Hjörleifur Guttormsson 14. desember 2016

Samningur Sameinuðu þjóðanna um viðskipti með vopn og frumkvæði smáríkja

Mannkynið er enn einu sinni statt á afdrifaríkum krossgötum þar sem ráðist getur hvort staðbundin stríð breytast í allsherjarbál eða hvort tekst að afstýra slíkum voða og taka af alvöru sameiginlega á viðfangsefnum sem við blasa og kalla á sjálfbærar lausnir. Púðurtunnan í Mið-Austurlöndum hefur að vísu verið lengi til staðar sem arfleifð nýlendutímans og stofnunar Ísraelsríkis, en um þverbak hefur keyrt frá síðustu aldamótum. Gömlu nýlenduveldin, Bretar og Frakkar, bera ásamt Bandaríkjunum meginábyrgð á þeim staðbundnu styrjaldarátökum sem þarna hafa geisað frá lokum kalda stríðsins en með borgarastyrjöldinni í Sýrlandi og samningaferlinu um kjarnorkumál Írana eru Rússar orðnir fyrirferðarmiklir þátttakendur í framvindunni. Þetta víðlenda svæði hefur í okkar tíð verið leikvöllur olíuhagsmuna Vesturveldanna sem fléttast saman við átök innan Múslimaheimsins. Sameinuðu þjóðirnar hafa allt frá stofnun 1945 leikið hér stórt hlutverk, yfirleitt í viðleitni til að bera klæði á vopnin. Afar miklu skiptir hver verður hlutur þeirra á framvindu mála í nafni alþjóðasamfélagsins. Í því sambandi beinast augu m.a. að Sáttmálanum um viðskipti með vopn (Arms Trade Treaty), sem miklu skiptir að verði í heiðri hafður og styrktur enn frekar.

Frumkvæði forseta Kosta ríka

Takmörkun á tilraunum með kjarnorkuvopn og bann við kjarnorkusprengingum var á dögum kalda stríðsins viðfangsefni milli risaveldanna og skilaði árangri á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í áföngum á tímabilinu 1963–1996. Dreifing hefðbundinna vopna fékk lengi vel ekki þá athygli sem skyldi, en árið 1997 beitti Óscar Arias forseti Kosta Ríka og friðarverðlaunahafi Nóbels sér fyrir umræðu um hömlur á sölu og dreifingu hefðbundinna vopna og fékk ýmsa málsmetandi einstaklinga í lið með sér. Málið komst á dagskrá Allsherjarþings SÞ 2006 þar sem samþykkt var tillaga athugun og reglur fyrir viðskipti með slík vopn. Aðeins Bandaríkin greiddu þá atkvæði gegn tillögunni, en Obama forseti breytti þeirri afstöðu fljótlega eftir að hann tók við af Bush í Hvíta húsinu. Eftir ráðstefnu á vegum SÞ 2012 hófst undirbúningur að Samningnum um viðskipti með hefðbundin vopn, sem Allsherjarþingið samþykkti vorið 2013 með aðeins þremur mótatkvæðum (Norður-Kórea, Íran og Sýrland), en 23 ríki sátu hjá, m.a. Kína, Indland, Rússland og Sádí-Arabía. Samningurinn öðlaðist síðan gildi á aðfangadag jóla 2014 eftir að 50 ríki höfðu fullgilt hann. Svo ánægjulega vildi til að Ísland var fremst í þeim hópi, herlaust land eins og frumkvöðullinn Kosta Ríka.

Friðlýsing gegn kjarnavopnum

Árangursrík barátta forseta Kosta Ríka fyrir eftirliti og takmörkunum á sölu hefðbundinna vopna er lýsandi dæmi um þau áhrif sem talsmenn fámennra ríkja geta haft á alþjóðavettvangi í baráttu fyrir góðum málstað sem snertir alla heimsbyggðina. Þetta smáríki í Mið-Ameríku, 51 þús. km2 að flatarmáli og með 4,4 milljónir íbúa, nýtur álits og virðingar vegna framgöngu sinnar á alþjóðavettvangi og framsækinnar stefnu innanlands með jöfnuð og umhverfisvernd að leiðarljósi. Fjórðungur landsins sem liggur að tveimur heimshöfum er friðlýstur í formi þjóðgarða.  Fordæmi Kosta Ríka ætti að vera landi eins og okkar hvatning til að beita sér í þágu heimsfriðar og sjálfbærni á öllum sviðum með verndun hafsins og norðurslóða að leiðarljósi. – Dæmi um þetta er ákvæði í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem Alþingi samþykkti 13. apríl 2016 þess efnis  „Að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga, í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu“. Þetta er uppskera af máli sem oft hafði verið flutt á Alþingi frá árinu 1987, síðast af þingmönnum úr fimm flokkum. Nú kemur það í hlut verðandi ríkisstjórnar að fylgja því máli eftir í reynd með formlegri friðlýsingu lögsögunnar og kynningu málsins á alþjóðavettvangi.

Miðlæg staða Íslands

Lega Íslands sem eyríkis nyrst í Atlantshafi hefur löngum skapað þjóð okkar sérstöðu. Fyrr á öldum fylgdu henni bæði ókostir og sóknarfæri og hart var gengið að gróðurríki landsins og fiskimiðum, þar sem einnig útlendingar áttu hlut að máli. Nú þurfum við umfram allt að gæta að umhverfisbreytingum og verndun viðkvæmrar náttúru ekki síður en að menningararfi og tungutaki. Hvorutveggja er brothætt og því skiptir árvekni og þekking byggð á rannsóknum meira máli nú en nokkru sinni. Höfuðatriði er að standa vörð um sjálfsákvörðunarréttinn því að hann er lykillinn að því að geta brugðist vitrænt við breyttum aðstæðum. Núverandi farvegir samskipta við aðrar þjóðir eru um margt ákjósanlegir, þar á meðal Norðurlandasamstarf og Norðurskautsráðið, þar sem Ísland tekur við formennsku að tveimur árum liðnum. Fyrverandi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, opnaði sýn og sóknarfæri til norðurs með vettvanginum Arctic circle, sem á sinn hátt minnir á þátt forseta Kosta Ríka í að stemma stigu við hömlulausri vopnasölu. Enn hefur smáríkið Ísland, andstætt ESB-ríkjum, sjálfstæða rödd sem hljóma þarf um ókomin ár á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim