Hjörleifur Guttormsson 5. september 2019

Hlutlæga úttekt vantar um  framhald jarðgangagerðar á Austfjörðum

Samgöngubætur og lagning jarðganga sem hluti af þeim hafa að vonum verið drjúgur þáttur í samfélagsumræðu hérlendis allt frá því Strákagöng til Siglufjarðar voru byggð á árunum 1965-1967 og Oddsskarðsgöng um áratug síðar. Framkvæmdir við jarðgöng hafa síðan farið stækkandi með hverjum áratug, nú síðasta með Vaðlaheiðargöngum og Norðfjarðargöngum sem hvor um sig eru um 7,5 km á lengd. Þrígreind Vestfjarðagöng eru þó í heild heldur lengri eða samanlagt rúmir 9 km. Með lagningu þessara og fleiri jarðganga hefur safnast mikilvæg reynsla, bæði varðandi verktæknilega þætti við mismunandi jarðfræðilegar aðstæður og leka. Óvæntustu erfiðleikarnir sköpuðust í Vaðlaheiðargöngum og fjármögnun þeirra á undirbúnings- og framkvæmdatíma varð afar umdeild og fór langt fram úr áætlunum. Upphaflegur kostnaður við göngin var áætlaður tæpir 9 milljarðar en endanleg tala reyndist nær tvöfalt hærri.

Áformuð voru 1993 þrenn samþætt jarðgöng

Á árunum 1988-1993 vann sérstök nefnd á vegum samgönguráðuneytis ásamt með fulltrúum austfirskra sveitarfélaga og Byggðastofnun að mati á jarðgangakostum á Austfjörðum og skilaði áliti sem gerði ráð fyrir að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar og Norðfjarðar með jarðgöngum til Mjóafjarðar og þaðan inn úr botni Mjóafjarðar undir Mjóafjarðarheiði upp á Eyvindardal (framhald af Fagradal) áleiðis í Egilsstaði. Þessi tillaga, sem gekk undir nafninu „T-göngin“, fékk allgóðar viðtökur heima fyrir og í hópi okkar þingmanna Austurlands. Af framkvæmdum hennar varð þó ekki heldur voru byggð Fáskrúðsfjarðargöng á árunum 2003-2005 og jafnframt komust á dagskrá í tengslum við byggingu álvers Alcoa á Reyðarfirði áðurnefnd Norðfjarðargöng, grafin 2013-2017.  

Seyðfirðingar róa fast fyrir 13,4 km göngum

Eftir að ákvarðanir lágu fyrir um göng milli Norðfjarðar og Eskifjarðar (Norðfjarðargöng) hertu Seyðfirðingar róðurinn fyrir beinni tengingu frá Seyðisfirði upp í Hérað. Lái þeim hver sem vill. Bar það þann árangur að samkvæmt samönguáætlun vorið 2012 var kveðið á um að miða undirbúning „Seyðisfjarðarganga“ við að hægt verði að hefja framkvæmdir við jarðgöng undir Fjarðarheiði í kjölfar Norðfjarðarganga og Dýrafjarðarganga, en framkvæmdir við þau síðarnefndu eru nú vel hálfnaðar. Jafnframt hefur samkvæmt samgönguáætlun verið veitt nokkurt fé til jarðfræðirannsókna og í núverandi áætlun miðað við að framkvæmdir við Seyðisfjarðargöng geti hafist á árabilinu 2024-2028 en meginþungi þeirra verði á árunum 2029-2033. Samkvæmt þessu ættu slík göng að geta komist í gagnið að um 15 árum liðnum, enda standi hvorki á fjárveitingum né óvæntir erfiðleikar við gangnagröftinn tefji fyrir. – Haustið 2017 skipaði Jón Gunnarsson samgönguráðherra í skammlífri ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar 5-manna verkefnishóp „um undirbúning að ákvarðanatöku um Seyðisfjarðargöng. Göngin hafi það hlutverk að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar, styrkja byggð og atvinnulíf á Seyðisfirði og á Austurlandi öllu.“ Meðal verkefna hópsins var að fara yfir ofangreinda skýrslu um T-göngin frá 1993 og hugmyndir um göng undir Fjarðarheiði til samanburðar. Þáverandi vegamálastjóri var skipaður formaður hópsins, en auk hans m.a. tveir Seyðfirðingar, einn Norðfirðingur, svo og forstöðumaður Byggðastofnunar.

Ruglingsleg framsetning og tvísýn niðurstaða

Þann 9. ágúst sl. bárust fréttir um afrakstur þessa vinnuhóps og nú liggur fyrir skýrsla hans undir heitinu Seyðisfjarðargöng. Valkostir og áhrif á Austurlandi. Heldur er þetta tyrfin lesning og afar óskipulega fram sett og illskiljanleg jafnvel staðkunnugum. Henni fylgir samantekt frá erlenda ráðgjafafyritækinu KPMG  um samfélagsleg áhrif (Jarðgöng á Austurlandi. Mars 2019), aðallega byggt á viðtölum og með sérstakri áherslu á Seyðisfjörð. Einnig greinargott minnisblað um veðurfarslegar aðstæður frá Einari Sveinbjarnarsyni veðurfræðingi (Veðurvaktin, júní 2019). Tillaga hópsins er: 1) að grafin verið 13,4 km jarðgöng undir Fjarðarheiði frá Gufufossi í Fjarðará í um 130 m hæð að Dalhúsum á Eyvindardal í svipaðri hæð, kostnaður áætlaður 33-34 milljarðar. 2) að til framtíðar litið eigi einnig að tengja Seyðisfjörð og Norðfjörð með göngum gegnum Mjóafjörð og skapa með því hringtengingu fjarðanna og Héraðs, kostnaður áætlaður um 30 milljarðar. – Mesta athygli mína vekur frávísun hópsins á þeim kosti sem fram var settur þegar árið 1993, þ.e. „að fara ekki með göng frá Seyðisfirði undir Fjarðarheiði heldur til Mjóafjarðar og önnur göng  undir Mjóafjarðarheiði til Héraðs. Kostnaður við þessa lausn er um 36,3 milljarðar eða tæplega 3 milljörðum hærri en göng undir Fjarðarheiði.“ Þó viðurkenna höfundar að: „Kosturinn við þessa lausn er hins vegar sá að þá er aðeins eftir að bæta við göngum milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar til að skapa eitt atvinnusvæði á fjörðunum án fjallvega og með stuttum vegalengdum á milli þéttbýlisstaða.“ Hér sýnist mér trúin á löngu göngin undir Fjarðarheiði bera skynsemi höfundanna ofurliði!

Beita í sameiningartilraunum

Hugmynd um sameiningu fjögurra sveitarfélega eystra hefur verið í deiglu um skeið, þ.e. Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðar, Borgarfjarðarhrepps  og Djúpavogshrepps. Könnun á vilja íbúa sveitarfélaganna til slíkrar sameiningar á að fara fram í almennum íbúakosningum 26. október nk. Í því sambandi lesum við í Mbl. 29.8.2019: „Fram hefur komið að Samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna á Austurlandi vill að hönnun og framkvæmd Fjarðarheiðarganga verði flýtt. Segir nefndin göngin vera „lykilinn að eflingu atvinnulífs á Austur- og Norðurlandi.“ Hér skal ekki gert lítið úr gildi slíkrar sameiningar, en hæpið er að byggja hana á hugmyndum um jarðgöng sem enn vantar mikið á að hafi verið tæknilega útfærð og fjárhagslega tryggð.

Áhættuþættir sem brýnt er að meta

Af reynslu við jarðgangagerð hér heima og erlendis er ljóst að miklu skiptir góður undirbúningur og áhættumat, bæði jarðfræðirannsóknir, kostnaðargreining og aðgerðir vegna slysahættu. Í skýrslu vinnuhópsins segir réttilega: „Frá öryggissjónarmiðum  hafa menn áhyggjur af löngum göngum og Fjarðarheiðargöng yrðu löng, bæði á íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða. Enn hefur ekki verið kannað nægilega vel hvaða áhrif það hefur á kostnað (ljóst að það eykur kostnað við loftræstingu bæði á framkvæmda- og rekstrartíma) og því er í grófri nálgun miðað við sama einingarverð og í öðrum göngum , þ.e. um 2,5 milljarða á km í göngum.“ Hér er heldur ekki minnst á þá umtalsverðu lekahættu sem jarðfræðingar hafa bent á, ekki síst í Fjarðarheiðargöngum, m.a. úr stóru miðlunarlóni Fjarðarárvikjunar uppi á Fjarðarheiði.
Akstur í löngum jarðgöngum er afar þreytandi, að ekki sé talað um sjónarsviptinn í samanburði við þá glæsisýn sem oft birtist mönnum á ferðum um fjallvegi, ekki síst austanlands, m.a. af norðurbrún Fjarðarheiðar. Þannig er fjölmargt sem athuga þarf áður en ákvarðanir eru teknar um tilhögun og legu nýrra jarðganga á Austfjörðum. Hér sem oftar á við latneska máltækið Festina lente - að flýta sér hægt.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim