Hjörleifur Guttormsson | 31. mars 2016 |
Síðborið umhverfisráðuneyti og veik staða þess hérlendis Tveir fyrrum umhverfisráðherrar, Júlíus Sólnes og Eiður S. Guðnason, skrifuðu sameiginlega grein í Morgunblaðið í síðustu viku (23. mars sl.) undir fyrirsögninni Tilurð umhverfisráðneytisins. Tilefnið eru ummæli Sigríðar Önnu Þórðardóttur fv. umhverfisráðherra um hlut Sjálfstæðisflokksins í tilkomu ráðuneytis umhverfismála, þar sem hún taldi flokk sinn hafa verið í fararbroddi. Það fær vissulega ekki staðist eins og greinarhöfundar benda réttilega á. Það er líka rétt hjá þeim að stofnun umhverfisráðuneytis hafði dregist úr hömlu hérlendis, en ekki minnist ég þess að Alþýðuflokkurinn og Borgaraflokkurinn sem þeir félagar voru ráðherrar fyrir 1990-1993 hafi lagt sérstaka áherslu á stofnun slíks ráðuneytis árin og áratugina þar á undan. Tillaga um umhverfisráðuneyti 1972 Alþingi samþykkti ný og framsækin náttúruverndarlög 1971. Forgöngumaður um þá löggjöf var Eysteinn Jónsson fyrrum formaður Framsóknarflokksins, sem tók að sér formennsku í Náttúruverndarráði 1972-1978. Aðrir fulltrúar í ráðinu voru kosnir á fjölskipuðu Náttúruverndarþingi, sem haldið var þriðja hvert ár og skipað var m.a. fulltrúum frjálsra félagasamtaka. Á þinginu 1972 flutti undirritaður sem fulltrúi Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST) svofellda tillögu: „Náttúruverndarþing beinir þeim eindregnu tilmælum til Alþingis að það kjósi nefnd til að endurskoða og samræma alla löggjöf varðandi umhverfismál með það fyrir augum, að stjórn þeirra verði falin sérstöku umhverfisráðuneyti.“ Við flytjendur tillögunnar nefndum auk klassískrar náttúruverndar „allt það er varðar mengun lofts, láðs og lagar, landnýtingu og skipulag hverskonar.“ (Sjá ritið Vistkreppa eða náttúruvernd. Reykjavík 1974, s. 179-182). Andmæli gegn tillögunni komu einkum frá embættismönnum og fulltrúum opinberra stofnana, en þingið samþykkti tillöguna svo breytta: „Náttúruverndarþing beinir þeim eindregnu tilmælum til Náttúruverndarráðs, að það beiti sér fyrir því við ríkisstjórn, að endurskoðuð og samræmd verði löggjöf um umhverfismál og verði kannað, hvort þau megi sameina undir eina yfirstjórn.“ Náttúruverndarráð hélt málinu vakandi Náttúruverndarráð fylgdi þessari samþykkt eftir, sendi hana forsætisráðuneytinu og minnti oft á hana síðan. Til þessa má m.a. rekja tilkomu stjórnskipaðrar nefndar í mars 1975 til að endurskoða og samræma ákvæði laga um umhverfis- og mengunarmál, en að tillögu hennar lagði Gunnar Thoroddsen félagsmálaráðherra fram frumvarp á Alþingi vorið 1978 þar sem lagt var til að sérstök stjórnardeild, umhverfismáladeild, færi með yfirstjórn umhverfismála. Frumvarp þetta hlaut ekki byr í þinginu né heldur kom til framkvæmda hugmynd um að vista málaflokkinn í félagsmálaráðuneytinu. Tilraunir annarra annarra ráðherra á níunda áratugnum, Svavars Gestssonar og Alexanders Stefánssonar, um að fá sameinandi stjórn yfir umhverfismálin, runnu líka út í sandinn, ekki síst vegna kerfislægrar andstöðu embættismanna og skilningsleysis innan stjórnmálaflokkanna. Helst var stuðning að hafa úr röðum Alþýðubandalags og Samtaka um kvennalista eftir að þau síðarnefndu komu fram á sjónarsviðið, en verkalýðshreyfingin lét sig umhverfismálin litlu varða. Stjórnvöld rumskuðu seint og um síðir Síðla á níunda áratugnum var Ísland orðið eins og nátttröll í stjórn umhverfismála í samanburði við önnur Norðurlönd og flest önnur þróuð ríki. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar 1987 var að vísu vikið að umhverfisráðuneyti og í stefnuyfirlýsingu stjórnar Steingríms Hermannssonar sem við tók haustið 1988 var fjallað um stofnun slíks ráðuneytis. Undirritaður fór að beiðni stjórnvalda í nóvember 1988 til Noregs og Danmerkur til að safna gögnum um skipulag þarlendra umhverfisráðuneyta og stjórnsýslu og lagaumhverfi sem þeim tengdist. Uppskera úr þeirri ferð var meðal efnis sem gekk til nefndar sem skipuð var sumarið 1989 til að semja frumvarp um stofnun sjálfstæðs umhverfisráðuneytis. Pólitískt lag til að koma ráðuneytinu á fót og fjölga ráðherrum fékkst ári síðar með þátttöku Borgaraflokksins í ríkisstjórn Steingríms haustið 1989 og 23. febrúar 1990 varð umhverfisráðuneytið til með breytingu á lögum um Stjórnarráðið. Setning reglugerðar um ráðuneytið dróst hins vegar til 7. júní 1990, m.a. vegna togstreitu um málaflokka sem undir það skyldu heyra. Í ljós kom að landgræðsla og skógrækt fylgdu þá ekki með og það var fyrst árið 2008 að þessir málaflokkar voru að loks færðir undir ráðuneyti umhverfismála. Enn eiga umhverfismál undir högg að sækja Tilvist umhverfisráðuneytisins í aldarfjórðung hefur löngu staðfest gildi þess að sjálfstætt ráðuneyti fjalli um þetta mikilvæga svið. Mikið vantar þó á að málaflokkurinn njóti þess skilnings og stuðnings sem nauðsyn krefur. Á það jafnt við um vægi í stjórnkerfinu og fjárveitingar. Ekki færri en tíu ráðherrar hafa stýrt ráðuneytinu þennan tíma, flestir vel meinandi en fæstir notið þess stuðnings sem þarf. Enn er langt í land með að lífsnauðsynlegt jafnvægi náist í samskiptum mannsins við umhverfið og sjálfbær þróun á enn hvarvetna á brattann að sækja. Hjörleifur Guttormsson |