Hjörleifur Guttormsson 16. maí 2016

Stutt frásögn um ánægjulega ferð Vigfúsarniðja á Rangárvelli 21.maí 2016

Ferð okkar Vigfúsarniðja á Rangárvelli laugardaginn 21. maí til heiðurs Björgvin Vigfússyni sýslumanni og afkomendum hans tókst með ágætum, ef marka má raddir þátttakenda við ferðalok. Veðrið lék við hópinn, norðan gola og léttskýjað þannig að áfangastaðir og fjallhringur nutu sín vel. Það fór líka vel um hópinn í rútu BSÍ með Gunnar Valdimarsson úr Landbroti undir stýri. Undirritaður fararstjóri fór í hljóðnema yfir helstu kennileiti, jarðfræði og þróun þéttbýlisstaða á leið okkar.

Fyrsti viðkomustaður var Urriðafoss í Þjórsá, 6 m hár og fjölbreytilegur flúðfoss, sem lengi hefur staðið til að virkja en vonandi fær að renna frjáls um ókomin ár.

Eftir að komið var yfir Þjórsá tók við fræðsluhlutverkinu Helgi Þorláksson sagnfræðingur og sagði okkur frá Oddaverjum og leiddi hópinn upp á Gammabrekku áður en gengið var til kirkju í Odda þar sem hann miðlaði frekari fróðleik og áfram að Hvolsvelli.

Á hádegi komum við að Efra-Hvoli, þar sem hópnum var fagnað af Magnúsi bónda Guðmundssyni og systrunum Helgu Björgu og Ragnheiði Sigrúnu Pálsdætrum. Gamla húsið, sem fengið var tilbúið frá Svíþjóð 1908 og Björgvin og afkomendur hans bjuggu í, er hið stæðilegasta eftir endurbætur á síðustu árum. Þar var tekin meðfylgjandi mynd (hér) af hópnum áður en haldið var í Sögusetrið þar sem forstöðumaðurinn Sigurður Hróarsson tók á móti okkur í nafni Hvolshrepps sem veitti hópnum frían aðgang og kaffi. Undir góðum málsverði ávarpaði okkur Lárus Bragason sagnfræðingur frá Miðhúsum, sem kynnst hafði Páli Björgvinssyni vel og hafði meðferðis haka mikinn sem Páll ánafnaði honum. Á eftir var Njálusýningin skoðuð og refillinn mikli sem byrjað var á 2013 og enn er í vinnslu.
Félagsheimilið Hvoll var næsti viðkomustaður, en það var byggt fyrir frumkvæði Páls Björgvinssonar og vígt 1960. Þar í Pálsstofu kom til móts við okkur Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri ásamt systur sinni Ragnheiði Ósk Guðmundsdóttur, en hann hafði komið frá Ísafirði þennan morgun. Í ávarpi sagði hann okkur m.a. frá félagsheimilinu og Efra-Hvoli.

Frá Hvolsvelli var haldið kl 14 og ekið norður eftir vegi 264 að sögustaðnum Keldum, sem heyrt hefur undir Þjóðminjasafnið frá því um 1950. Þar í kirkju hittum við Skúla bónda Lýðsson, eiginmann Drífu Hjartardóttur sveitarstjóra og fv. alþingismanns. Skúli opnaði líka fyrir okkur Skálann sem þarna hefur staðið frá því á 12. öld, síðast endurbyggður eftir jarðskjálfta 1912.

Um nónbil komum við að Sagnagarði Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti þar sem á móti okkur tók Guðmundur Halldórsson rannsóknastjóri. Hann sagði okkur frá staðnum og nágrenni, baráttu við uppblástur og fleira um starf Landgræðslunnar. Síðan var sýningin skoðuð og þegið kaffi.

Gunnarholt var síðasti áfangastaður í ferðinni og þaðan haldið kl 16 og náð til Reykjavíkur kl 17:40. Í leiðinni var bætt við sögum í gamni og alvöru og tekið lagið.
Þannig lauk þessari ánægjulegu viðbót við ættarmótið í Hannesarholti 16. janúar sl.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim