Hjörleifur Guttormsson | 17. mars 2016 |
Evrópusamband í öngstræti og þörfin á að rækta garðinn heima fyrir Það blæs ekki byrlega fyrir Evrópusambandinu nú um stundir. Sambandið glímir við tilvistarvanda og margir fyrrum stuðningsmenn samrunans sem ESB stendur fyrir setja stórt spurningarmerki við framtíð þess. Þótt mest umtalaða deilumálið sé nú flóttamannastraumurinn og gjörólík viðbrögð aðildarrríkja við honum, hafa fleiri undirstöður verið að bresta, ein af annarri. Í þeim efnum er afdrifaríkast að trúin á evruna sem sameiginlegan gjaldmiðil fer ört dvínandi og hún er af mörgum talin undirrót efnahagslegrar stöðnunar og hrikalegs atvinnuleysis í mörgum aðildarríkjum. Nýjasta hálmstráið vegna flóttamannavandans er afar umdeildur samningur við Tyrki, sem reynt verður að innsigla á leiðtogafundi ESB nú í vikulokin. Ummæli liðinnar viku úr þremur áttum Í liðinni viku varð vart opnaður fjölmiðill svo ekki dyndu yfir dómsdagsspár um framtíðarhorfur ESB. Á mánudegi kom fram í Ríkisútvarpinu Jón Baldvin Hannibalsson sem kynnti sig sem fyrrum harðvítugasta talsmann þess að Ísland gengi í Evrópusambandið. „Ég hef endurskoðað þá afstöðu. Einfaldlega vegna þess að þegar ég horfi á Evrópu, þá sé ég Evrópusamband sem er nánast í sjálfsmorðsleiðangri vegna þess að pólitíska forystan hefur algjörlega brugðist ... Peningasambandið er byggt á röngum grunni og stenst ekki. Það mun ekki standast nýtt áhlaup.“ ‒ Á miðvikudegi átti BBC svonefnt „Hard talk“-viðtal við Mervyn King, fyrrum yfirmann Englandsbanka sem er höfundur að umtalaðri bók The End of Alchemy: Money, Banking and the Future of the Global Economy (Útg. W.W. Norton & Co.). Í viðtalinu varaði King ekki aðeins við alvarlegum brotalömum í bankastarfsemi á heimsvísu heldur stimplaði evruna sérstaklega sem líklegan banabita ESB. ‒ Á föstudegi steig svo fram fyrrum aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Anne Krueger, og sagði Íslendinga vel geta notað krónu áfram og réð jafnframt Íslandi frá að ganga í evrusamstarfið. (Fréttablaðið 11. mars, s.12). Vitnaði hún sérstaklega til vandræða Grikkja sem vítis til varnaðar. Gengur ESB í gapastokk Tyrkja? Upplausnin í Evrópusambandinu er engin óskastaða fyrir þróun mála á meginlandi Evrópu, þótt sá sem hér talar sé gagnrýninn á ólýðræðislega uppbyggingu þess og nú sem fyrr andsnúinn aðild Íslands að ESB. Það kapp sem lagt var á stækkun ESB frá 1990 að telja og sértaklega upp úr síðustu aldamótum er nú að koma því í koll samhliða spennitreyju evrunnar. Gjáin sem nú er öllum sýnileg milli nýrra aðildarríkja og þeirra gömlu undir forystu Þýsklands verður tæpast brúuð þannig að grói um heilt. Schengen-kerfið er í uppnámi og Merkel þýskalandskanslari virðist einnig vera að missa tökin innanlands ef marka má úrslit fylkiskosninga um síðustu helgi. Nú á að reyna að stemma stigu við flóttamannastraumnum með samkomulagi við Tyrki gegn háum fjárgreiðslum og öðrum tilslökunum. Það mælist hins vegar illa fyrir, enda gengur það gegn alþjóðlegum skuldbindingum Sameinuðu þjóðanna um meðferð flóttamanna. Ólýðræðislegar tiltektir Erdogans forseta innanlands bæta ekki úr skák. Á þetta mun reyna á leiðtogafundi ESB og Tyrkja á næstu dögum og niðurstaðan getur orðið afdrifarík. Framtíð Íslands getur orðið björt Þróun innan Evrópusambandsins á síðustu misserum ætti að sýna Íslendingum hvílíkt óráð það var að leita eftir aðild okkar að sambandinu 2009. Við sluppum með skrekkinn og ólíklegt er að þeir sem enn knýja á um að þráðurinn verði tekinn upp á ný nái eyrum margra. Sjálfsagt er að rækta framvegis góð tengsl við ESB eins og aðra og finna þeim samskiptum form sem hæfir. Þjóðin hefur að verulegu leyti unnið sig út úr afleiðingum efnahagshrunsins og á það nú fyrst og fremst við sjálfa sig að leggja hér grunn að farsælli framtíð í eðlilegu samstarfi við grannþjóðir beggja megin hafsins. Undirstaða efnalegs velfarnaðar er þó fyrst og fremst framsýnt skipulag um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og víðtæka landvernd. En til að hér dafni traust samfélag þarf jafnframt öfluga menningar- og menntastefnu og að þess sé gætt að engir verði utangarðs, hvorki heimamenn eða nýir landnemar. Orð í tíma töluð Nýlega barst mér í hendur grein eftir Guðrúnu Nordal sem birtist í Tímariti máls og menningar (1. hefti 2016) og ber heitið Veisla í farangrinum. Greinin er í senn óður til menningararfsins og hvatning til að rækta hann og endurnýja í gerbreyttu samfélagi frá því sem var um miðja síðustu öld. Guðrún segir m.a.: „Þegar við íhugum framtíð íslenskunnar og rannsókna á íslenskri menningu og sögu, finnum við að hún tengist að mörgu leyti afdrifum og möguleikum okkar litla samfélags í norðurhöfum og afstöðu okkar sjálfra til landsins og tungumálsins. Hvernig verður umhorfs ef við missum tengsl við tungu og sögu þess fólks, sem hefur byggt landið frá níundu öld, og þau sérkenni sem tungan ljær menningu okkar?“ Svar hennar er, að þótt íslenskan sé undurlítil í samfélagi tungumálanna sé það undir okkur sjálfum komið að hún nái að endurnýja sig og blómstra á nýrri öld tölvu og tækni. Hjörleifur Guttormsson |