Hjörleifur Guttormsson 11. maí 2016

Uppdráttarsýki stjórnmálaflokka hættuleg lýðræðinu

Það var ekki aðeins forseti  Íslands sem sá sig um hönd um síðustu helgi og dró skyndiframboð sitt til baka. Það sama gerði formaður Samfylkingarinnar Árni Páll Árnason sem hafði verið á sviðinu til endurkjörs í nokkra daga. Í útvarpsviðtali sl. mánudag  dró hann upp skelfilega mynd af stöðu og framtíðarhorfum  flokksins sem hann hefur verið formaður fyrir undanfarin þrjú ár. Þar væri hver höndin upp á móti annarri og flokkurinn nánast í andarslitrunum. Hann sagði Samfylkinguna þurfa að ákveða hvað hún ætlar að verða og hvernig hún ætli að bera sig að til að endurheimta traust og fylgi. Það gat vart farið hjá því að hlustandi fylltist samúð með Árna Páli, vöskum manni á besta aldri sem tekið hefur þátt í stjórnmálum frá æskudögum og setið á Alþingi í nær áratug, en sér nú þann kost vænstan að taka pokann sinn. Það leiðir hins vegar hugann að stöðu stjórnmálaflokka hér og víða erlendis nú um stundir. 

Hefðbundnir flokkar eiga í vök að verjast

Víða í Evrópu eiga hefðbundnir stjórnmálaflokkar undir högg að sækja hjá kjósendum, þar á meðal flokkar sem tengdir eru vinstri væng á pólitíska skalanum. Helst það í hendur við almennt dræmari kjörsókn í þingkosningum víðast hvar á síðustu áratugum, að ekki sé talað um kosningaþátttöku til Evrópuþingsins svonefnda sem síðast (2014) nam aðeins um 43%. Þetta er óheillaþróun, því að stjórnmálaflokkar hafa enn sem fyrr afar mikilvægu hlutverki að gegna í lýðræðissamfélagi og engin einföld ráð sem leyst geta þá af hólmi sem tengilið milli almennings og helstu þrepa í samfélagsbyggingunni. Ávísun á beint lýðræði með þjóðaratkvæðagreiðslum eftir settum reglum á fullan rétt á sér en kemur ekki í stað virkrar þátttöku almennings í stjórnmálastarfi og stefnumótun. Því er brýnt að kanna orsakir vaxandi firringar gagnvart þátttöku í félagsmálum á ýmsum sviðum samfélagsins og leita leiða til að örva fólk til virkrar þátttöku á stjórnmálasviði. Til að það megi takast þarf margt að koma til, bættar og skýrari leikreglur, fræðsla á öllum skólastigum um samfélagsmál, siðbót innan starfandi flokka og embættismannakerfis og vönduð og frjáls fjölmiðlun.

Fjármálaspilling og sjúkt efnahagskerfi

Þorri fólks hefur ríka réttlætiskennd og þegar við blasir fjármálaspilling sem tengist valdhöfum og teygir sig inn á vettvang stjórnmálanna vekur það andúð og tortryggni. Því er brýnt að jafna fjárhagslega aðstöðu stjórnmálaflokka  og opna bókhald þeirra frá því sem nú tíðkast. Stjórnmálaforinginn Mogens Lykketoft, um skeið forseti danska þingsins og nú forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, hefur barist fyrir róttækri siðbót í fjáröflun stjórnmálaflokka, m.a. að þeir geti ekki bæði notið framlaga frá einstaklingum og fyrirtækjum heldur þurfi að velja þar á milli og gera grein fyrir öllum fjárstuðningi sem einhverju nemur. Bók hans Lobbyisternes lommebog um þetta efni kom út 2013. Undirtektir stóru flokkanna í Danmörku við tillögum hans hafa reynst dræmar.  – Gangverk kapítalísks efnahagskerfis þar sem þeir ríku verða stöðugt ríkari á kostnað almennings, lágstétta og millistétta, er önnur hlið á sama teningi ásamt ótrúlegri leyndarhyggju þegar farvegir fjármagnsins eru annars vegar.  Um það er fyrirhugaður TTIP-viðskiptasamningur Bandaríkjanna og Evrópusambandsins lýsandi dæmi, en þingmenn í ESB-ríkjum hafa aðeins mátt rýna eiðsvarnir í texta hans í lokuðum herbergjum. Eftir að Greenpeace opinberaði drögin hafa ýmsir sem heitið höfðu stuðningi hlaupið í baklás, þeirra á meðal ýmsir krataforingjar.

Áskoranir kalla á þátttöku kynslóðanna

Það er nöturleg staðreynd ef aukið upplýsingaflæði verður til þess að almenningur dregur sig inn í skel og forðast þátttöku í vitrænni og greinandi þjóðfélagsumræðu. Lýðræði á að vera farvegur til að knýja fram breytingar og ryðja brautina fyrir nýjum hugmyndum, sanngjörnum leikreglum og efnahagslegu réttlæti. Öllum ætti að vera fyrir bestu að slíkt náist fram  friðsamlega, og þar fólginn lykillinn að sjálfbærri framtíð mannkyns, sem nú stefnir rakleitt að hengiflugi. Ógn tortímingar er á næsta leiti, m.a. kjarnorka í höndum afla sem einskis svífast. Til að bægja frá því sameiginlega skipbroti sem nú hillir undir vegna ágengni gagnvart móður jörð, misskiptingu í lífsafkomu þjóða og innan þjóðríkja, þarf gífurlegt átak, siðbót, tillitssemi og sjálfsafneitun.

Stjórnmál sem björgunarstarf

Í upphafi var minnst á uppdráttarsýki í tilteknum stjórnmálaflokki sem lagði upp vongóður um aldamótin. Sá sem þetta ritar átti ekki með honum samleið af málefnalegum ástæðum, sem hér verða ekki raktar. Það er þeirra sem þar eru enn innanborðs að greina ástandið og rétta kúrsinn í von um að ná landi. Ég hef haft áhuga á stjórnmálum frá barnæsku og ánægju af þátttöku með fjölda manns, þótt ekki væru það allt jábræður. Skemmtilegast hefur verið að rýna með öðrum í óræða framtíð í von um batnandi sjólag fyrir heildina, manninn og umhverfið sem hann er háður.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim