Hjörleifur Guttormsson | 26. maí 2016 |
Fylgir fjölgun ferðamanna böl eða blessun? Straumur erlendra ferðamanna til landsins heldur áfram að vaxa, nam um 30% milli áranna 2014–2015 og stefnir í 37% fjölgun á þessu ári. Giskað er á að heildarfjöldinn fari í 2 milljónir eftir örfá ár. Margir fagna þessum óvænta happdrættisvinningi en aðrir benda á að slíkur vöxtur er í senn óheilbrigður í efnahagslegu sem og í vistrænu samhengi og feli í sér margvíslegar hættur. Viðbrögð stjórnvalda gagnvart þessari þróun hafa verið í skötulíki og fyrstu skref núverandi ríkisstjórnar voru einkar óhöndugleg með lækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu og fimbulfamb um náttúrupassa sem endaði í stóru strandi. Þegar það lá fyrir var sett á laggirnar Stjórnstöð ferðamála sem „tímabundið verkefni 2015–2020 til að treysta grunninn“. Í stjórn hennar sitja ekki færri en fjórir ráðherra undir formennsku ferðamálaráðherra ásamt fulltrúum frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Tekið er fram að þetta eigi að vera samráðsvettvangur, sem taki ekki yfir ábyrgð og skyldur núverandi stjórnkerfis. Fjárhagsleg áhætta og ofurvöxtur Fjárfestingar tengdar ferðaþjónustu hafa aukist stig af stigi undanfarin ár, einkum í byggingu hótelrýmis á höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að bankar og aðrar fjármálastofnanir hafa opið hús þegar um er að ræða lán til slíkrar starfsemi. Þarf ekki að hafa mörg orð um afleiðingar offjárfestingar ef skyndilegur samdráttur verður í ferðum til landsins af völdum náttúruhamfara, stórslysa eða breytinga í rektrarumhverfi ferðaþjónustunnar. Þetta er viðurkennt í nýlegri þingsályktun um fjármálastefnu 2017–2021 (741. mál yfirstandandi Alþingis) þar sem segir m.a. í greinargerð (s. 23-24): Undirstöðuþættir í ólestri Það dapurlega er að á sama tíma og erlendum ferðamönnum fjölgar gífurlega og engin markviss viðleitni er til að draga úr straumnum og dreifa honum um landið, eru flestir undirstöðuþættir vanbúnir og í ólestri. Þetta á við um hreinlætisaðstöðu, vegakerfi, gönguleiðir og landvörslu, menntun þjónustufólks og öryggismál. Þar gjöldum við fyrir áratuga vanrækslu á flestum sviðum, í hollustumálum, náttúruvernd og landrænu skipulagi. Þótt nú sé talað um að auka fjárveitingar til slíkra þátta, m.a. til uppbyggingar á ferðamannastöðum, tekur nauðsynlegur undirbúningur langan tíma og því hætt við að útkoman birtist sem of lítið, of seint. Skal þó síst lastað að þeir sem fjárveitingum ráða séu aðeins að taka við sér. – Félagsleg áhrif ferðamannastraumsins og eftirspurnar eftir gistingu eru ekki síður áhyggjuefni. Margir íbúðareigendur hafa brugðist við og bjóða íbúðir til skammtímaleigu á netmiðlum. Reykjavíkurborg hafði fyrir nokkrum árum í orði þá stefnu að viðhalda íbúabyggð í miðborginni. Í reynd hefur stefnuleysi borgarstjórnar leitt til þess að æ fleiri íbúðir enda sem gististaðir og langtímaleiga hækkar að sama skapi. Nú hafa nokkur sveitarfélög á landsbyggðinni brugðið á það ráð að banna skammtímaleigu íbúða, þar eð ella stefnir í að fólk flytji burt af stöðunum og húsnæði verði þar ófáanlegt til lengri tíma. Landið að lokast Íslendingum Fjöldi erlendra ferðamanna á vinsælustu áningarstöðum innanlands er nú orðinn slíkur að sumarlagi að margir Íslendingar veigra sér við að leggja í hefðbundin ferðalög um eigið land auk þess sem gistirrými er oft ófáanlegt í heilum landshlutum nema bókað hafi verið með löngum fyrirvara, jafnvel árið á undan. Við þetta bætist að mikið er um að erlent starfsfólk sem lítið sem ekkert kann í íslensku sé ráðið til starfa. – Samhliða þessari þróun er veruleg hætta á að fjölsóttir staðir drabbist niður sökum ágangs og að slakað sé á eðlilegum kröfum um náttúruvernd. Jafnvel helgustu vé geta þar verið í hættu eins og Jónas Haraldsson lögfræðingur hefur vakið athygli á í greinum um atvinnustarfsemi og afþreyingu í gróðaskyni á stöðum eins og í Þingvallaþjóðgarði og í Skálholti. (Mbl. 15. febr. og 30. mars 2016). Hægjum á áður en blaðran springur Ofurvöxtur ferðaþjónustunnar þessi árin er mikið alvörumál, sem kallar á skjótar og samræmdar aðgerðir eigi ekki illa að fara. Ábyrgð stjórnvalda er því mikil sem og atvinnugreinarinnar í heild. Óæskilegt er að þeir sem mestan hag hafa af því að flytja sem flesta til og frá landinu séu ráðandi um stefnuna. Böl eða blessun? Ef ekki tekst að hægja á springur blaðran með hvelli. Hjörleifur Guttormsson |