þess að eiga sér öfluga málsvara. Lengi vel voru demókratar í því hlutverki, en í forsetatíð Bill Clintons eftir 1992 var það merki fellt og forysta demókrata gekk  til liðs við peningaöflin á Wall Street. Það er úr þessum jarðvegi samhliða fjölgun innflytjenda sem Teboðshreyfing repúblikana og nú Trump fá sinn liðstyrk og þangað má líka leita skýringa á því fylgi sem Bernie Sanders sópaði óvænt að sér úr annarri átt í forkosningum demókrata.

Lýðræði á brauðfótum

Hnattvæðing með tilfærslu auðs og áhrifa á æ færri hendur er engan veginn einskorðuð við Bandaríkin þótt þar séu sporin sýnilegust. Hliðstæð þróun sem er afsprengi óhefts kapítalisma samhliða örum tæknibreytingum, setur mark sitt á efnahagsþróun og stjórnmál, m.a. í Evrópu.  Til viðbótar fjölda flóttamanna undan styrjöldum í Asíu vestanverðri bætist vaxandi straumur fólks sunnan að í leit að skárri kjörum. Allt veldur þetta óöryggi og óvissu meðal stórra þjóðfélagshópa í þróuðum ríkjum, þar sem almenningur laðast að lukkuriddurum sem bjóða upp á róttækar og einfaldar lausnir. Samhliða þessu hefur styrkur verkalýðshreyfingar og pólitískra málssvara hennar veikst til muna, ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur ekki síður í Evrópu, þar sem fylgi flokka sósíaldemókrata m.a. í Bretlandi, Vestur-Evrópu og á Norðurlöndum er aðeins svipur hjá sjón. Það voru einmitt forustumenn þessara flokka eins og Jacque Delors og Tony Blair sem ruddu fjármagnsöflunum og hnattvæðingunni brautina undir lok síðustu aldar. Það breytir ekki því að staða eins og birst hefur okkur í Bandaríkjunum í liðinni kosningabaráttu væri enn nær óhugsandi austanhafs. Í fróðlegri grein í vikuritinu Die Zeit í síðustu viku segir aðstoðarritstjórinn Bernd Ulrich, að maður á borð við Donald Trump yrði ekki einusinni kjörinn borgarstjóri í Þýskalandi og Marine Le Pen hin franska megi allt að því teljast skynsöm og hófstillt í samanburði við hann.

Takmörkuð hrifning af Hillary

Þótt þorri fréttskýrenda og leiðandi blöð vestra eins og New York Times og Washington Post  telji Hillary Clinton ólíkt skárri kost en mótherjann Trump hefur hún engan veginn þann byr sem einkennt hefur feril Barak Obama frá því hann náði kjöri fyrir átta árum. Kosning hans sem fyrsta þeldökka forseta Bandaríkjanna var söguleg og framganga hans til þess fallin að vekja traust og virðingu hjá öðrum en hörðum pólitískum andstæðingum heima fyrir. Meirihluta repúblikana lengst af í báðum deildum Bandaríkjaþings hefur tekist að tefja og bregða fæti fyrir mörg af framfaramálum demókrata í forsetatíð hans. Hillary sem var utanríkisráðherra á fyrra kjörtímabili Obama þótti að vísu dugmikil en sumar gjörðir hennar eru nú taldar hafa verið mikil mistök, svo ekki sé minnst á tölvuskeytin. Dæmi um þetta er ákvörðunin um aðförina gegn Gaddafi í Líbíu 2011 sem að mati New York Times var tekin í fljótræði og engan veginn hugsuð til enda. Ýmsir hafa orðið til að draga dómgreind Hillary í efa, m.a. stóryrt viðbrögð hennar við innlimum  Krímskaga í Rússland sem hún líkti opinberlega við heimsyfirráðastefnu Hitlers. Eftirlætisslagorð hennar Make America great again er ekki ávísun á hófstillt viðbrögð eins og Obama þykir hafa sýnt í átökum á alþjóðavettvangi.

Og nú liggur niðurstaðan fyrir

Ofangreindar hugleiðingar voru settar á blað síðdegis kosningadaginn 8. nóvember. Nú að morgni þess 9. nóvember vaknaði heimsbyggðin upp við að Donald Trump hefur verið kjörinn forseti Bandaríkjanna með öruggum meirihluta fram yfir Hillary Clinton. Báðar deildir Bandaríkjaþings eru áfram skipaðar repúblikönum að meirihluta til. Þessi niðurstaða gengur þvert á skoðanakannanir og minnir á úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi um Brexit sl. sumar. Kraftarnir að baki eru um margt þeir sömu, fjöldi fólks sem er þolendur hnattvæðingar blindra peningaafla sem mæla hvorki né virða afdrif og kjör fjölmennra þjóðfélagshópa. Í niðurstöðu bandarísku kosninganna felast skýr skilaboð til ráðandi afla hvarvetna um að skoða sinn gang, og það á einnig við um lukkuriddarann Donald Trump.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim