Hjörleifur Guttormsson | 23. apríl 2016 |
Vinna að Rammaáætlun um margt til fyrirmyndar Áform um virkjanir vatnsafls og jarðvarma hafa löngum hreyft við þjóðarsálinni og verið tilefni umræðna og deilna, sem stundum hafa tekið á sig heiftarlega mynd á íslenskan mælikvarða. Mörgum eru í fersku minni átökin um Kárahnjúkavirkjun, en litið lengra aftur koma upp í hugann Blönduvirkjun og Laxárdeilan, að ógleymdum einstökum svæðum eins og Þjórsárverum og Eyjabökkum. Jarðvarmavirkjanir til raforkuframleiðslu hafa bæst við síðustu áratugi, en deilur um þær tæpast risið eins hátt og um vatnsaflið, og nú er komið að vindmyllum sem áhrifaþætti á umhverfið. Sá sem hér heldur á penna hefur verið þátttakandi á þessu sviði í hálfa öld og oft leitast við að finna farveg til að lægja öldur og þróa viðmið til að ná niðurstöðu út frá víðtæku mati, þá einnig með hliðsjón af orkunýtingunni. Þótt hægt hafi miðað um þessi efni út frá sjónarhóli náttúruverndar hefur þó verið ánægjulegt að verða vitni að bættum aðferðum í aðdraganda ákvarðana með eða á móti einstökum orkuframkvæmdum. Viðleitni til samráðs á sér langa sögu Því 50 ára tímabili sem hér er litið til má í grófum dráttum skipta í þrennt. Eftir deilur um Búrfellsvirkjun og álverksmiðju Alusuisse 1965–1970 gekkst Náttúruverndarráð 1972 fyrir samstarfi við yfirvöld orkumála til að draga úr neikvæðum áhrifum orkuframkvæmda á náttúrufar og val á ásættanlegum leiðum. Sérstök samstarfsnefnd aðila (SINO-nefndin) bar sig reglulega saman næstu tvo áratugi. Nokkur þáttaskil urðu með ályktun Alþingis 1989 þar sem ríkisstjórn var falið að láta undirbúa áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða með vísan til vinnu á þessu sviði í Noregi áratuginn á undan. Það tók framkvæmdavaldið heilan áratug að bregðast við þessari áskorun, en árið 1999 var loks kynnt ákvörðun stjórnvalda um svonefnda Rammaáætlun, sem nú hefur verið vettvangur mats á virkjunaráformum í hálfan annan áratug, en með ýmsum breytingum að formi og innihaldi. Undir verkefnisstjórninni hafa starfað faghópar á ýmsum sviðum og matsgrunnurinn breikkað í ljósi reynslu. Vorið 2011 voru samþykkt samhljóða á Alþingi fyrstu lög um verndar- og orkunýtingaráætlun (nr. 48/2011) og þeim var fylgt eftir með þingsályktun í ársbyrjun 2013. Ný verkefnisstjórn Rammaáætlunar á forræði umhverfisráðherra tók þá við og hún skilaði í síðasta mánuði tillögu um flokkun 25 virkjunarkosta, sem verða í umsagnarferli í sumar áður en verkefnisstjórnin gengur frá lokatillögu til ráðherra þann 1. september næstkomandi. Mikilvæg áherslubreyting verkefnisstjórnar Í umsögn minni til Alþingis 7. maí 2012 um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, 727. mál, sagði m.a. eftirfarandi: Mörg umdeild álitamál Ofangreindar áherslur eiga eflaust þátt í að verkefnisstjórnin færir nú í nýtingarflokk nokkra afar umdeilda virkjunarkosti á svæðum og í ám sem þegar hefur verið raskað. Vekja þar mesta athygli nýjar stórvirkjanir í Þjórsá, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Svonefnd samlegðaráhrif einstakra virkjunarkosta innbyrðis og gagnvart öðrum áætlunum og skipulagi koma inn sem nýr þáttur í niðurstöðum verkefnisstjórnar. Dæmi um það er að jarðvarmasvæðið Austurengjar við Krýsuvík er sett í nýtingarflokk en Trölladyngja nokkru vestar sett í biðflokk og vaxandi líkur því á að það svæði fari síðar í verndarflokk þar eð vart sé réttlætanlegt að fórna báðum þessum stöðum. Svipuð viðhorf virðast ráða því að Skrokkalda er sett í nýtingu en Hágönguvirkjun í biðstöðu. Hjörleifur Guttormsson |