Hjörleifur Guttormsson | 11. apríl 2019 |
Svo bregðast krosstré ... Opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra Komdu sæl, Katrín Tilefni þess að ég kýs að skrifa þér þennan bréfstúf er aðild ríkisstjórnar þinnar að framkomnum þingmálum um innleiðingu á orkupakka Evrópusambandsins nr. 3 í íslenskan rétt. Ég vildi helst ekki trúa því að þú gerðist formælandi og ábyrg fyrir þeim þingmálum sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa mælt fyrir á Alþingi. Þegar úrslit síðustu alþingiskosninga lágu fyrir haustið 2017 taldi ég stjórnarmyndun þriggja flokka undir þinni forystu vænlegasta kostinn eftir upplausnarástand í íslenskum stjórnmálum árin á undan. Með ánægju hef ég fylgst með forystu þinni og málstökum á ýmsum sviðum þar til nú að þér bregst bogalistin með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir framtíð íbúa lands okkar og náttúru þess. Tilefni þessa bréfs er af minni hálfu að vara þig og lesendur við þeirri stefnu sem ríkisstjórn þín nú hefur tekið varðandi orkuna sem náttúruauðlind og samspil hennar við þjóðarhag og umhverfi okkar. Lesið í pólitíska landslagið Þótt 20 ár séu liðin frá því ég sat á Alþingi hef ég eftir bestu getu reynt að fylgjast með stjórnmálum hérlendis og á alþjóðavettvangi. Ég batt miklar vonir við Vinstrihreyfinguna grænt framboð eftir að hún var stofnuð, allar götur þar til flokkurinn gerðist ábekingur að umsókn um inngöngu í Evrópusambandið samhliða varnarbaráttu vegna efnahagshrunsins 2008. Ástæður hrunsins má að drjúgum hluta rekja til EES-samningsins og þess andvaraleysis sem honum fylgdi. Eftir aldamótin spyrnti VG við fótum gegn orkupökkum 1 og 2 og voru þeir þó tiltölulega meinlausir miðað við það fullveldisafsal sem nú blasir við með alvarlegum afleiðingum fyrir náttúruvernd og afkomu almennings, raunar löngu áður en úrslt ráðast um lagningu sæstrengs. Hjá samstarfsflokkum VG í ríkisstjórn hefur verið mikil andstaða gegn innleiðingu orkupakka 3, ekki síst innan Sjálfstæðisflokksins, þvert á þau viðhorf sem ráðherrar flokksins nú endurspegla. Í því sambandi vil ég benda þér á vandaða umfjöllun Tómasar Inga Olrich í Morgunblaðinu 28. mars sl. Það sætir furðu að VG sem flokkur hefur á sama tíma þagað þunnu hljóði um þessi mál og þingmenn flokksins virðast loka augunum fyrir því hættuspili sem hér blasir við. Á sama tíma er þeim þingmönnum sem þó andæfa óhæfunni gefið langt nef eins og gerst hefur á Alþingi og í fjölmiðlum síðustu daga. Náttúruvernd og „smávirkjanir“ Einkafyrirtæki í raforkuiðnaði eins og HS Orka og Arctic Hydro eru þegar byrjuð að kemba landið í leit að virkjanakostum undir 10 megawatta afli þar sem hægt er að komast hjá reglum Rammaáætlunar um umhverfismat og aðra gagnrýna málsmeðferð. Ekki hefur staðið á Orkustofnun að veita þeim rannsóknaleyfi og sum sveitarfélög eru fljót að eygja hagnaðarvon og laga skipulag sitt að kröfum þeirra. Dregist hefur úr hömlu að breyta lögum og færa mörkin niður í 1 MW eða minna því að umhverfisáhrif slíkra framkvæmda geta jafnast á við margfalt stærri virkjanir. Nýjasta dæmi um slíkt er áformuð 9,9 MW Geitdalsárvirkjun inn af Skriðdal eystra sem Náttúruverndarsamtök Austurlands vöruðu sterklega við á fundi í síðustu viku. Ásókn þessara fyrirtækja mun magnast í kjölfarið á innleiðslu orkupakka 3 og þrýstingur á tengingu við útlönd með sæstreng er þegar í gangi í samvinnu við erlend fyrirtæki. Það er óhæfa að leggja slíka steina í götu náttúruunnenda og dugmikils umhverfisráðherra og áhrifanna er fljótt að gæta um land allt, bæði hjá landeigendum og sveitarfélögum sem renna á peningalyktina. Öllum má vera ljóst að áhrifin af orkupakka 3 á raforkuverð og væntingar ýmissa í orkuiðnaði um tengingu yfir hafið munu ýta upp raforkuverði til almennings og margfalda það ef af lagningu sæstrengs verður. „Undanþágur“ sem ekki halda vatni Langt hefur verið gengið af hálfu ráðherra ríkisstjórnarinnar um boðaðar undanþágur frá orkupakka 3 Íslandi til handa frá reglum ESB-réttar. Þannig voru lögmennirnir Stefán Már og Friðrik Hirst bornir fyrir staðhæfingum sem ekki er að finna í álitsgerð þeirra 19. mars sl. Svo langt hefur verið gengið að segja „Um er að ræða orkupakka á íslenskum forsendum.“ (Fréttatilkynning ráðuneyta 22. mars sl.). Minna mátti ekki gagn gera! Ég hef komið á framfæri við þig og þingflokk VG áliti norska sérfræðingsins Arne Byrkjeflot frá 29. mars sl., en hann er ráðgjafi samtakanna Nei til EU um ESB-rétt. Norðmenn hafa þegar reynslu af haldleysi ýmissa meintra undanþága frá ESB-rétti úr umræðu síðustu missera um orkupakka 3. Þannig segir Arne m.a. að hvorki sé hald í þeim ásetningi að ætla að innleiða lagaákvæði um ACER (Samstarfsnfnd eftirlitsaðila á orkumarkaði) með íslenskri sértúlkun, né heldur að lögfesta orkupakkann með fyrirvörum, sem eigi að standast eftir að hann hefur verið samþykktur. Samþykki ákvæðanna um ACER feli í sér að þrýst verði á tengingu Íslands við útlönd með sæstreng og að framkvæmdastjórn ESB geti brugðist við höfnun af Íslands hálfu með vísun til dómstóls. Um það hvort innleiðingin standist stjórnarskrá Íslands er hann sömu skoðunar og Stefán Már og Friðrik Hirst að úr slíkum vafa verði að skera áður en til greina komi að taka afstöðu til orkupakkans. Sameiginlega yfirlýsingu Guðlaugs Þórs og Caἧeta orkumálastjóra ESB segir hann ekki hafa neitt réttarfarslegt gildi, og munu flestir um það sammála. Orkumálin burt úr EES-samhengi Ég fæ ekki skilið hvers vegna þú Katrín tekur þátt í þessu leikriti með orkupakka 3. Pólitískan stuðning gegn innleiðslu hans er að finna í báðum samstarfsflokkum VG í ríkisstjórninni og með einarðri afstöðu þinni og þingflokks VG hefði mátt knýja fram höfnun á samþykkt orkupakka 3 af Íslands hálfu, sem er ótvíræður réttur okkar samkvæmt EES-samningnum. Með því myndi málið færast yfir á vettvang Sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland getur látið reyna á varanlega undanþágu á orkusviðinu. Þar væri um að ræða mikilvægustu ákvörðun af Íslands hálfu frá því Alþingi samþykkti aðildina að EES, hliðstæða því og að við höldum yfirráðum yfir sjávarauðlindum okkar. Enn er ekki um seinan fyrir þig að snúa við blaðinu, en vísa ætti málinu ella í þjóðaratkvæði. Með góðum kveðjum Hjörleifur Guttormsson |