Hjörleifur Guttormsson | 3. mars 2019 |
Alþjóðasamstarf í upplausn á örlagatímum fyrir mannkynið Það fer ekki fram hjá neinum sem fylgist með alþjóðamálum að þar hafa orðið mikil veðrabrigði á skömmum tíma mælt í árum fremur en áratugum. Það kerfi fjölþjóðasamvinnu (multilateralism) sem þróaðist í áföngum á eftirstríðsárunum og í framhaldi af lokum kalda stríðsins er í upplausn á sama tíma og mannkynið sem heild stendur frammi fyrir nýjum áskorunum vegna loftslagsbreytinga og örrar mannfjölgunar með sívaxandii álagi á vistkerfi plánetunnar. Sameinuðu þjóðirnar voru þrátt fyrir augljósar takmarkanir og togstreitu stórvelda sameinandi afl sem horft var til og undir hatti þeirra tókst að beina kröftum að mörgum aðsteðjandi vanda vegna umhverfisröskunar, misskiptingar og fátæktar. Um svipað leyti komu í stríðslokin til sögunnar Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem enn halda velli. Alþjóðaviðskiptastofnunin varð til 1995 upp úr GATT-viðræðunum sem einnig skutu rótum á rústum heimsstyrjaldarinnar síðari. Bandaríkin sem ráðandi efnahagsveldi réðu miklu í öllum þessum alþjóðastofnunum, að ekki sé talað um NATO sem hernaðarbandalag undir þeirra forystu. Á hinu leitinu eru nú Rússland Pútíns sem leitast við að endurreisa fyrri styrk og Kína sem ört vaxandi stórveldi á kapítalískum efnahagsgrunni í skjóli flokkseinræðis og með sterkri ríkisforsjá. Hvað veldur vaxandi spennu og viðskiptastríði? Varla hafði viðskiptalíf Vesturlanda náð fyrri takti eftir bankakreppu og hrun ársins 2008 þegar óvæntir atburðir gerðust sem enn lita daglegar fréttir og gerbreytt hafa alþjóðlegum leikreglum. Þar kom fyrst þjóðaratkvæðagreiðslan í Bretlandi um útgöngu úr Evrópusambandinu í júní 2016 með um 52% atkvæða þeirra sem sögðu já við að snúa baki við ESB eftir 45 ára aðild. Á eftir fylgdu úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum sem í nóvember 2016 skiluðu Trump á forsetastól í Hvíta húsinu. Báðir þessir atburðir áttu rætur að rekja til þeirra breytinga í leikreglum kapítalismans sem mótuðust undir merkjum hnattvæðingar og frjálshyggju á síðustu áratugum liðinnar aldar með afnámi hindrana í flutningi fjármagns, vöru og vinnuafls, sumpart heimshorna á milli. Þessu fylgdu örar breytingar í atvinnu- og viðskiptalífi með nýjum og áður óþekktum hringamyndunum þvert á höf og heimsálfur. Gamlar og grónar samsteypur sem einkenndu verksmiðjuiðnað fyrri tíma týndu tölunni og gengu inn í fjölþjóðakeðjur að mestu óháðar landamærum þjóðríkja. Gífurleg eignatilfærsla á æ færri hendur hefur fylgt þessum breytingum á kostnað millistétta í gömlu iðnríkjunum og tilfærslu á fyrirtækjum og samþjöppun fólks í áður óþekktum mæli. Það eru vonbrigði þolenda þessara hamfara, þeirra sem eftir sitja og misst hafa lífsviðurværi og spón úr aski. sem fæddu af sér Brexit og skiluðu Trump á valdastól m.a. undir kjörorðinu um Bandaríkin í forgang. Kína sem rísandi heimsveldi Hvaða augum sem menn líta forystu kommúnista í Kína síðustu 70 árin er ljóst að á þessum tíma hefur landið frá 1980 náð efnahagslegum styrk stórveldis, lengi vel með um 10% árlegan hagvöxt og bættum kjörum á nútíma mælikvarða fyrir meirihluta íbúanna. Allt hefur það kostað miklar fórnir, umhverfisröskun og mengun frá koladrifnum iðnaði. Íbúatalan hefur vaxið úr einum milljarði um síðustu aldamót í yfir 1400 milljónir nú, þrátt fyrir lágt fæðingarhlutfall (0,6%). Hagvaxtartölur hafa síðan farið lækkandi niður í tæp 6,5% um þessar mundir sem er þó um og yfir tvöfalt hærra en gerist á Vesturlöndum. Efnahagsveldi Kína er löngu samtvinnað heimsviðskiptum, enda taka kauphallartölur kipp í hvert sinn sem breyting verður þar á. Samskipti Kína og Bandaríkjanna hafa lengi verið þrungin spennu, Kínverjar grunaðir um græsku af keppinautum sem endurspeglast m.a. í kröfum Trumps um breytingar á mörgum sviðum. Til viðbótar kemur afar viðkvæm staða á hernaðarsviðinu á Suður-Kínahafi og víðar. Ýmsir spá langvarandi köldu stríði milli þessara risa við Kyrrahaf sem snúast muni meira um tækniupplýsingar og gervigreind en viðskiptajöfnuð þegar fram í sækir. (Niall Ferguson. Viðtal í Die Zeit 14. febr. 2019, s. 29) Áframhaldandi brestir í Evrópusambandinu Samhliða óvissunni um skil Bretlands við Evrópusambandið berast stöðugt fréttir af vaxandi ósætti innan þessa ríkjasambands, bæði milli stórra og minni þátttakenda. Ítalía stendur í stöðugum deilum við yfirstjórnina í Brussel um efnahagsmál og viðbrögð við flóttamönnum. Frakkland með Macron við stýrið hefur veikst til muna vegna innri átaka og að sama skapi hefur dofnað yfir hugmyndum hans um róttækar breytingar á ESB í átt til sambandsríkis. Löndin í austanverðri Evrópu sem bættust í hóp aðildarríkja upp úr síðustu aldamótum eru öll á varðbergi gagnvart auknu miðstjórnarvaldi, og flest þeirra eins og Pólland, Tékkland og Ungverjaland standa utan Evrusvæðisins. Undanfarið vekja hins vegar mesta athygli hræringar í Þýskalandi, miðlægu og fjölmennasta ríki ESB með 82 milljónir íbúa. Eftir þingkosningar til Bundestag í fyrra var mynduð samstjórn kristilegu flokkanna (CDU/CSU) og sósíaldemókrata, en síðan hefur gengið á ýmsu um samstarf þeirra. Mesta athygli hefur eðlilega vakið brotthvarf Angelu Merkel úr stöðu flokksformanns, en einnig sviptingar og ört dalandi fylgi krata sem mælast nú með aðeins 15% stuðning skv. könnunum á sama tíma og Græningjar sópa að sér fylgi. Efnahagur Þýskalands hefur lengi staðið með blóma í krafti öflugs útflutnings, ekki síst frá bílaiðnaðinum. Nú virðist sem verulega geti dregið þar úr hagvexti næstu árin, bæði vegna krafna af hálfu Bandaríkjanna um tolla, m.a. á bílainnflutning, og um hærri hernaðarútgjöld til NATÓ. Kröfur til bíla- og orkuframleiðslu vegna loftslagsmála munu líka óhjákvæmilega draga úr hagvexti. Evran sem gjaldmiðill stendur ekki traustum fótum og fátt bendir til aukins fjármálalegs samruna á Evrusvæðinu sem orðið gæti henni til styrkingar. Ísland treysti undirstöðurnar Eins og hér hefur verið að vikið hafa orðið miklar alþjóðlegar sviptingar í efnahagsmálum hin síðustu ár samhliða örri fjölgun mannkyns og sívaxandi álagi á umhverfi jarðar. Fyrir smáþjóð eins og Íslendinga skiptir miklu að vera vakandi fyrir breyttum aðstæðum, jafnt manngerðum og náttúrufarslegum. Eðlilegt er að þjóðin geti sjálf séð sér farborða um matvæli ef í harðbakkann slær og að fyllsta öryggis sé gætt gagnvart innflutningi. Stjórnarfarslegt sjálfstæði skiptir nú sem fyrr meginmáli, um leið og gengið sé vel um náttúru og auðlindir landsins og gætt að sérstöðu okkar sem eyþjóðar. Góð tengsl okkar við útlönd þurfa að taka mið af þessu. Þar skiptir umráðarétturinn yfir sjávarauðlindum og landinu sjálfu höfuðmáli og hófstilling og jöfnuður meðal landsmanna. Hjörleifur Guttormsson |