Hjörleifur Guttormsson | 15. ágúst 2016 |
Vistspor mannkyns stækkar stöðugt með vaxandi ágengni í auðlindir jarðar Alþjóðlegar horfur í umhverfismálum eru túlkaðar með ýmsum hætti en niðurstaðan er ótvírætt á þá leið að það sígur ört á ógæfuhliðina. Þessa dagana erum við minnt á mælikvarða Global Footprint Network, samtaka sem um alllangt skeið hafa sérhæft sig í að reikna út vistspor þjóðríkja og jarðarbúa sem heild. Þau byggja á upplýsingum sem fengnar eru úr gagnasöfnum Sameinuðu þjóðanna og aðferðafræðin hefur þróast smám saman og orðið áreiðanlegri. Á hverju ári gefa samtök þessi út svonefndan yfirdráttardag (Earth Overshoot Day). en það er sú dagsetning þegar birgðir mannkyns til að framfleyta sér það árið eru uppurnar og úr því fara menn að ganga á höfuðstólinn. Í ár gerðist þetta mánudaginn 8. ágúst og það sem eftir er ársins er mannkynið að eyða um efni fram og „éta útsæðið“ svo gripið sé til annarrar samlíkingar. Hallar stöðugt undan fæti Útreikningar Global Footprint Network (GFN) sýna að frá því samræmdar athuganir hófust á auðlindanotkun jarðarbúa á 8. áratug síðustu aldar hefur stöðugt hallað undan fæti. Árið 1981 var komið að yfirdrætti á búreikningnum 14. desember, aldamótaárið 2000 hins vegar þegar þann 9. október. Árið 2010 hófst yfirdrátturinn frá og með 21. ágúst og nú 6 árum síðar var komið að skuldadögunum 8. ágúst. Vistsporið sem samanstendur af mismunandi þáttum er gefið upp í jarðhekturum, mismunandi stórt hjá einstökum þjóðum eftir umhverfisaðstæðum og neyslu. Gert er ráð fyrir að 2,1 hektari á mann gefi sjálfbæra niðurstöðu eða jafnvægisástand. Þannig eru aðstæður afar mismunandi frá einu landi til annars. Sum þjóðríki eins og Kanada, Kongó og Finnland eru aflögufær á meðan önnur, einkum þéttbýl iðnríki og þróunarríki eins og Kína, eru í verulegum mínus. Noregur er dæmi um land sem talið er í jafnvægi í sínum auðlindabúskap á meðan Danmörk telst í þrefalt verri stöðu. Það þýðir umreiknað að ef mannkynið allt væri á sama róli og Danir þyrfti þrjá jarðhnetti til að halda sjó og fjóra þegar Bandaríkin eiga í hlut. Hvert er vistspor Íslands? Því miður hefur Global Footprint Network ekki tekið Ísland með í útreikningum sínum og kann það m.a. að ráðast af fámenni, víðáttumiklu hálendi og afar stóru hafsvæði innan íslenskrar lögsögu. Hins vegar hafa margir leitast við að spá í okkar spil með svipaðri aðferðafræði, en niðurstöðurnar verið harla misvísandi, en þó hjá flestum eða öllum sem um málið fjalla harla neikvæðar. Á árinu 2010 skilaði Sigurður Eyberg Jóhannesson meistararitgerð við Háskóla Íslands sem ber heitið Vistspor Íslands, en leiðbeinandi hans var Brynhildur Davíðsdóttir. Niðurstöður hans þóttu í hógværari kantinum en samkvæmt þeim taldist vistspor Íslendinga að frátöldum fiskveiðum vera 12,7 hektarar í stað 2,1 hektari sem væri sjálfbært, þannig að munurinn er 6-faldur. Væru fiskveiðar okkar teknar með í dæmið samkvæmt aðferðafræði GFN teldist hver Íslendingur hins vegar nota 56 jarðhektara sem væri margfalt heimsmet! Þrátt fyrir þessa hógværu nálgun Sigurðar sýndu niðurstöður hans engu að síður að Íslendingar eru neyslufrekasta þjóð í heimi á mælikvarða vistsporsins. Við erum samkvæmt þessu afar fjarri því að geta talist sjálfbær sem þjóð, niðurstaða sem hollt er að leggja á minnið til að slá á hroka og sjálfsánægju. Hjörleifur Guttormsson |