Hjörleifur Guttormsson 10. september 2016

Djúpivogur sem dæmi um farsælt og framsýnt skipula

Um liðna helgi dvaldi sá sem þetta ritar á Djúpavogi í mikilli veðurblíðu, sól og logni þannig að fjöll, byggð og bátar spegluðust í haffletinum og norðurljós glöddu augu vökulla að næturlagi. Tilefni viðkomu var aðalfundur Skógræktarfélags Íslands sem valið hafði staðinn fyrir aðalfund sinn þetta árið og hitti á öfundsverðar aðstæður. Í hálfa öld  hefi ég heimsótt Djúpavog árlega og um skeið oft á ári vegna ýmissa starfa, m.a. tengdum náttúruvernd og stjórnmálum. Á þessum tíma hefur byggðarlagið gengið í gegnum erfið skeið eins og flest sjávarþorp hérlendis en fyrir atorku íbúanna náð að vinna sig upp úr öldudal og stendur nú um margt betur en áður í sögu sinni. Hún er raunar óvenju löng og margbrotin, því að hér hefur verið kaupstaður í meira en 400 ár. Sá grunnur sem nú hefur verið lagður lofar góðu og skiptir þar miklu vandað landrænt skipulag þar sem haldið er til haga ríkulegum kostum náttúru og umhverfis. Teiknistofa Guðrúnar Jónsdóttur arkitekts hefur um áratugi annast gerð aðalskipulags svæðisins eins og nánar er vikið að hér á eftir.

Stórt en fámennt sveitarfélag

Upp úr miðri síðustu öld var erfitt að sjá fasta drætti í skipulagi byggðar á Djúpavogi, sem fram að því hafði stækkað og þróast óháð lærðum viðmiðunum og reglustriku frá því Hamborgarkaupmenn komu sér upp verslunaraðstöðu við voginn með konungsleyfi. Um aldamótin 1900 hafði íbúatalan náð vel yfir 100 manns í dreifðri byggð þar sem hvert hús stóð undir sínum kletti, flest í landi jarðarinnar Borgargarðs. Djúpivogur var í Búlandshreppi fram til ársins 1992 að hann sameinaðist Berunes- og Geithellahreppi og heitir sveitarfélagið nú Djúpavogshreppur. Þar töldust vera samtals 523 íbúar árið 2000 en eru nú 456 talsins og hefur fækkunin fyrst og fremst bitnað á dreifbýlinu. Heildarstærð sveitarfélagsins er 1133 km2 eða vel yfir 1% af Íslandi og er drjúgur hluti þess fjalllendi. Til Djúpavogs og nágrennis á þekkt fólk ættir að rekja, fyrir 1900 gerði ljósmyndarinn Nicoline Weyvadt á Teigarhorni garðinn frægan, á öndverðri öldinni sem leið ólust þar upp bræðurnir Eysteinn og Jakob Jónssynir, listamennirnir Finnur og Ríkarður Jónssynir frá Strýtu og bræðurnir Birgir og Kristján Thorlacíus frá Búlandsnesi, að ógleymdum Stefáni Jónssyni fréttamanni. Bók hans Að breyta fjalli mætti vera skyldulesning þeirra sem heimsækja staðinn. Drýgstur við að halda til haga sögu byggðarlagsins hefur verið Ingimar Sveinsson fv. skólastjóri, en frá fyrri tíð er sérstakur fengur að sóknalýsingum Jóns Bergssonar prests á Hofi í Álftafirði, skráðum 1840.

Framlag Guðrúnar Jónsdóttur arkitekts

Fyrsta eiginlegt aðalskipulag Djúpavogs og Búlandshrepps 1989-2009 var staðfest af ráðherra árið 1990 og hafði þá verið í undirbúningi um nokkurt skeið. Höfundur þess var Guðrún Jónsdóttir arkitekt sem nú er nýlátin. Ég tel mér til tekna að hafa mælt með Guðrúnu til verksins eftir að hafa fylgst með starfi hennar um skeið og forystu fyrir Torfusamtökunum  á áttunda áratugnum. Efnistök hennar og samstarf við heimamenn allt frá upphafi voru með ágætum og um margt nýstárleg. Þannig tók fyrsta skipulagið til alls Búlandshrepps og sömuleiðis aðalskipulag Djúpavogshrepps 2008-2020. Þá var kominn til aðstoðar við verkið sonur hennar Páll Jakob Líndal og að frágangi komu jafnframt Andrés Skúlason oddviti og Ólöf Guðný Valdimarsdóttir arkitekt. Í greinargerð með skipulaginu 2009 segir m.a.: „Ekkert kauptún á Íslandi getur státað af svipuðu umhverfi og Djúpivogur. ... Á þessum stað dugir því ekki annað en sýna fyllstu nærgætni í sambandi við mótun hins byggða umhverfis.“ Og sem leiðarljós við mótun núverandi skipulags var að “sérstaklega (sé) litið á hina sérstöku náttúru svæðisins og menningarminjar sem auðlind og/eða uppsprettu sem beri að horfa til í sambandi við skilgreiningu á landnotkun innan sveitarfélagsins, svo sem svæði fyrir landbúnað í víðum skilningi, náttúruvernd, minjavernd, ferðamennsku, ferðaþjónustu, útivist og sjálfsímynd íbúanna. ... Stefnt er að því að dýpka þekkingu manna á svæðinu, einkum hvað snertir náttúrufar og sögu.“

Ekki orðin tóm

Ferðamaður sem staldrar við á Djúpavogi kemst fljótt að því að ekki hefur verið látið sitja við orðin tóm. Umgengni í plássinu er til fyrirmyndar og þjónusta prýðileg við ferðamenn, hvort sem er á Hótel Framtíð, í Löngubúð eða á tjaldsvæði. Höfnin skapar líf með fjölda smábáta og ásýnd sveitabæja er víðast hvar til fyrirmyndar. Vissulega býr Djúpivogur betur en flest önnur þorp að gömlum byggingum, sumum frá um 1800 og ráðhúsi sem reist var árið 1900. Teigarhorn er með markvissri stefnu að verða það sem menn dreymdi um með friðlýsingu staðarins 1975. Í hreppnum eru fjórar friðaðar timburkirkjur að Papeyjarkirkju meðtalinni og Djúpavogskirkja byggð 1996 eftir teikningu Björns Kristleifssonar er staðarprýði. Aðild hreppsins að Cittaslow-hreyfingunni undirstrikar virðinguna fyrir staðarkostum. Ekkert af þessu hefur gerst fyrirhafnarlaust og engum dylst að þáttur núverandi oddvita, Andrésar Skúlasonar, og íbúanna í heild er stór í því sem fyrir augu ber á þessum fagra stað.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim