Hjörleifur Guttormsson | 30. júní 2016 |
Útganga Bretlands úr ESB getur haft víðtæk áhrif í norðanverðri Evrópu Árið 1994 var stofnuð á Bretlandi stjórnmálahreyfing sem bar nafnið Referendum Party, sem setti á oddinn aðeins eitt baráttumál, þ.e. þjóðaratkvæðagreiðslu um tengsl Stóra-Bretlands við Evrópusambandið. Að baki þessum hópi stóðu gagnrýnin öfl á þróun ESB í kjölfar Maastricht-sáttmálans, fremstur í flokki James Goldsmidt (1993-1997), óvenjulegur athafna- og hugsjónamaður sem dó fyrir aldur fram. Flokkurinn bauð fram í þingkosningum á Bretlandi 1997 og fékk um 800 þús. atkvæði, en vegna kosningakerfisins dugði það ekki til þingsætis. Undirritaður sat þing Referendum Party í Brighton haustið 1996 ásamt með liðsoddum frá öðrum Norðurlöndum sem barist höfðu gegn aðild að Evrópusambandinu, þeirra á meðal Kristen Nygaard sem fór fyrir Nei til EU, fjöldahreyfingunni í Noregi sem átti mestan þátt í að fella aðildarsamning Noregs við ESB 1994. – Um svipað leyti kom fram á sjónarsviðið í Bretlandi Sjálfstæðisflokkurinn UKIP (UK Independence Party) sem lengi vel fór lítið fyrir, en undir forystu Nigel Farage frá og með 2009 hefur hann sótt fram hröðum skrefum, fékk 27,5% og 24 þingmenn í kosningum til Evrópuþingsins 2014, og er á þeim vettvangi orðinn stærri en gömlu og grónu stjórnmálaflokkarnir. Atburðurinn sem ekki átti að geta gerst Þetta er rifjað upp hér þegar fyrir liggur niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi frá 23. júní sl. sem leiddi í ljós meirihluta fyrir því að Bretland segði sig úr Evrópusambandinu. Minnt skal á að sumar skoðanakannanir dagana fyrir þessar kosningar sýndu meirihlutafylgi við úrsögn, en svo rótfast var það sjónarmið að þetta hvorki ætti né mætti gerast að niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni varð óvænasti stjórnmálaviðburður í sögu ESB til þessa. Forysta Evrópusambandsins hefur alla tíð hatast við þjóðaratkvæðagreiðslur. Í þau fáu skipti sem þær hafa farið fram í aðildarríkjunum, hefur niðurstaðan gengið gegn tillögum frá Brussel, nú síðast í Hollandi í apríl í ár þegar 64% greiddu atkvæði gegn samningi ESB um nánari tengsl við Úkraínu. Ráð Brusselforystunnar og hlýðinna ESB-sinna við slíkum úrslitum hefur að jafnaði verið að láta endurtaka atkvæðagreiðslur eftir lítilsháttar breytingar. Kröfur um slíkt eru þegar komnar fram í Bretlandi, en í þetta sinn verður tæpast á þær hlustað. Útganga Bretlands er orðin staðreynd. Leitað er logandi ljósi að skýringum á niðurstöðunni, m.a. fullyrt að kjósendur hafi verið blekktir, en hinu er ekki haldið á loft hvernig ráðamenn austanhafs og vestan, með Obama forseta og Stoltenberg framkvæmdastjóra Nató í fararbroddi, kröfðust þess að Bretar sýndu ESB áfram hollustu. Segja má að mestallur heimurinn að frátöldum þeim Trump og Pútín hafi lagst í víking gegn Brexit! ESB sem ólýðræðisleg valdablokk Bresku kosningarnar hafa staðfest það rækilega sem öllum mátti vera ljóst, að Evrópusambandið er ólýðræðisleg valdablokk fjármagns og stórfyrirtækja sem færir völd og áhrif burt frá þjóðríkjunum í hendur yfirþjóðlegra stofnana, þar sem raunveruleg völd eru í höndum gömlu meginlandsríkjanna. Þetta sýndu ljóslega fyrstu viðbrögðin við úrsögn Breta þegar kvaddur var saman leiðtogafundur Þjóðverja, Frakka og Ítala en hin aðildarríkin 24 máttu standa álengdar og bíða frétta. Evrópusambandið átti í miklum erfiðleikum fyrir, einkum ríkin 16 sem búa við evruna sem sameiginlega mynt. Viðbrögð við vanda myntsambandsins hafa birst í kröfum um hertan samruna, m.a. um sameiginlega fjármálastjórn aðildarríkjanna. Slíkar hugmyndir eru nú fjær því að hljóta brautargengi en áður. Engin sameinandi leið hefur verið mörkuð um viðbrögð við flóttamannastraumnum og Schengen samstarfið er í miklu uppnámi. Leynimakkið kringum TTIP-viðskiptasamning ESB og Bandaríkjanna hefur sætt mikilli gagnrýni og enn aukið á tortryggni almennings. Það eru því framundan afar erfiðir tímar innanvert í ESB í aðdraganda þess að ganga þarf formlega frá útgöngu Breta í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar og semja um framtíðarsamskipti. En óvissa er ekki aðeins bundin við þróun innan ESB. Hún hvílir einnig yfir Bretlandi í kjölfar kosninganna. Báðar hefðbundnu stjórnmálablokkirnar, Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn eru í sárum eftir úrslitin og tekist verður á um forystu í þeim báðum á næstunni. Samhliða blasir við það stóra verkefni að finna þessu gamla efnahagsveldi nýjan stað í samskiptum við umheiminn. Bretar sögðu skilið við fríverslunarsamtökin EFTA og gengu í þáverandi Evrópubandalag 1973, sama árið og Danmörk. Nú er eftir að sjá hvort Bretland hallar sér að EFTA á nýjan leik sem jafnframt gæti leitt til endurskoðunar EES-samningsins, sem telja verður óboðlegt samskiptaform til lengri tíma litið. Vaxandi óánægja er með ESB-aðild Í Danmörku, Svíðþjóð og Finnlandi. Það kann því svo að fara að innan tíðar opnist nýjar leiðir um efnahagssamstarf milli Norðurlandanna allra og Bretlands í kjölfar aðskilnaðar á síðasta þriðjungi 20. aldar. Hjörleifur Guttormsson |