Hjörleifur Guttormsson | 7. maí 2019 |
Hrunadansinn dunar, nú sem aldrei fyrr Sól tér sortna, Þannig hljóðar vísa í Völuspárútgáfu Sigurðar Nordal. Fátt lesefni höfðaði jafn mikið til mín í æsku og þetta stórbrotna kvæði með útskýringum Sigurðar: „Eldur geisar við eld, jörðin er alelda“. (Völuspá, önnur prentun, Reykjavík 1952). Það þarf ekki langt að leita í nútíðinni til að finna samsvörun við þessa framtíðarsýn Völuspár. ‒ Á liðnu ári geisuðu raunverulegir eldar á fjölmörgum stöðum í áður óþekktum mæli. Í Skandinavíu og í Mið-Evrópu var eindæma mikið þurrkasumar. Sama var uppi á teningnum í Ástralíu. Einna svæsnast léku þó eldar stór landsvæði í Kaliforníu, þar sem um tugur stærstu gróðurelda á sögulegum tíma hafa geisað frá því á árinu 2015. Rosalegust var í fyrra aðkoman í bænum Paradise þar sem hátt í 20 þúsund hús brunu til kaldra kola og 85 manns fórust. Bæði í Evrópu og Norður-Ameríku eru upptök þessara elda rakin til neista frá raflínum sem kveikja í skraufaþurrum gróðri. Loftslagsbreytingarnar af mannavöldum eru ótvírætt taldar valda þessum gróðureldum víða um heim, og eru þeir þó aðeins einn af mörgum váboðum sem mannkynið er að kalla yfir sig, ekki síst með sívaxandi losun gróðurhúsalofts í áður óþekktum mæli. Lifir mannkynið af glímuna við sjálft sig? Þeim fjölgar þessi árin sem gera sér ljóst að mannkyn allt stendur frammi fyrir afar tvísýnni glímu um eigin tilveru og henni tengist röskun á öllu lífkerfi jarðar þar sem æ fleiri tegundir lúta í lægra haldi og hverfa af sjónarsviðinu fyrir tilverknað mannsins. Hjá öðrum blasir við rýrnun með fækkun einstaklinga í áður óþekktum mæli. Þetta birtist m.a. hjá fjölmörgum skordýrategundum, m.a. bjöllum og fiðrildum, sem eru ómissandi hluti af lífkeðjunni og um leið fyrir búskap okkar mannanna. Ástæðurnar eru margar og samverkandi, spilling og útrýming búsvæða og ekki síst skordýraeyðingarlyf sem fjölþjóðafyrirtæki eins og Monsanto, nú Bayer, framleiða og dreifa í trássi við áhættu og aðvaranir vísindamanna. Tegundin maður er þannig með nútíma lífsháttum og skeytingarleysi gagnvart umhverfi sínu orðinn að skrímsli sem brýtur óðum niður undirstöður eigin tilveru. Hlýnun andrúmsloftsins vegna brennslu jarðefna er mest umtalaða breytingin nú um stundir, en hún er þó aðeins einn þáttur af mörgum sem leggjast á eitt og ógna tilvist mannsins. Kapítalískt efnahagskerfi með sívaxandi misskiptingu er andstætt hugmyndinni um sjálfbæra þróun og ógnvænleg fjölgun mannkyns bætir gráu ofan á svart. Þar er um að ræða þreföldun mannfjölda í tíð þess sem hér heldur á penna og 11 milljarðar eru í sjónmáli þeirra sem nú eru á dögum. Hvað er til ráða? Víst binda margir vonir við Parísarsamkomulagið frá árinu 2015 með þátttöku flestra þjóðríkja heims um að stöðva losun gróðurhúsalofts og draga úr henni stig af stigi á næstu áratugum. Þetta samkomulag er hins vegar á engan hátt bindandi, aðeins töluð orð og oft endurtekin síðan í hátíðarræðum. Veruleikinn talar öðru máli þar sem árin eftir heitstrengingarnar hefur CO2-losunin vaxið, einnig hérlendis. Stærsta efnahagsveldið, Bandaríkin, hótar endurtekið að segja sig frá samkomulaginu og sú afstaða endurspeglast þessa dagana í reipdrætti um stefnumörkun fyrir Arktíska ráðið þar sem Ísland er að setjast við borðsendann í stað Bandaríkjanna. ‒Vonarneisti kviknaði í hjörtum margra við ákall æskufólks á liðnum vetri um að snúa vörn í sókn og neita að taka við þeirri framtíð sem bíði þess að óbreyttu. En þá er líka rétt að ungir sem aldnir átti sig á að forsenda nauðsynlegra breytinga til að lifa af er ekki aðeins að hverfa sem allra fyrst frá mengandi jarðefnaeldsneyti heldur jafnframt gjörbreyting á núverandi lífsháttum, sem einkennast af mörgum sinnum of miklu álagi á umhverfið, í senn með mismunun og rányrkju. Hugtakið bylting hefði einhverntíma verið notað um slíka stöðu, en ég kýs frekar að vísa á nýja og vistvæna sýn til tilverunnar sem viðurkennir gjaldþrot núverandi lifnaðarhátta. Um þá eru Vesturlönd í fararbroddi og okkar eigin þjóð í þeim hópi hvað sólund og rányrkju varðar. Hlustum á Attenborough Það eru fleiri en æskufólk sem skynja þá fráleitu slóð sem mannkynið nú fetar og háskann sem bíður næstu kynslóða. Náttúruskoðarinn og fjölmiðlamaðurinn David Attenborough, nú á tíræðisaldri, talar tæpitungulaust í sjónvarpsþætti sem BBC hefur verið að sýna. Þar segir hann jarðarbúa standa frammi fyrir óafturkræfum skaða á náttúrunni og líklegu hruni. Verði ekki gripið til mjög róttækra aðgerða innan næstu 10 ára, gætum við staðið frammi fyrir óbætanlegu tjóni á lífríkinu og niðurbroti mannlegs samfélags ‒. Svipuð orð enduróma nú úr mörgum áttum. Sjónvarpið hefur undanfarið lagt sitt af mörkum með þáttaröðinni Hvað höfum við gert? Þeir sem þar fóru fyrir eiga í senn heiður og þakkir skildar. Það minnir á að mikið er undir því komið að uppfræðsla æskufólks á öllum skólastigum taki hvarvetna mið af þeim háska sem við mannkyni blasir og að stjórmálaflokkar og hagsmunasamtök viðurkenni vandann og setji fram sína sýn til lausna. Tæknibreytingar og hugmyndir um sjálfvirkni samhliða nýjum orkugjöfum geta hjálpað til, en aðeins sem liður í víðtækum og róttækum breytingum á efnahagsstjórnun og lífsmáta allra, án ágengni við umhverfið og með sem jafnasta stöðu manna til að lifa sæmilega - í sátt við móður jörð. Höldum í vonina – þrátt fyrir allt Undir lokin segir í Völuspá: Sér hon upp koma Mættum við fá meira að heyra! Hjörleifur Guttormsson |