Hjörleifur Guttormsson 19. júní 2016

Glæsileg náttúrusýning undirbúin í Perlunni

Það er að rofa til fyrir unnendur íslenskrar náttúru. Undirbúningur að fjölbreyttri náttúrusýningu í Perlunni á Öskjuhlíð er kominn á góðan rekspöl eftir langan og óvissan meðgöngutíma. Baráttufólk og velunnarar hugmyndarinnar gáfust ekki upp fyrir fálæti hins opinbera heldur tóku höndum saman með Reykjavíkurborg um að nýta þetta óviðjafnanlega hús til að fræða unga og aldna um þau lögmál sem íslensk náttúra og umhverfi lýtur. Það var ánægjuleg stund þegar borgarráð Reykjavíkur sameinaðist 3. mars sl. um að taka tilboði Perlu norðursins ehf í uppbyggingu sýningarhalds sem laða mun að sér fólk á öllum aldri, skólaæsku jafnt og ferðamenn. Á borði menntamálaráðherra liggur enn hagstætt tilboð um að Náttúruminjasafn Íslands gerist aðili að sýningunni eins og forstöðumaður þess hefur ítrekað hvatt til. Verði því tilboði tekið yrði grundvöllurinn breikkaður enn frekar, en annars mun ríkið missa af gullnu tækifæri.

Raunasaga í marga áratugi

Liðið er á aðra öld frá stofnun Hins íslenska náttúrufræðifélags sem 1908 kom upp myndarlegri sýningu í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Á 100 ára afmæli félagsins 1989 leit út fyrir að byggt yrði Náttúruhús við Njarðargötu fyrir sýningarhald við hlið nýbyggingar sem stóð til að reisa yfir Náttúrufræðistofnun Íslands. Þá var gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands stæðu með ríkinu að sýningarþættinum og höfðu þáverandi borgarstjóri Davíð Oddsson og Sigmundur Guðbjarnason rektor Háskólans veitt þeirri hugmynd brautargengi. Einstök óvild eins þáverandi þingmanns kom á árinu 1992 í veg fyrir framgang málsins og málefni náttúruminjasafns lentu síðan í langvarandi útideyfu. Með einróma samþykkt Alþingis á lögum um Náttúruminjasafn Íslands 2007, sem verða skyldi eitt af þremur höfuðsöfnum landsins, vöknuðu vonir um að kyrrstaðan væri rofin. Það reyndist hins vegar tálsýn. (Sjá skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um safnið, maí 2015).
Þegar upp kom sú staða í ársbyrjun 2012 að Orkuveita Reykjavíkur hygðist selja Perluna til einkaaðila, tók sig saman áhugahópur fólks sem lengi hafði bundið vonir við myndarlegt náttúrusafn og skoraði á menntamálaráðuneytið að gangast þar fyrir uppbyggingu náttúrusýningar. Hópurinn sem kallaði sig Perluvini sagði m.a. í erindi til þáverandi menntamálaráðherra (dags. 15. febr. 2012): „Við höfum í huga að húsnæðið, að breyttu breytanda, þurfi að standast kröfur um nútímalega vísindamiðlun og að sýningar þar geti endurspeglað gagnvirk áhrif manns og náttúru.“ Reykjavíkurborg opnaði fyrir leigu Perlunnar í þessu skyni, og við ríkisstjórnarskipti 2013 hafði verið eyrnamerkt upphæð í  verkefnið, sem núverandi stjórnarmeirihluti sló striki yfir.
 
Stórhuga áform birtast

Haustið 2015 lá fyrir að Reykjavíkurborg teldi sig ekki geta beðið lengur eftir svörum frá ráðherra um aðild ríkisins að uppbyggingu sýningar á vegum Náttúruminjasafns Íslands. Þá ákváðu Perluvinir að beita sér fyrir stofnun einkahlutafélags og hefja fjársöfnun til að kosta undirbúning náttúrusýningar í Perlunni og láta reyna á samninga þar að lútandi við borgina. Félagið Perluvinir ehf var svo stofnað 27. október sl. og stóðu að því um 80 manns. Stjórnarformaður var kjörinn Finnbogi Jónsson. Litlu síðar varð ljóst að tveir fjársterkir aðilar höfðu einnig uppi áform um að nýta Perluna til slíks sýningarhalds. Voru brátt teknar upp viðræður þessara þriggja aðila sem leiddu til sammælis um að leggjast á eitt í þessu máli. Þannig varð til Perla norðursins ehf með sameiginlegri stjórn undir formennsku Helgu Viðarsdóttur. Reykjavíkurborg auglýsti nú í ársbyrjun eftir umsóknum um rekstur á sýningu um náttúru Íslands. Perla norðursins ehf brást við henni og lagði í febrúar inn tillögu, sem að mati dómnefndar var talin uppfylla öll sett skilyrði. Áætlaður stofnkostnaður sýningarinnar er 1.550 milljónir kr. án vsk. og hefur nauðsynlegt lánsfé verið tryggt auk eigin framlags. Ráðgjöf um sýningarhaldið er fengin frá þekktum erlendum fyrirtækjum á þessu sviði og frá íslenskum fræðaheimi. Það er sérstaklega ánægjulegt að í þessum hópi eru einstaklingar sem á fyrri stigum hafa lagt mikið á sig til að draumurinn um myndarlegt náttúrusafn yrði að veruleika.

Fjölþætt og stórbrotin sýning

Nú er í fullum gangi undirbúningur að sýningarþáttum í Perlunni og lögð á ráðin um æskilegar breytingar á húsnæðinu í samráði við Ingimund Sveinsson arkitekt hússins. Perlan sem byggð var 1991 er um 5000 fermetra og að auki fylgir til sýningarhalds vatnsgeymir þar sem komið verður fyrir ísgöngum sem hluta skýringa á loftslagsbreytingum. Stjörnuver fyrir 150 manns mun verða til hliðar við meginbygginguna, að mestu komið fyrir neðanjarðar. Beitt verður nýjustu tækni í miðlun samhliða hefðbundinni sýningartækni. Fullbúin sýning verður á næstu tveimur árum opnuð í áföngum. Perlan með umhverfi sínu er þegar vinsæll áningarstaður. Með fjölþættri náttúrusýningu verður hún sá segull sem draga mun til sín flesta þá sem heimsækja höfuðstaðinn og ómissandi þáttur í fræðslu um náttúru Íslands.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim