Hjörleifur Guttormsson 1. júlí 2019

Dönsk stjórnvöld ætla að skora stórt í loftslagsmálum

Parísarsáttmálinn um loftslagsmál sem samþykktur var síðla árs 2015 er sem kunnugt er almenn stefnuyfirlýsing um að stöðva hækkun meðalhita á jörðinni sem næst 1.5°C. Undir hana tóku 195 þjóðríki, þar á meðal Bandaríkin sem nú hóta að draga sig út úr samkomulaginu. Þrjú og hálft ár eru liðin frá þessum tímamótafundi og síðan hafa mælingar og framtíðarspár bent til að horfurnar um hlýnun séu mun dekkri en áður var talið. Því er eðlilega spurt um efndir á hátíðlegum yfirlýsingum Parísarfundarins. Nú ber ekkert málefni hærra en loftslagsmálin í stjórnmálaumræðu í okkar heimshluta og veruleikinn með sívaxandi áhrifum loftslagsbreytinga mun aðeins herða á kröfum almennings um að staðið verði við stóru orðin.

Uppskeran úr dönsku þingkosningunu

Niðurstaða þingkosninganna í Danmörku 5. júní sl. þar sem flokkar með áherslu á umhverfismál bættu verulega við sig fylgi hefur nú leitt til myndunar minnihlutastjórnar sósíaldemókrata í skjóli þingmanna þriggja annarra flokka: Radikale venstre, sem er gamalgróinn miðjuflokkur, Sosialistisk folkeparti og Enhedslisten. Í Norðurlandaráði eru tveir þeir síðastnefndu starfandi í flokkahópi með Vinstri grænum. Í málefnasamkomulagi flokkanna fjögurra ber langhæst loforðið um að lögfesta niðurskurð í losun gróðurhúsalofttegunda um meira en helming frá núverandi stöðu eða um 70% miðað við árið 1990. Þetta yrði vendipunktur í dönskum efnahags- og stjórnmálum næsta áratuginn og til að ná þessu metnaðarfulla marki er þegar á vetri komandi stefnt að lögfestingu þessa í bindandi áföngum. Síðan skuldbindur ríkisstjórnin sig til að gera grein fyrir stöðunni ár hvert samhliða fjárlagaundirbúningi. Jafnframt verður gerð framkvæmdaáætlun sem dregur upp leiðir að settu marki. Þetta mun óhjákvæmilega reyna á tekjuhliðina hjá ríkissjóði Danmerkur, sem missir af gjöldum, m.a. á orku, bíla og bensín. Viðurkennt er af talsmönnum flokkanna að róðurinn komi eflaust til með að verða þungur síðasta spölinn að 70%-markinu,

Orkuskipti, landbúnaður og umferð

Þau svið sem einkum er vísað til með almennum orðum í samkomulagi flokkanna eru orkuskipti á bílaflotanum, græn umskipti í landbúnaði, orkusparnaður í byggingariðnaði og umskipti yfir á raforku í flutningum, almennum iðnaði og víðar í samfélaginu. Stefna á að aukinni vistvænni raforkuframleiðslu, ekki síst með fleiri vindmyllugörðum á hafi úti, en Danir hafa undanfarið verið í forystu um hagnýtingu á vindorku. Leita á eftir samkomulagi við önnur Norðursjávarríki um sameiginlega vindmyllugarða og tengistöðvar. Þá er áformað að nýta núverandi fjárhagsstuðning við landbúnaðinn til að ná fram æskilegum breytingum, en tæpur fjórðungur allrar CO2-losunar í Danmörku, um 13 milljónir tonna, er rakinn til þessarar mikilvægu atvinnugreinar.

Loftslagsráð sem hugmyndabanki

Í Danmörku hefur starfað Loftslagsráð (Klimarådet) frá árinu 2014, skipað 7 viðurkenndum sérfræðingum sem veita skulu stjórnvöldum hlutlæga ráðgjöf um aðgerðir í loftslagsmálum horft allt til ársins 2050. Í samkomulagi flokkanna sem hér um ræðir er vísað á Klimarådet um tillögur til að ná fram með sem hagkvæmustu móti settum markmiðum til skemmri og lengri tíma. Hér á landi hafa frá árinu 2012 verið í gildi lög um loftslagsmál, sem tillaga liggur nú fyrir um að breyta, m.a. varðandi Loftslagsrráð sem sett var á fót á  árinu 2018. Eflaust gætum við sitthvað lært af starfi Dana á þessu sviði, ekki síst nú eftir að fram eru komin mjög metnaðarfull markmið í loftslagsmálum, þar sem Klimarådet fær aukið og veigamikið hlutverk.

Hægri flokkar og loftslagsmálin

Það hefur lengi blasað við, hér á landi sem annars staðar, að flokkar sem teljast til hægri á stjórnmálasviðinu hafa reynst svifaseinir að bregðast við augljósum loftslagsbreytingum af mannavöldum. Það á raunar einnig við um marga flokka sósíaldemókrata með rætur í verkalýðshreyfingu. Þessu valda eflaust margbrotin hagsmunatengsl og ótti við miklar samfélagsbreytingar. Nú er skammsýni í umhverfismálum víða farin að bitna á kjörfylgi þessara flokka eins og ljóslega kom fram í Þýskalandi í kosningum til Evrópuþingsins í vor og nú aftur í þingkosningunum í Danmörku. Sjálft Evrópusambandið hefur einnig átt erfitt með að fóta sig gagnvart loftslagsbreytingunum og nýlega brá ríkisstjórn Póllands fæti fyrir áformuð og þó hógvær markmið ESB um að draga úr losun næsta áratuginn. Það leynir sér ekki að Danir telja sig nú vera að senda skilaboð til Brussel með sínum nýju og róttæku tillögum. Vonandi verður sem víðast eftir þeim tekið til eftirbreytni, einnig við nyrstu höf.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim