Hjörleifur Guttormsson 7. janúar 2019

Hverjar verða aðstæður manna er nálgast aldamótin 2100?

Langafabörn sem litu dagsins ljós á síðasta ári búast nú til að taka sín fyrstu skref. Þegar horft er á þessi kríli er sú spurning áleitin hvaða aðstæður bíði þeirra og annarra ungmenna á lífsleiðinni. Endist þeim aldur verða þau rösklega áttræð þegar næsta öld gengur í garð, en það er nokkurn veginn meðalaldur Íslendinga nú um stundir. Sem þjóð stöndum við um margt vel í alþjóðlegum samanburði svo og miðað við sögu liðinna alda. Þetta endurspeglaðist m.a. í máli flestra þegar minnst var aldarafmælis fullveldis 1. desember sl. Einnig um nýliðin áramót báru forystumenn ríkisstjórnarinnar sig vel, enda virðist samstarf þessara annars ólíku flokka ganga betur en margir spáðu fyrir við myndun stjórnarinnar fyrir rösku ári. Allir eiga formennirnir þar góðan hlut að máli, en sérstaka athygli hefur vakið farsæl og myndug forysta Katrínar Jakobsdóttur. Á aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnina mun reyna á næstu mánuðum, en fyrirfram er ekki ástæða til að ætla annað en komist verði klakklaust frá þeim samskiptum. Stjórnarfarslegur stöðugleiki ásamt réttlátri stefnu gagnvart þeim sem hallast standa í samfélaginu skiptir hér mestu máli. Miklar blikur eru nú á lofti í alþjóðamálum, jafnt í Evrópu sem annars staðar og enn stærri áskoranir eru úti við sjóndeildarhringinn. Að þeim horfum og framtíðarrýni verður vikið hér á eftir.

Loftslagsváin,  vistkreppan og kjarnorkuógnin

Lítum fyrst á hinar ytri takmarkanir og ógnir sem varða mannkynið allt og framtíð þess. Þar ber hæst manngerðar breytingar á lofthjúpi jarðar sem hafa munu róttæk áhrif hvarvetna á lönd og höf. Það tók þjóðir heims hátt í mannsaldur að horfast í augu við hvert stefndi. Segja má að allt sé í húfi að takast megi að stöðva og snúa við þeirri vá sem ella blasir við og það í tíð núlifandi kynslóða. Enn finnast leiðtogar fjölmennra þjóða eins og Bandaríkjanna og Brasilíu sem hóta að segja sig frá Parísarsamkomulaginu og brátt fer að reyna fyrir alvöru á aðila að standa við ákvæði þess. Deilur í Þýskalandi um mengun frá díselbifreiðum og óeirðinar í Frakklandi undanfarið eru vísbendingar um viðbrögð við fyrstu aðgerðum sem hvarvetna munu reyna á innviði, að okkar fámennu þjóð meðtalinni. – Gífurleg röskun vistkerfa af mannavöldum er ekki ný af nálinni, eins og rýrnun gróðurþekju Íslands ber órækan vott um. Fjórföldun á íbúatölu jarðar síðustu hundrað árin ásamt með áburðaraustri, eyðingu skóga og framræslu þrengir enn frekar að lífvistum og veldur rýrnun og útrýmingu tegunda í áður óþekktum mæli. Við þessa röskun bætast síðan ágengar framandi lífverur, sem við verðum æ meira vör við hérlendis. – Aðeins elstu núlifandi kynslóðir muna eftir seinni heimsstyrjöldinni og þeim hörmungum sem henni fylgdu. Við lok hennar sáu menn framan í ógnarafl kjarnorkusprengjunnar, sem síðan hefur vofað yfir mannkyni, nú magnaðri að eyðingarmætti en nokkru sinni fyrr. Níu ríki ráða nú yfir slíkum vopnum, sem enginn má hugsa til að beitt verði í styrjaldarátökum. Eftir sem áður er þessi ógn til staðar og minnir meira á sig nú en verið hefur frá lokum kalda stríðsins. 

Upplýsingaveitur, gervigreind og líftækni

Vísindi og tækni hafa í tíð núlifandi kynslóða opnað fyrir samfélagslega og viðskiptalega þróun sem engan óraði fyrir. Tölvur og upplýsingastreymi netsins eru þar ráðandi öfl sem gerbreyta munu þeim aðstæðum sem mannkynið hefur búið við til þessa. Fátt veldur meiri óvissu á næstu áratugum en áhrif gervigreindar (artificial intelligence) á störf, vinnumarkað og umhverfi. Tölvustýrð sjálfvirkni hefur víða tekið við af færibandinu og er að halda innreið sína m.a. í samgöngum þar sem sjálfstýring er talin munu leysa mannshöndina af hólmi innan skamms. Hliðstæð þróun gæti orðið á fjölmörgum sviðum á næstu áratugum og leitt til stórfelldrar fækkunar starfa svo skipt geti milljörðum á heimsvísu þegar nálgast miðja öldina. Þótt sumir hafi trú á að ný störf fylgi þessum breytingum, blasir óvissan við að hve miklu leyti þau nái að jafna metin. Jafnframt leiða þessi umskipti til langtum örari breytinga á störfum með tilheyrandi álagi fyrir flesta á vinnumarkaði. Að baki þessarar umbyltingar er sú staðreynd, að samþætt tölvukerfi reynast taka mannshuganum fram, t.d. í mati á aðstæðum í umferð, og með þeim er hægt að breyta skipunum á örskotsstundu. Þessir eiginleikar tölvukerfa eru engan veginn bundnir við sýnileg verkefni, svo sem stjórnun flókinna tækja, heldur talið að þau muni  í vaxandi mæli ná yfirhöndinni í lífvísindum, læknisfræði og á sviði félagsfræða og stjórnsýslu. Fullyrt er að með gervigreind megi í senn takast að uppfæra og samtengja nýja þekkingu langt umfram það sem mannshugurinn hefur getu til.

Félagslegir og pólitískir ofurskjálftar

Ofangreind þróun með öllum sínum óvissuþáttum upptekur nú hugi margra, þótt minna fari fyrir umræðu um hana hérlendis en víða annars staðar.  Margir sjá fyrir sér fjöldaatvinnuleysi í áður óþekktum mæli með tilheyrandi ólgu og uppreisnarástandi. Þegar slíkt bætist við þá ótrúlega hröðu samþjöppun eigna á örfárra hendur sem orðið hefur á alþjóðavísu minnkar tiltrú almennings á lýðræði og réttlátt stjórnarfar. Við samþjöppun áþreifanlegra eigna bætist nú spurningin um eignarrétt á upplýsingum um mig og þig: Verður hann í höndum Google eða Facebook og viðlíka ofursamsteypna, eða sameign mannkyns undir gagnsærri almannastjórn? Þeir sem rýna vilja í þessa óræðu framtíð geta m.a. leitað fanga hjá ísraelska sagnfræðingnum Yuval Noah Harari (f. 1976), höfundi metsölurita eins og „21 Lessons for the 21st Century“ (London 2018). Hann víkur þar m.a. að hugmyndum um svonefnd borgaralaun (universal basic income) sem fjármögnuð yrðu með skatttekjum frá eignamönnum og stórfyrirtækjum og dugi til að mæta grunnþörfum fjöldans og halda reiði hinna eignalausu og atvinnulausu í skefjum.

Í upphafi minntist ég á þau ungviði sem nú eru að taka fyrstu skrefin. Þeirra bíður önnur og um margt enn ótryggari veröld en sú sem við kynntumst í köldu stríði. Verkefnið er  að búa þau sem best undir glímuna við þann óblíða heim sem þau hafa fengið í arf.  Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim