Syndaflóð efnahagsvaxtar færist nær – Engar sýndarlausnir duga lengur
Fjórum árum eftir undirritun Parísarsamkomulagsins um loftslagsmál blasir við sú dapurlega staðreynd að í engu aðildarlandanna 195 hefur dregið úr losun gróðurhúsalofts sem veldur hlýnun af mannavöldum. Það sem hefur þó breyst er aukið aðgengi að upplýsingum og ört vaxandi meðvitund almennings um þann háska sem að steðjar. Slíkt ætti að auðvelda ráðamönnum, jafnt kjörnum fulltrúum og drifkröftum efnahagslífsins, að takast á við vandann, þótt enn sjáist þess lítil merki. Það er því góðra gjalda vert að Sameinuðu þjóðirnar boða til sérstaks fundar 23. september næstkomandi um hertar aðgerðir í loftslagsmálum. Sjónir manna hljóta þar að beinast að rótum vandans, ósjálfbæru efnahagskerfi, sem kyndir undir gífurlegri ofneyslu og sóun í iðnríkjum, samhliða hömlulausri mannfjölgun á heimsvísu.
"Grænn vöxtur“ leysir ekki vandann
Umhverfisskrifstofa Evrópu, Europe environmental bureau (EEB), sem sameinar um 150 umhverfisverndarsamtök í yfir 30 löndum, sendi fyrir mánuði síðan frá sér skýrslu sem vakið hefur mikla athygli (https://eeb.org/library/decoupling-debunked/ ). Heiti hennar á ensku Decoupling debunked – Evidence and arguments against green growth as a sole strategy for sustainability hljómar nokkuð framandi, en varðar mikið rætt og umdeilt efni tengt umhverfismálum um áratugi: Er í senn unnt að viðhalda hefðbundnum efnahagsvexti og ná fram markmiðinu um sjálfbæra þróun? Svar skýrsluhöfundanna er að fyrir því finnist engin gild rök, litið til reynslu liðinna ára, og ósennilegt sé að þau verði að veruleika í framtíðinni. Hér er vegið að kjarna þeirrar stefnu sem verið hefur leiðandi í alþjóðlegri umræðu um sjálfbæra þróun allt frá Brundtland-skýrslu Sameinuðu þjóðanna á níunda áratugnum, sem og innan Evrópusambandsins og helstu alþjóðastofnana eins og OECD, Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en allar lúta þær forystu gömlu iðnríkjanna. Niðurstaða skýrslunnar er að þótt viðleitni til að draga með "grænum hagvexti“ úr sárustu áhrifum á umhverfið sé góðra gjalda verð, þá dugi hún þrátt fyrir aukna skilvirkni engan veginn til að ná tökum á umhverfisháskanum, nema samtímis sé dregið róttækt úr efnislegri framleiðslu og neyslu. Ég hvet sem flesta til að kynna sér efni þessarar úttektar og þau rök sem þar eru reidd fram.
Hraði manngerðra loftslagsbreytinga
Það kemur flestum á óvart hvílíkt skrið hefur verið á veðurfarsbreytingum af mannavöldum síðustu áratugi og hversu ört áhrifin magnast og leiða af sér keðjuverkanir. Hitamælingarnar einar og sér segja sína sögu og áhrif methita finnur fólk á eigin skinni. Mælingar slógu met víða í Evrópu og Bandaríkjunum í síðasta mánuði, sýndu hæst 45,9°C hjá Nimes í Frakklandi. Skógareldar víða um heim tala sínu máli um afleiðingar hlýnunar og þurrka sem og ofsi fellibylja. Það er þessi stigmögnun og keðjuverkanir sem sett hafa loftslagsmálin efst á dagskrá í huga margra. Sumarið 2003 gekk óvenjuleg hitabylgja yfir meginland Evrópu. Úttekt breskra veðurfræðinga á henni gaf þá til kynna tvisvar sinnum meiri líkur á slíkum aðstæðum vegna manngerðra loftslagsbreytinga. Hitabylgjur síðustu sumra benda hins vegar til a.m.k. tíföldunar á tíðni slíkra fyrirbæra og með vaxandi losun CO2 á næstu árum og áratugum verði þær orðnar hluti af daglegum og um leið skelfilegum veruleika meirihluta mannkyns. Markmið Parísarsamkomulagsins er að bregðast við þessum framtíðarhorfum og draga úr þeim. Stjórnmálaumræðan er hins vegar langt á eftir veruleikanum, hér sem annars staðar, að ekki sé talað um rótgróna hagsmuni eignastétta og alþjóðafjármagns.
Grænlandsjökull tekinn að bráðna
Undanfarið hafa birst margar rannsóknaniðurstöður sem sýna ótvirætt að íshellan á Grænlandi, sem að stærð gengur næst Suðurskautsjöklum, bráðnar nú margfalt hraðar en um síðustu aldamót og á sú þróun þátt í hækkandi sjávarborði heimshafanna. Bæði er um að ræða rýrnun vegna leysinga á yfirborði jöklanna og aukið skrið íss í sjó fram. Svipuð þróun er hafin á Suðurskautssvæðinu og veldur eðlilega miklum áhyggjum vegna gífurlegrar hækkunar sjávarborðs. Ef Grænlandsjökull hverfur er það talið valda um 7 metra hækkun strandlínu, en bráðnun Suðurkautsjökla myndi hækka yfirborð heimshafanna um röska 60 metra. Flóðvarnir duga skammt gegn slíkum hamförum og tryggingafélög eru þegar á varðbergi gagnvart gjörbreyttum horfum. Sama ætti að gilda um þá sem ábyrgð bera á skipulagi um veröld víða.
Draghölt stjórnmálaumræða
Það veldur áhyggjum hversu stjórnmálaumræða á okkar slóðum á erfitt með að fóta sig við þessar gerbreyttu og um margt ógnvænlegu horfur. Þeim fækkar að vísu ört í Evrópu sem hafna eða gera lítið úr vanda af manngerðum loftslagsbreytingum, en eftir sitja Bandaríkin föst í afneitun sinni og hægri öflin í Brasilíu keppast við að saxa á frumskóga Amazónsvæðisins. Stór hluti stjórmálamanna hérlendis virðist setja sig lítið sem ekkert inn í augljóst orsakasamhengi þessarar háskalegu þróunar. Flestir sitja fastir í hefðbundnum hugmyndum um hagvöxt sem samkvæmt þeim sjónarmiðum sem hér voru viðruð í upphafi bætir frekar gráu ofan á svart. Alþjóðleg leit að róttækum lausnum lætur á sér standa á meðan tíminn til vitrænna viðbragða styttist óðum þar til syndaflóðið skellur á af fullum þunga.
Hjörleifur Guttormsson |