Hjörleifur Guttormsson 14. apríl 2016

Kosningaár: Nú reynir á stjórnmálaflokkana

Síðustu dagar hafa verið sögulegir og fordæmalausir í stjórnmálasögu Íslands og heimsbyggðarinnar. Upplýsingarnar um Panama-skjölin hafa svipt leyndarhjúpnum af huliðsheimum alþjóðlegs efnahagslífs, skattaskjólum sem vitað hefur verið um lengi, en umfangið blasir nú við almenningi, stærra og hrikalegra en flesta gat grunað. Það segir sína sögu að fyrirtækið Mossack Fonseca með aðalstöðvar í Panama er þó ekki nema það fimmta stærsta sinnar tegundar í heiminum með aðeins 5-10% af viðskiptum á þessu sviði að mati tímaritins The Economist. Það er síðan kaldhæðnislegt að fyrstu upplýsingar úr þessum risaleka skuli hitta fyrir og velta úr sessi forsætisráðherra smáríkisins Íslands, sem skartað hefur síðan á forsíðum fjölmiðla um víða veröld. Aðrir og stærri laxar hafa fylgt á eftir og uppskeran úr þessu safni á eftir að minna lengi á sig. Baksvið þessa máls er kapítalískt efnahagskerfi sem teygir anga sína um víða veröld og færir óðfluga auð og völd á æ færri hendur, m.a. í krafti fjármagnsflutninga heimshorna milli. Fjölþjóðafyrirtæki eru í aðalhlutverkum á efnahagssviðinu og skattaskjólin sem gróðrarstíur fyrir dulin viðskipti, m.a. peningaþvætti og vopnasölu heimshorna á milli.

Alþingiskosningum flýtt um hálft ár

Stjórnmálaflokkarnir hérlendis eru rétt að byrja að átta sig á breyttu landslagi. Ríkisstjórn sömu flokka heldur um stjórnartauma með meirihluta þingmanna sér að baki. Lofað er alþingiskosningum með haustinu, um hálfu ári fyrr en ella hefði orðið. Stjórnarandstaðan á þingi lét sem hún vildi fá kosningar strax, en mér er til efs að þar hafi hugur fylgt máli. Atburðarásin að undanförnu hefur komið öllum flokkum í opna skjöldu og mikið skortir á að þeir séu í stakk búnir að leggja stefnumál sín fyrir kjósendur. Framsóknarflokkurinn á eftir að gera upp sín forystumál og stendur frammi fyrir miklum vanda. Það sama á við um Samfylkinguna sem er í uppnámi með sín forystumál og stefnu til framtíðar. Píratar horfa skelfdir framan í skoðanakannanir sem benda til að um þriðjungur atkvæða komi í hlut þessa fámenna safnaðar sem frábiður sér völd en vill aðeins hræra í pottinum. Björt framtíð virðist flestum gleymd og minnir það á hversu valt er veraldargengi. Vinstri grænir hafa að undanförnu gælt við að mynda kosningabandalag núverandi stjórnarandstöðuflokka, en um hvaða málefnagrundvöll er algjörlega á huldu. Forysta Sjálfstæðisflokksins segist hvergi bangin, en á mörgu ósvarað, og í bakgrunni gerir vart við sig klofningsframboð undir nafni Viðreisnar. Þegar þessi staða blasir við hljóta flestir að sjá að flokkarnir mega hafa sig alla við til að geta lagt spil sín skilmerkilega á borðið fyrir kjósendur á haustdögum.

Skýr svör um stöðu Íslands út á við

Þingkosningar í haust fara fram í miklu óvissuástandi á alþjóðavettvangi. Evrópusambandið er í djúpri lægð og sundurþykkja fer vaxandi milli aðildarríkja. Evran hefur reynst fjötur um fót sem sameiginlegur gjaldmiðill og Schengen-samstarfið riðar til falls. Þeim fjölgar stöðugt hérlendis sem átta sig á hvílíkt háskaskref var stigið  með aðildarumsókn Íslands að ESB árið 2009 og að þann leik má ekki endurtaka. Fyrir kosningar þurfa öll framboð að svara skýrt til um afstöðu til aðildar í stað þess að fela sig á bak við vísan til þjóðaratkvæðis, svo sjálfsagt sem það annars væri ef til aðildarumsóknar kæmi. Það er prófsteinn á stjórnmálaflokka að þeir hafi skýr svör í slíku grundvallarmáli. Aðildarskilmálar ESB liggja ljóst fyrir og ekkert sem máli skiptir er til að semja um annað en skammtímaaðlögun. – EES-samningurinn er meingallaður og takmarkar svigrúm okkar, m.a. til að móta eigin reglur um fjármálagjörninga eins og um aflandsfélög og skattaskjól, en einnig um eignarhald á sjálfu landinu. Mikil umræða fer fram í Noregi, ekki síst innan norsku verkalýðshreyfingarinnar, um ókosti EES og um aðrar leiðir til samskipta við Evrópusambandið. Ísland er þarna á sama báti og Noregur og eðlilegt að við leitum leiða til endurskoðunar á þessum 20 ára gamla samningi í stað þess að hann sé notaður sem rök fyrir ESB-aðild.
 
Auðlindastefna og náttúruvernd

Í innri málefnum okkar er af nógu að taka, sem frambjóðendur til Alþingis þurfa að hafa skýr svör við. Tryggur umráðaréttur og meðferð náttúruauðlinda lands og hafsvæða innan efnahagslögsögunnar hlýtur að vera kjósendum ofarlega í huga og tengist endurskoðun stjórnarskrár. Sjávarauðlindin, eignarhald og réttur til nýtingar kallar á ótvíræð svör. Það sama á við um gróðurríki landsins og gróðurvernd þar sem við búum við hálfrar aldar gamla og úrelta löggjöf. Ferðaþjónustan sem atvinnugrein kallar á alhliða stefnumörkun og víðtæka náttúruvernd í byggð og óbyggð til verndar landinu fyrir átroðningi og örtröð. Þessa daga er auglýst uppboð á hluta af Jökulsárlóni, einni þekktustu náttúruperlu landsins, sem fyrr en varir gæti endað í höndum huldumanna í útlöndum. Ætlar ríkisstjórn, þing og þjóð að láta slíkt gerast fyrir augum okkar á þessum vordögum?



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim