Hjörleifur Guttormsson 29. desember 2016

Skjót veðrabrigði á heimsvísu

Árið sem nú kveður hefur verið óvenju stormasamt á alþjóðvettvangi en viðburðirnir sem margir minnast eiga sér rætur í fortíðinni, sumir langt til baka. Flestir sem fylgjast með heimsviðburðum nefna Brexit, kjör Trumps sem forseta Bandaríkjanna, borgarastríðið í Sýrlandi, flóttamannastrauminn norður á bóginn og fjölgun hryðjuverka. Aldarfjórðungur er liðinn frá lokum kalda stríðsins, sem margir væntu að boðaði friðsamlegri heim og betri tíð í samskiptum stórvelda eftir fall Sovétríkjanna og framgang kapítalismans sem efnahagskerfis um víða veröld. Niðurstaðan hefur orðið önnur með stöðuga hernaðarlega íhlutun stórvelda í Mið-Austurlöndum og víðar til að tryggja sér aðgang að olíu og aðra hagsmuni. Nú rétt fyrir jólin boðuðu svo Trump og Pútín endurnýjun kjarnorkuherafla ríkjanna, sem var tákn gereyðingar og helsti ógnvaldur á ofanverðri öldinni sem leið. Við þetta bætist að ríkjandi leikreglur á efnahagssviði færa nú auðæfi kerfisbundið á æ færri hendur þannig að stéttaandstæður hafa skerpst til muna á nýjan leik á sama tíma og vald fjölþjóðafyrirtækja fer stöðugt vaxandi.

Aðsteðjandi umhverfisvá

Árið 2016 bætist nú við í langa röð hlýnunar andrúmsloftsins vegna losunar gróðurhúsalofts og sívaxandi notkunar jarðefnaeldsneytis. Samkomulagið á Parísarfundinum fyrir ári með það stefnumið að stöðva meðaltalshlýnun við 1,5 til 2°C á eftir að sanna sig í reynd, en núverandi þróun stefnir að óbreyttu í algjört óefni í þróun veðurkerfa, súrnun sjávar og hækkun sjávarborðs vegna bráðnunar jökla. Í Parísaryfirlýsingunni fólust engin bindandi ákvæði um framkvæmd boðaðrar stefnu heldur var lausnin lögð í ósýnilega hönd markaðarins sem beina á fjárfestingum í framleiðslu endurnýjanlegrar orku. - Ör fólksfjölgun er annar umhverfisþáttur sem eykur álagið á umhverfi og auðlindir í áður óþekktum mæli. Nú er íbúafjöldi jarðar um 7,5 milljarðar en stefnir í 11 milljarða í aldarlok. Álagið á vistkerfin vex að sama skapi og mun víða fara langt yfir þolmörk. Þegar við bætist ósjálfbær efnahagsvöxtur með tilheyrandi álagi samhliða loftslagsbreytingum blasir við fólksflótti í áður óþekktum mæli. Það kemur þannig í hlut þeirra sem nú eru ungir að árum að glíma við önnur og stærri vandamál en mannkynið hefur áður kynnst og órað fyrir.

Vandi Evrópusambandsins

Þetta ár hefur reynst Evrópusambandinu þungt í skauti. Alvarlegasta höggið var því greitt á miðju ári með úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi þar sem 52% lýstu sig fylgjandi úrsögn. Brexit er ekki aðeins harður dómur um reynsluna af veru Breta í sambandinu heldur grefur það undan tiltrú á framtíð ESB sem var orðin veik fyrir. Upphaflegt bandalag sex ríkja Vestur-Evrópu með Rómarsamningnum 1958 var merkilegt skref, ekki síst til þess ætlað að græða sár endurtekinna styrjalda milli Frakka og Þjóðverja. En stöðug viðleitni ráðandi afla til stækkunar með miðstýrðu og ólýðræðislegu stjórnkerfi á kostnað þjóðþinga aðildarlandanna hefur veikt tiltrú og tengsl við almenning. Evran sem sameiginleg mynt í helmingi aðildarríkja ESB hefur jafnframt reynst afdrifarík spennitreyja utan um ólíkan efnahag og víða leitt til gífurlegs atvinnuleysis. Afnám innra landamæraeftirlits með Schengen-samningnum um síðustu aldamót hefur reynst feigðarflan með óvarin ytri landamæri við Miðjarðarhaf. Ráðamenn ESB óttast nú viðbrögð æ fleiri við straumi flóttamanna úr suðri sem gæti jafnvel orðið banabiti sambandsins. Framundan er forsetakjör í Frakklandi að vori og þingkosningar í Þýskalandi næsta haust.

Staða Íslands í ótryggum heimi

Árið 2016 hefur um margt verið Íslendingum gjöfult. Þjóðin hefur að mestu náð sér eftir kollsiglingu hrunsins fyrir átta árum, hafnaði Icesave og fékk rétt sinn staðfestan fyrir dómi. Gífurlegur vöxtur í ferðaþjónustu þessi árin er stærsta breytingin og sér ekki fyrir endann á. Hins vegar vantar mikið upp á að við hafi verið brugðist með eðlilegri gjaldtöku í tengslum við þessa blómstrandi atvinnugrein til að tryggja uppbyggingu innviða, öryggi og sómasamlegar aðstæður til móttöku gesta, sem og dreifingu ferðamanna. - Tengsl Íslands við Evrópusambandið með EES-samningnum voru misráðin á sínum tíma og eru ósamboðin fullvalda ríki. Þau ætti nú að taka til endurskoðunar og koma samskiptum við ESB í annað horf til frambúðar, ef til vill með tvíhliða samningi. Ísland sem eyríki átti líka aldrei erindi í Schengensamstarfið. Við eigum sem fyrst að taka landamæraeftirlit í eigin hendur til að gæta sem verða má innra öryggis og viðtöku þeirra sem hér leita hælis. Þannig eigum við að nýta svigrúm okkar til sjálfstjórnar og rækta um leið tengsl okkar við umheiminn til allra átta.

Umhverfismál og varsla auðlinda

Taka þarf málefni sem varða umhverfisvernd og sjálfbært skipulag föstum tökum og efla til muna rannsóknir á náttúru lands okkar og hafsvæða innan efnahagslögsögunnar. Einboðið er að treysta samstarf við Norðmenn, Færeyinga og Grænlendinga um vörslu og meðferð auðlinda við norðanvert Atlantshaf, m.a. í ljósi fyrirsjáanlegra sem og óvæntra umhverfisbreytinga.Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim