Hjörleifur Guttormsson | 29. september 2016 |
Gróður- og jarðvegsvernd útundan í skipulagi og ágengar tegundir stórfellt vandamál.Aldarfjórðungur er liðinn frá Ríóráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1992 um umhverfi og þróun. Sá merkisatburður skilaði tveimur veigamiklum alþjóðasamningum, þ.e. um loftslagsbreytingar af mannavöldum og um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Báðir þessi samningar gengu fljótlega í gildi með staðfestingu alls þorra aðildarríkja SÞ, af Íslands hálfu þegar á árinu 1994. Loftslagssamningurinn hefur lengst af síðan verið miðlægur í umræðunni um aðsteðjandi umhverfisvá og fræðilegur bakgrunnur hans fengið rækilega staðfestingu, síðast á Parísarfundinum í lok liðins árs. Íslensk stjórnvöld voru þó lengi í andófi gegn útfærslu hans hérlendis vegna ríkjandi stóriðjustefnu. Hinn samningurinn um líffræðilega fjölbreytni hefur einnig víða haft tilætluð áhrif á þróun löggjafar og alþjóðlegar reglur til verndar gróðurríki jarðar, þótt enn halli undan fæti. Íslensk stjórnvöld voru lengi vel áhugalaus um útfærslu þessa samnings, sbr. skýrslu Ríkisendurskoðunar frá í janúar 2006 (Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni. Umhverfisendurskoðun), og enn mæta einstök ákvæði hans andstöðu í stjórnkerfinu og hjá hagsmunaaðilum. Um það vitna m.a. vettlingatökin gagnvart ágengum tegundum og ofbeit búfjár á stórum svæðum.Ólíku er saman að jafna hvernig brugðist hefur verið við leiðsögn samningsins á Íslandi annars vegar og í nágrannalöndum hins vegar, m.a. í Noregi þar sem náttúrufar er um margt hliðstætt og hérlendis. Ólíkt höfumst vér aðÁrið 2001 skipuðu norsk stjórnvöld 13 manna nefnd til að undirbúa tillögur að löggjöf um verndun náttúru, landslags og líffræðilegrar fjölbreytni í Noregi. Tillögur nefndarinnar að nýjum lögum voru kynntar 2004 og lögfestar árið 2009 sem Naturmangfoldloven. Lögin taka jafnt til dýra og plantna, þurrlendis, ferskvatns og strandsvæða. Í fjórða kafla laganna um framandi lífverur er kveðið á um að leyfi þurfi fyrir dreifingu hvers kyns lífvera sem ekki eiga náttúrulegt heimkynni í Noregi. Slíkt leyfi megi stjórnvöld ekki veita ef ástæða er til að ætla að slík dreifing leiði til umtalsverðra neikvæðra afleiðinga fyrir lífríkið. Í byrjun árs 2016 voru í krafti þessara laga innleiddar strangari kröfur til allra sem hyggjast flytja inn framandi lífverur og jafnframt var bannaður innflutningur og dreifing 20 lífverutegunda, dýra og plantna, og til viðbótar 11 tegunda landplantna frá ársbyrjun 2021. Í fyrri hópnum eru m.a. þrjár tegundir lúpínu, þar á meðal alaskalúpína, tvær tegundir af körfublómaætt (Solidago spec.) svo og ameríkuhumar. – Bannið á alaskalúpínu hlýtur að vekja athygli hérlendis í ljósi áratugadeilna um dreifingu hennar.Nýjar rannsóknir og lagafyrirmæliVið Íslendingar höfum hingað til staðið langt að baki nágrannaþjóða í grunnrannsóknum á náttúru þurrlendisins. Þetta á ekki síst við um plönturíkið, þar sem fé til almennra rannsókna hefur verið skorið við nögl, nema helst þegar ráðast hefur átt í umfangsmiklar virkjanaframkvæmdir. Almennan samanburðargrunn og heildarsýn hefur þannig vantað og skipulagsfyrirmæli og ákvarðanir því borið keim af handahófi. Á þessu er loks að verða breyting með kortlagningu Náttúrufræðistofnunar Íslands á landvistgerðum, sem hófst á hálendi Íslands fyrir nokkrum árum en nær nú til landsins alls. Innan skamms er að vænta útgáfu Íslandskorts þar sem birtast munu yfir 60 aðgreindar vistgerðir ásamt skýringum. Með því skapast nýr grunnur til samræmds mats á ástandi landsins og um leið forsendur til skipulagsákvarðana um nýtingu og meðferð gróður- og jarðvegsauðlindarinnar. Lagaumhverfið hefur jafnframt tekið breytingum til bóta þar sem eru skipulagslögin frá 2010 ásamt nýsamþykktri landsskipulagsstefnu frá 16. mars 2016. Hún gerir m.a. ráð fyrir að flokkun og greining lands verði lögð til grundvallar skipulagsákvörðunum. Slík ákvæði eiga og þurfa að varða alla þætti landnotkunar, landbúnað, að búfjárbeit og nytjaskógrækt meðtalinni, sem og náttúru- og landslagsvernd.Gífurleg verkefni á skipulagssviðiFram að þessu hefur Ísland staðið aftarlega í skipulagsmálum með tilliti til lagaumhverfis um meðferð og ráðstöfun lands. Samræmd lög þarf að setja um gróður- og jarðvegsvernd og fella inn í þau ákvæði um skógrækt og landgræðslu, búfjárbeit og aðra þætti landnýtingar. Ofbeit er staðreynd á víðlendum og viðkvæmum svæðum. Ágengar tegundir eins og lúpína eru að leggja undir sig stór svæði, m.a. fyrir tilstilli opinberra stofnana, og eru æ meiri ógn við þá náttúru sem fyrir er. Ekkert minna en stórátak í anda samningsins um líffræðilega fjölbreytni getur komið í veg fyrir gífurlegan og óbætanlegan ófarnað. Skipuleg landnýting, byggð á bestu þekkingu um æskileg landnot, er það tæki sem beita verður framvegis. Skipulagsákvarðanir eru áfram í höndum sveitarfélaga með hliðsjón af fyrirmælum í landsskipulagsstefnu. Stórefla þarf ráðgjöf og fræðslu um þessi málefni á vegum sveitarfélaga og gera náttúrustofur landshlutanna að vettvangi fyrir óháða ráðgjöf.
Hjörleifur Guttormsson |