Hjörleifur Guttormsson 24. nóvember 2016

Þingseta og aðild flokka að ríkisstjórnum

Fjórar vikur eru senn liðnar frá alþingiskosningum sem skiluðu um margt athyglisverðum niðurstöðum. Óvenjumargir nýir þingmenn voru kjörnir og endurnýjun á Alþingi frá aldamótum er örugglega Evrópumet. Konur eru loks orðnar nær helmingur þingmanna og meðalaldur þeirra sem á Alþingi sitja hefur jafnframt lækkað til muna. Margt af þessu lofar góðu, en mjög ör útskipti þingmanna eru tvísýn og koma sumpart ekki til af góðu. Mér heyrist sumir fráfarandi þingmenn vera að flýja vinnustaðinn eftir dapra reynslu, jafnvel aðeins í eitt kjörtímabil, og aðrir kalla eftir sálfræðingum til að lægja öldur innan eigin þingflokka. Stærstu tíðindi kosninganna voru hrun Samfylkingarinnar og þokkaleg útkoma Sjálfstæðisflokksins, þrátt fyrir klofningsframboð Viðreisnar. VG styrkti stöðu sína og tíðindum sætir auðvitað þingstyrkur stjórnleysingja, þ.e. Pírata með tíu manna þingflokk. Skoðun Fréttablaðsins 31. október sl. á pólitískum skilaboðum kosninganna hljóðaði samkvæmt fyrirsögn: Hvorki kollsteypur né óbreytt ástand. Undir það mat er hægt að taka, en hvað þarf að koma til? Áður en reynt er að svara þeirri spurningu fylgja hér örfá almenn orð um störf að stjórnmálum.

Stjórnmál, einstaklingar og flokkar

Stjórnmálastarf þarf, ef vel á að vera, að byggjast á hugsjón og heiðarleika. Hugsjónir manna um æskilegar leikreglur og framvindu samfélagsins eru mismunandi og út frá þeim skiptast menn í flokka eða taka sem kjósendur afstöðu til þeirra á kjördegi. Ekkert kemur í staðinn fyrir þátttöku í stjórnmálum, þar sem einstaklingar og hópar þróa sínar hugmyndir og bera þær fram í lýðræðislegri umræðu. Þjóðaratkvæðagreiðslur eiga rétt á sér til að útkljá mál sem miklu skipta, en þær leysa ekki þörfina á samstarfi manna í stjórnmálaflokkum sem leita kjörfylgis. Alþingi þarf áfram að vera vettvangur þar sem kjörnir fulltrúar setja fram og leita stuðnings við eigin hugmyndir, einnig óháð því hvar í flokki þeir standa.

Sá sem þetta skrifar átti sæti á Alþingi í 21 ár, og áður en til þess kom hafði ég tekið þátt í stjórnmálum og samtökum fólks í margbreytilegu samhengi. Ég átti sæti í tveimur ríkisstjórnum, en sat þó oftast á þingi sem óbreyttur liðsmaður, lengst af í stjórnarandstöðu. Allt var þetta tímabil áhugavert, »hart líf en aldrei leiðinlegt« svo vitnað sé í orð Eysteins Jónssonar við lok á löngum stjórnmálaferli 1974. Þingmál og hugmyndir sem ég fékk stuðning við voru mörg, einnig þótt fram væru borin í stjórnarandstöðu. Þingmenn ættu ekki að líta á stjórnarandstöðu sem áhrifalausa útlegð.

Taflið um myndun ríkisstjórnar

Ýmsum þykir seint ganga að mynda ríkisstjórn nú að þingkosningum loknum. Hollt getur verið að líta til sögunnar í því samhengi. Eftir kosningarnar vorið 1978 tók það fulla tvo mánuði að koma saman ríkisstjórn sem þá var loks mynduð með drjúgan þingmeirihluta að baki. Sú stjórn missti fótanna að 13 mánuðum liðnum vegna hallarbyltingar í Alþýðuflokknum. Við tóku kosningar á aðventu 1979 og í kjölfar þeirra þrátefli í meira en tvo mánuði. Stjórnin sem þá var loks mynduð hafði afar nauman þingstyrk en starfaði þó á fjórða ár. Í hvorugu tilvikinu var um hreinar línur að ræða milli hægri og vinstri á Alþingi, og staðan var að því leyti ekki ólík því sem nú er. Allt tal nú um myndun fimm flokka ríkisstjórnar frá miðju til vinstri, m.a. með þátttöku Viðreisnar og Pírata, er hugmyndalega út í hött. Viðreisn er frjálshyggjuframboð til hægri við Sjálfstæðisflokkinn og Píratar eru markaðssinnuð hreyfing sem leitar einfaldra lausna í netheimum. Það er ráðgáta hvernig flokki eins og VG kom til hugar að reyna að klastra saman ríkisstjórn úr slíkum efnivið. Afar óljós er líka staða og hugmyndir Bjartrar framtíðar, sem kosið hefur að spyrða sig saman við Viðreisn, fyrst og fremst að því er virðist vegna hugmynda beggja um ESB-aðild sem lausnarorð.

Skynsamlegasti kosturinn

Þegar þetta er skrifað ríkir enn óvissa um stjórnarmyndun flokkanna fimm. Að henni frágenginni fækkar kostum um myndun meirihlutastjórnar, fyrst og fremst vegna hiks VG við að láta reyna á stjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokki. Þar er formaður VG að því er virðist fangi eigin yfirlýsinga af þeim gamla skóla að allt sé betra en íhaldið. Augljóst er að háspenntar hugmyndir VG um skattahækkanir eru ekki líklegar til að fá byr í slíku samstarfi, en einhverjar breytingar á skattkerfinu og hert viðurlög við undanskotum ættu ekki að vera útlokaðar fyrirfram og þá með Framsóknarflokkinn sem líklegan þriðja aðila. Um ýmislegt annað ætti að geta náðst góð samstaða milli þessara þriggja flokka, þar á meðal að binda enda á óráðshjal um aðild Íslands að Evrópusambandinu um fyrirsjáanlega framtíð.
Fyrir Sjálfstæðisflokkinn væri hollt að nálgast VG á breiðu sviði umhverfismála, m.a. að festa í stjórnarskrá þjóðareign á náttúruauðlindum og ná fram öðrum breytingum sem sæmileg samstaða hafði tekist um sl. sumar. Kostur við hugsanlegt samstarf þessara þriggja flokka er jafnframt að þeir hafa góðan stuðning og þingstyrk víðast hvar á landinu. Látum því á þetta reyna sem fyrst.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim