Hjörleifur Guttormsson 14. október 2016

Fjórða Hringborð norðursins í Hörpu var merkur viðburður

Þann 4. nóvember næstkomandi öðlast Parísarsamningur Sameinuðu þjóðanna formlega gildi. Markmið hans er að hlýnun loftslags á jörðinni af völdum losunar gróðurhúsalofttegunda verði vel undir 2°C og helst ekki meiri en 1,5°C. Samningurinn er lagalega bindandi, en hvert ríki velur sér markmið um svokölluð landsákvörðuð framlög. auk þess er kveðið á um fjárhagslegan stuðning iðnríkja við þróunarríki. Samningurinn er þannig safn sjálfviljugra loforða, sem sum hver eins og í tilviki Íslands hafa ekki enn verið sett á blað. Það reynir því á pólitískan vilja aðildarríkja að samningnum hvernig til tekst og þá um leið hvort bægt verði frá stærstu hættu sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir hingað til vegna manngerðra loftslagsbreytinga. Það er á þessum vegamótum sem fjórða Hringborð norðursins (Arctic circle) þingaði í þrjá daga samfleytt í Hörpu um síðustu helgi með þátttöku nær 2000 manns víða að úr heiminum. Hringborð norðursins hefur þannig fest sig í sessi sem stærsta samkoma áhugaaðila, einstaklinga, stjórnmálamanna og fyrirtækja sem beina sjónum sínum sérstaklega að norðurslóðum. Vettvangurinn er tilkominn fyrir frumkvæði og atorku Ólafs Ragnars Grímssonar, sem með þessu hefur unnið landi og þjóð og málstað umhverfisverndar ómetanlegt gagn.

Fjölþætt og áhugaverð dagskrá

Dagskrá þessa Hringborðs var eins og hinna fyrri afar fjölbreytt og áhugaverð með samspili stjórnmálamanna, vísindamanna og sérfróðra um loftslagsmál ásamt talsmönnum fyrirtækja stórra og smárra. Salurinn Silfurberg í Hörpu var þéttskipaður á sameiginlegum fundum fyrir hádegi og síðan tóku við ótal sérfundir skipulagðir fyrirfram af þátttakendum og fylltu alla sali og skot í Hörpu fram undir kvöld. Vandinn var að velja úr þessari fjölbreytilegu flóru manna og málefna. – Ekki vantaði þekkt nöfn af alþjóðavettvangi, þeirra stærst Ban Ki-moon aðalritari Sameinuðu þjóðanna síðan 2007, sem fékk verðlaun ráðstefnunnar og afar hlýjar viðtökur. Hann talaði skýrt um þann vanda sem við blasir og minnti á að Parísarsamningurinn er málamiðlun. Allt sé nú undir ríkisstjórnum heimsins komið hverjar efndirnar verða og þar skipti vakandi almenningsálit mestu máli, raddir fólks úr undirdjúpunum sem ná þurfi upp á yfirborðið. Af mörgum stjórnmálamönnum sem hér fengu orðið vakti hvað mesta forvitni ráðherra Skotlands, Nicola Sturgeon, skelegg kona sem ræddi m.a. flókna stöðu þessa nágranna okkar eftir Brexit. Íslendingar áttu orðið hér og þar á ráðstefnunni, m.a. talsmenn fyrirtækja og oft bar á góma vaxandi ferðamannastraum í norðurátt. Aðlögun fólks og atvinnulífs að umhverfisbreytingum á heimskautssvæðinu var gildur þáttur í umræðum og komu fulltrúar frumbyggja ítrekað á svið. Fjöldi ungs fólks á áheyrendabekkjum var ánægjuleg staðreynd.

Hættumerkin hrannast upp

Að baki Parísarsamningsins eru æ fleiri teikn um þá hættu sem steðjar að umhverfi manna um allan heim vegna loftslagsbreytinganna sem birtast með tvíelfdum krafti á norðurslóðum. Straumhvörfum olli stefnubreyting Bandaríkjanna og Kína, sem fyrir tveimur árum opnuðu fyrir aðgerðir af sinni hálfu. Nú er það ekki aðeins minnkandi lagnaðarís sem veldur hækkun sjávarborðs, heldur eru æ skýrari teikn um rýrnun Grænlandsjökuls og jökla víða um heim sem gæti fært á kaf milljónaborgir í strandhéruðum í öllum heimsálfum. Láglend svæði eins og stór hluti Flórídaskagans og Bangladesh gætu breyst í hafsbotn á næstu öld. Við þetta bætist bráðnun sífrera á norðurslóðum, en henni fylgir losun metans með langtum meiri gróðurhúsaáhrifum en af völdum koltvísýrings. Augljós þörf er á róttækum gagnaðgerðum, ekki aðeins að hverfa sem fyrst frá kolefnaeldsneyti sem orkugjafa heldur með því að binda kolefni í stórum stíl í skóglendi, votlendi og með breyttum landbúnaði. Flóknasta viðfangsefnið er jafnframt að leggja grunn að gjörbreyttu efnahagskerfi  sem taki mið af sjálfbærni til langs tíma litið.

Ísland  þarf að taka sig á.

Átta ríki eru aðilar að Norðurskautsráðinu (Arctic Counsil) sem stofnað var árið 1996. Jafnframt eiga þar seturétt fulltrúar margra áheyrnarlanda og sex samtaka frumbyggja. Leitað er samstöðu um allar ákvarðanir í ráðinu en frumkvæði hvílir á formennskulandi hverju sinni. Skipst er á formennsku á tveggja ára fresti, Bandaríkin skila af sér næsta vor og við taka Finnar og síðan Ísland vorið 2019. Íslendingar þurfa því að taka sig á og sinna loftslagsmálum með öðrum og skýrari hætti en hingað til. Enn losum við gróðurhúsaloft í stórum stíl, m.a. frá stóriðjufyrirtækjum, og erum í tvísýnu og ógagnsæju ESB-samstarfi um svonefndar upprunaábyrgðir. Olíuvinnsla á Drekasvæði er enn á dagskrá stjórnvalda og olíunotkun ráðandi í samgöngum og fiskveiðum. Þátttaka í Hringborði norðursins er góður skóli til að undirbúa og fræðast um knýjandi breytingar hér sem annars staðar. Fleiri íslenskir ráðamenn og þingmannsefni hefðu mátt tylla sér á bekki í Hörpu um liðna helgi og hljóta að sjást þar að ári liðnu þegar aftur verður sest á rökstóla.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim