Hjörleifur Guttormsson 18. febrúar 2016

Eru stjórnmálaflokkar á fallanda fæti?

„Allt er í heiminum hverfult“ kvað Jónas í ljóði sínu Ísland sem markaði upphafið að útgáfu Fjölnis. Það eru gömul sannindi og ný og gerast áleitin nú um stundir, hvort sem horft er út yfir Atlantsála eða á stöðu mála hér á ættlandinu góða. Athygli vekja miklar sveiflur í fylgi stjórnmálaflokka hérlendis og dvínandi álit á Alþingi sem stofnun. Samhliða þessu verða háværari kröfur um þjóðaratkvæðagreiðslur til að útkljá mál og um svonefnt beint lýðræði. Það er því eðlilegt að spyrja hvort staða hefðbundinna stjórnmálaflokka sé orðin svo veik að þeir ráði ekki við opna umræðu um kosti og galla slíkrar nýbreytni.

Sveiflurnar í fylgi við flokkana

Óvenjumiklar sviptingar hafa orðið í gengi stjórnmálaflokka hérlendis frá síðustu aldamótum og sérstaklega síðustu sjö árin frá títtnefndu hruni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá 1999 fallið úr um 40% í atkvæðastyrk niður í 27% vorið 2013 og hjakkar síðan í 20‒25% í skoðanakönnunum. Framsóknarflokkurinn með um 18% fylgi 1999 dalaði síðan, en fékk rösk 24% í kosningunum 2013. Undanfarið mælist Framsókn aðeins með um helming þess fylgis. Samfylkingin sem fékk 27% atkvæða við stofnun 1999 og fór endurtekið í um 30%, hrapaði niður í 13% í síðustu kosningum og er nú orðin eftirbátur VG með undir 10% í könnunum. VG hóf sig úr 9% fylgi við stofnun 1999 upp í tæp 22% þegar best lét, en fylgið hrundi niður í tæp 11% við lok stjórnarsetu 2013. Björt framtíð sem afkvæmi Besta flokksins fékk rösk 8% og 6 þingmenn 2013, en hangir nú á horriminni. Stóra breytingin er að Samfylkingin er komin í kör og Píratar hafa stokkið úr 5% fyrir þremur árum í 30‒40% samkvæmt skoðanakönnunum. Talsmenn þess unga flokks, sem sagt er að telji um 2000 virka félagsmenn, eru jafn undrandi og aðrir yfir þessari óvæntu fylgissveiflu.

Hverjar eru ástæðurnar?

Ýmsar kenningar eru viðraðar um ástæður þessara miklu breytinga og minnkandi gengis hefðbundinna stjórnmálaflokka. Efnahagshrunið 2008 og eftirleikurinn er af mörgum dregið fram sem aðalskýringin og vissulega höfðu afleiðingar þess djúpstæð áhrif sem og málstök þeirrar ríkisstjórnar sem við tók vorið 2009. Rannsóknir á þessu sviði eru hins vegar takmarkaðar og ég hygg að skýringa sé víðar að leita en oft er talið. Undanfarið hafa orðið margháttaðar félagslegar breytingar, sem valda dvínandi þátttöku í starfi stjórnmálaflokka. Vaxandi rof hefur myndast milli kynslóða og minni tími gefst en áður fyrr til samræðna um samfélagsmál manna á milli. Inn í þetta grípa tæknibreytingar með ágengum tækjum og tólum, netnotkun og samræður á svonefndum samfélagsmiðlum. Á áhrif þessa breytta umhverfis hefur m.a. verið bent nýverið í kjölfar rannsókna erlendis (http://www.information.dk/556756) og valda sumar niðurstöðurnar áhyggjum. Margt bendir líka til að stjórnmálamenn láti í vaxandi mæli stjórnast af fylgiskönnunum og yfirborðslegri umræðu í fjölmiðlum í stað þess að standa við eigin samþykktir og útskýra og þróa sína stefnu.

Tilraunir til ESB-aðildar afdrifaríkar

Fátt hefur leikið stjórnmálaumræðu hérlendis jafn grátt og ítrekaðar tilraunir stjórnmálaflokka og einstakra flokksforingja til að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Við borð lá að Framsóknarflokkurinn sundraðist vegna átaka um afstöðu til ESB-aðildar á kjörtímabilinu 2003‒2007 og það mál hefur heldur ekki látið Sjálfstæðisflokkinn ósnortinn. Fyrir Samfylkinguna var ESB-aðild undirstöðuatriði sem önnur stefnumótun flokksins tók mið af frá upphafi. Vinstri grænir lýstu sig allt frá stofnun 1999 andvíga aðild og héldu fast við þá afstöðu fram yfir hrun. Í aðdraganda kosninganna vorið 2009 voru endurteknir svardagarnir gegn aðild, en hlaupið frá þeim strax að kosningum loknum og fallist á kröfu Samfylkingarinnar um að sækja um aðild og það að þjóðinni forspurðri. Eftirleikurinn ætti að vera mönnum í fersku minni. Ekkert hefur grafið undan þessum flokkum báðum, inn á við og út á við, eins og meðferð þessa máls í stjórnartíð þeirra. Þegar nú blasir við djúpstæð tilvistarkreppa í sjálfu Evrópusambandinu verður æ fleirum ljóst út í hvaða ófæru Íslandi var stefnt með aðildarumsókninni.

Píratar og hugmyndir um beint lýðræði

Þegar „grunnstefna“ Pírataflokksins er lesin kemur í ljós samsafn af fallegum og gamalkunnum hugtökum, m.a. um gagnrýna hugsun, borgararéttindi og friðhelgi einkalífsins. Kalla mætti hana samsafn orða um sjálfsagða hluti. Það er helst með áherslu á beint lýðræði og sjálfsákvörðunarrétt sem örlar á nýbreytni í þessum þekkilega sunnudagaskóla. „Allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um mál sem varða þá“, um „styrkingu beins lýðræðis“, „að draga þurfi úr miðstýringu valds ... og efla þurfi beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast.“ Aðrir flokkar geta sjálfum sér um kennt ef stefnumið í þessa veru laða fjölda fólks sérstaklega til stuðnings við Pírata sem stjórnmálaafl. Hugmyndir um aðkomu almennings að ákvörðunum og beitingu þjóðaratkvæðagreiðslna um mikilsverð mál verðskulda opna umræðu, en gæta þarf þess að þær leiði til styrkingar lýðræðislegs stjórnkerfis í heild.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim