Hjörleifur Guttormsson 30. janúar 2016

Þríþætt ættarsamkoma í Hannesarholti

Laugardaginn 16. janúar 2016 var haldið ættarmót í Hannesarholti í Reykjavík og sóttu það hátt í 80 manns. Þar var minnst niðja Vigfúsar Guttormssonar (1813‒1874) prests í Ási í Fellum, en hann var tvígiftur. Með fyrri konu sinni Björgu Stefánsdóttur (1821‒1861) prests á Valþjófsstað Árnasonar (giftust 1841) eignaðist hann synina Guttorm og Pál en soninn Björgvin með síðari konu sinni Guðríði Jónsdóttur (1841‒1918) Einarssonar frá Gilsá í Breiðdal, Það voru niðjar fjölskyldna þeirra sem lögðu til efniviðinn í ættarsamkomuna sem hér er gerð stuttlega grein fyrir. Fyrst fáein orð um þessa bræður frá Ási.
 

  • Guttormur Vigfússon (1845‒1937) oftast kenndur við Stöð í Stöðvarfirði þar sem hann þjónaði lengst sem prestur. Hann varð stúdent úr Lærða skólanum 1869 og brautskráðist úr Prestaskólanum tveimur árum síðar. Eftir að þjóna sem aðstoðarprestur í fjögur ár var honum 1876 veitt Svalbarð í Þistilfirði sem hann þjónaði til 1888 að hann fékk veitingu fyrir Stöð og sat þar síðastur presta til ársins 1925. Fyrri kona hans var Málmfríður Anna Jónsdóttir Austmann (d.1874) og eignuðust þau eina dóttur sem upp komst, Helgu Austmann (d. 1949). Síðari kona hans var, Friðrika Þórhildur Sigurðardóttur frá Hvalbak (1859‒1945), og eignuðust þau 7 börn sem upp komust (systkinin frá Stöð) en 2 dóu í bernsku. Guttormur hélt dagbók í meira en hálfa öld og kenndi fjölmörgum ungmennum, þótti sérlega fær í latínu. Á Svalbarði sagði hann m.a. til Einari Benediktssyni, síðar þekktu skáldi.
  • Páll Vigfússon (1851‒1885) varð stúdent úr Lærða skólanum 1873 og innritaðist í Hafnarháskóla um haustið og lauk þaðan heimsspekiprófi 1874. Fyrr um veturinn andaðist Vigfús faðir hann og varð Páll þá að hætta námi og taka við búi Guðríðar  stjúpu sinnar í Ási og síðar í Hrafnsgerði, en Björgvin hálfbróðir hans var þá 8 ára. Páll varð hreppstjóri Fellahrepps 27 ára gamall, sat í sýslunefnd og var fundarstjóri á Þórsnesfundum um þjóðmál um svipað leyti. Sumarið 1880 kvæntist hann Elísabetu Sigurðardóttur (1846‒1927) Gunnarssonar prests á Hallormsstað, en þau voru systkinabörn. Stjúpa hans „maddama Guðríður“ og bróðirinn Björgvin fylgdu honum í Hallormsstað þar sem Guðríður stóð sem ráðskona fyrir búi til ársins 1905, en Elísabet sinnti bókmenntum og hannyrðum. Páll gerðist umsvifamikill bóndi á Hallormsstað, byggði þar framhús sem enn stendur og hóf sem ritstjóri útgáfu blaðsins Austra á Seyðisfirði 1883. Hann lést úr sullaveiki vorið 1885, hafði þá fengið áskoranir um að gerast þingmaður. Höfðu þau Elísabet þá eignast börnin Sigrúnu og Guttorm.
  • Björgvin Vigfússon (1866‒1942) gekk eins og bræður hans í Lærða skólann og varð stúdent 1888 og lauk lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1896. Varð brátt umboðsmaður Múlasýslujarða og bjó á Hallormsstað, þar sem hann studdi ásamt móður sinni við bak Elísabetar húsfreyju, m.a. í samningagerð við landssjóð um afsal ábúðarréttar á jörðinni til skógræktar. Björgvin kvæntist 1898 Ragnheiði Ingibjörgu  Einarsdóttur (d. 1944) frá Höskuldsstöðum í Breiðdal og eignuðust þau 4 börn: Pál bónda á Efra-Hvoli, Einar sem dó ungur, Helgu Guðríði fyrri konu Þórarins á Eiðum (d. 1937) og Elísabetu, konu Þorláks Helgasonar verkfræðings. Björgvin var sýslumaður Skaptfellinga  1905‒1908 og síðan  Rangæinga 1909‒1936 með búsetu á Efra-Hvoli. Hann skrifaði m.a. um skólamál og hvatti til stofnunar lýðskóla í sveitum með skylduvinnu nemenda. Góð tengsl héldust milli Hallormsstaðar og Efra-Hvols, m.a. dvaldi Sigrún Pálsdóttir þar 1913‒1916, kenndi börnum og hélt vefnaðarnámskeið.

Aðdragandi ættarmótsins

Í erfidrykkju eftir Önnu Þorsteinsdóttur í Eydölum sumarið 2009 varð til sú hugmynd að ná saman nokkrum afkomendum sona Vigfúsar í Ási. Lögðu Ásdís Skúladóttir og undirritaður í púkk um 10 manna úrtak sem boðið var til kaffisamsætis hjá okkur Kristínu að Vatnsstíg 21 þann 29. nóvember 2009. Var þar m.a. spáð í ættareinkenni og það orðspor að Vigfús prestur hafi stundum þótt barnalegur í orði og athöfnum og er talið að þessa eiginleika gæti stöku sinnum hjá afkomendum hans. Tíð skyldleikahjónabönd hefðu síðan styrkt þessi og önnur ættarsérkenni samkvæmt lögmálum erfðafræðinnar. Þótti samsætið takast vel og minnti Ásdís á það þremur árum síðar. ‒ Varð það til þess að bókað var fyrir svipað úrtak, þ.e. um tylft manna, í kamesi á loftinu í Hannesarholti  18. janúar 2014. Þangað kom fólk með myndir af forfeðrum, sagðar voru sögur yfir veitingum og allir skemmtu sér það vel að ákveðið var að hittast á sama stað að ári, 17. janúar 2015. Sú samverustund þótti einnig ánægjuleg og var þar samþykkt einróma að gefa fleiri ættarlimum kost á að hittast. Það áform kristallaðist í ættarmótinu í Hljóðbergi, salnum niðri í Hannesarholti, laugardaginn 16. janúar 2016. Ásamt mér undirbjó atburðinn þriggja manna hópur sem endurspeglaði niðjahópana þrjá, þau Þórhildur Pétursdóttir, Þorsteinn G. Þórhallsson og Ragnheiður Þorláksdóttir. Gengið var frá dagskrá og boðaði hver sitt lið og aðstandendur til þátttöku.

Dagskráin í aðalatriðum

Aðsóknin á samkomuna í Hannesarholti fór fram úr björtustu vonum þannig að samkomusalurinn var þéttskipaður (sjá mynd). Egill B. Hreinsson lék inngangslög á píanó hússins og tekið var vel undir almennan söng milli þátta. Hjörleifur Guttormsson setti samkomuna og sagði frá feðgunum Guttormi Pálssyni (1775-1860) í Vallanesi og syni hans Vigfúsi í Ási. Nöfnurnar Þórhildur Albertsdóttir og Þórhildur Pétursdóttir sögðu frá formóður sinni Þórhildi frá Harðbak og hennar fólki, Guttormi í Stöð og niðjum, og brugðu upp myndum frá Stöðvarfirði. ‒ Þá var röðin  komin að Hallormsstað og fjallaði Loftur Guttormsson um Pál Vigfússon, Elísabetu Sigurðardóttir og börn þeirra Guttorm og Sigrúnu. Gunnar Guttormsson rakti áfram þráðinn um afkomendur Guttorms með tveimur eiginkonum. Þá rifjaði Gunnlaugur Sigurðsson upp jólahald á Hallormsstað 1954 en hann var fjögurra ára. Eggert B. Ólafsson ræddi um fjölskyldu Bergljótar Guttormsdóttur og Ólafs H. Bjarnasonar og fór með ummæli um langömmuna Elísabetu. Sigurður Björn Blöndal sagði frá föður sínum Sigurði Blöndal, móður sinni Guðrúnu Sigurðardóttur og systkinum. ‒ Eftir kaffihlé var röðin komin að Efra-Hvolslegg. Helgi Þorláksson fjallaði um Björgvinsnafnið frá ýmsum hliðum, Ragnheiður Þorláksdóttir sagði frá Efra-Hvoli, las upp frásögn af sýslunefndarfundum og fleiri minningabrot. Páll Björgvin Guðmundsson hafði forsöng við harmonikkuundirleik Ragnheiðar Óskar Guðmundsdóttur. Í lokin sungu allir af tilfinningu Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur.

Rútuferð að Efra-Hvoli á vordögum

Undirbúningsnefndin kynnti á samkomunni hugmynd um rútuferð að Hvolsvelli og í Efra-Hvol á vordögum 2016, ef næg þátttaka verður. Komið yrði við á völdum stöðum í leiðinni og á Hvolsvelli mun væntanlega taka á móti hópnum Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri, en faðir hans var samtímamaður Páls Björgvinssonar, sem m.a. beitti sér fyrir byggingu félagsheimilisins Hvols, sem hefur að geyma Pálsstofu sem nefnd er honum til heiðurs. Þeir sem áhuga hafa á þátttöku í ferðinni eru beðnir að skrá sig sem fyrst hjá einhverjum úr undirbúningsnefndinni. Netföngin eru: Þórhildur Pétursdóttir thorhildur.petursdottir@gmail.com , Þorsteinn G. Þórhallsson THOS@mh.is og Páll Björgvin Guðmundsson pallbg@hotmail.com . Nánari tímasetning tilkynnt síðar.
          

Við þökkum húsráðendum í Hannesarholti fyrir góðar móttökur.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim