Hjörleifur Guttormsson 21. janúar 2016

„Sjálfstæð“ utanríkisstefna Íslands, viðskiptaþvinganir og kjarnorkuvopn.

Staðan á taflborði heimsstjórnmála breytist ört og nú í ársbyrjun er hún önnur og óvissari en verið hefur um alllangt skeið. Undirrótanna er þó að leita ár og áratugi til baka. Þetta á m.a. við um stríðsátökin í Sýrlandi sem nú hafa staðið í á fimmta ár og kostað ómældar hörmungar. Orsakirnar fyrir þeim hildarleik felast ekki síst í hernaðaríhlutun Bandaríkjanna og Breta í Írak frá og með árinu 2003 og nánu bandalagi þeirra fyrrnefndu við Sádi-Arabíu og Ísrael um langt  skeið. Íhlutunin hefur verið klædd í búning lýðræðis en að baki búa þröngir olíuhagsmunir til viðbótar við margslungið valdatafl í þessum heimshluta. Borgarastyrjöldin í Sýrlandi óx upp úr arabíska vorinu, þar sem Bandaríkin kusu að leggjast á sveif með hópum andstæðum Assad forseta á sama tíma og þau vinguðust skjótt við herforingjann al-Sísi í Egyptalandi sem kæfði þar afrakstur byltingarinnar og tugthúsaði Morsi sem kjörinn hafði verið forseti í almennum kosningum. Rússar kusu hins vegar að styðja áfram við stjórn Sýrlands og fengu hana til að eyða birgðum sínum af eiturefnavopnum. 

Pútín ýmist dáður eða úthúðaður

Það er merkilegt að fylgjast með opinberri umræðu hérlendis um Rússland, sem dregið er fram sem undirrót margs af því sem aflaga fer í álfunni, að ekki sé talað um Úkraínu, og  að Rússland undir stjórn Pútíns verðskuldi að vera króað af hvar sem því verður við komið. Rússagrýla virðist lifa hér betra lífi en nokkru sinni og halda mætti að Rússland Pútíns sé beinn arftaki Sovétríkjanna sálugu. Horft er framhjá því að Pútín var settur til forystu af Jelzín áratug eftir fall Sovétsins og í kjölfar þess að vestrænir sérfræðingar höfðu ótrauðir hjálpað stjórn Jelzíns við að einkavæða auðlindir Rússlands og koma þeim í hendur ólígarka. Á mörgu hefur gengið í valdatíð Pútíns, mannréttindi staðið höllum fæti, en staða hans í almenningsáliti heima fyrir styrkst stig af stigi, þrátt fyrir versnandi efnahag upp á síðkastið. Benda má á fróðlega úttekt The Guardian á 15 ára stjórnartíð Pútíns (15 years of Vladimir Putin ... 6. maí 2015 http://gu.com/p/4866z/sbl). Hluti af skýringunni á vinsældum hans heima fyrir er tortryggni Rússa vegna útþenslu NATÓ í austurátt og átökin um Krím og austurhéruð Úkraínu, sem þrátt fyrir Minsk samkomulagið hafa leitt af sér viðskiptaþvinganir að frumkvæði NATÓ, studdar af ESB ásamt Íslandi ofl. Saga Úkraínu og samskiptin við Rússland eru löng og blendin, síðast vegna atburðanna á Maidan-torgi í Kiev 20. febrúar 2014, sem leiddu til stjórnarskipta og útlegðar Yanukovych forseta. Tvennum sögum fer af upphafi skothríðar þar og fjöldadrápa og valdaskipta í kjölfarið. Um það má lesa í BBC News Magazine 12. febr. 2015: The untold story of the Maidan massacre, svo og í frásögnum af símtali utanríkisráðherra Eistlands 25. febrúar 2014 við Catherine Ashton utanríkismálastjóra ESB.  

Stórveldatafl og afstaða Íslands

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sendi á dögunum frá sér fréttatilkynningu og lagði áherslu á að Ísland hafi sjálfstæða utanríkistefnu, m.a. þegar kemur að viðskiptaþvingunum. Vel má vera að í hans huga sé það sjálfsagt að Ísland fylgi ákvörðunum, teknum á vettvangi NATÓ og ESB, afstöðu sem er oftar en ekki að frumkvæði bandarískra stjórnvalda. Ég fæ ekki séð að á fyrsta ársfjórðungi 2014 hafi verið greint opinberlega frá þátttöku Íslands í efnahagsþvingunum gagnvart Rússlandi né heldur að Alþingi hafi þá verið gerð sérstök grein fyrir henni. Svo er einnig að sjá af ummælum annarra ráðherra að ákvörðunin hafi ekki verið borin undir ríkisstjórnina. ‒ Í skýrslu stjórnvalda og samtaka í sjávarútvegi sem birt var í síðustu viku kemur fram að andsvör Rússa við viðskiptaþvingunum Vesturveldanna geti kostað íslenskt þjóðarbú háar fjárhæðir, jafvel tugi milljarða. Þar er jafnframt rakið með skýrum hætti að með þátttöku Íslands í þessum refsiaðgerðum gegn Rússum sé farið inn á aðrar brautir en áður hafa þekkst í viðskiptum landanna, m.a. á tímum kalda stríðsins. Það hlýtur að vera almenn krafa að slík stefnubreyting sé rædd og ákvörðuð af Alþingi áður en til kastanna kemur.

Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Löngu er tímabært að Ísland endurskoði stefnu sína í utanríkis- og öryggismálum og taki mið af þýðingarmestu hagsmunum okkar sem vopnlausrar eyþjóðar, sem byggja þarf tilveru sína á sjálfbærri nýtingu gæða lands og hafs og á vinsamlegum samskiptum til allra átta. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga (mál 418) um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Tillaga þessi er flutt af 10 þingmönnum úr fimm þingflokkum á Alþingi. Markmið hennar er „að gera allt íslenskt yfirráðasvæði kjarnorkuvopnalaust, afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar ... og stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.“ Slík stefnumótun væri til þess fallin að afla okkur virðingar og áheyrnar á alþjóðavettvangi í stað þess að Ísland sé áfram peð í stórveldatafli og troði illsakir við grónar viðskiptaþjóðir.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim