Hjörleifur Guttormsson 14. desember 2019

Viðurkenning Minjastofnunar Íslands 2019

Á ársfundi sínum 28. nóvember 2019 afhenti Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður Minjastofnunar Íslands viðurkenningu ársins til  Hjörleifs Guttormssonar með eftirfarandi ávarpi:

Síðustu ár hefur Minjastofnun Íslands veitt minjaverndarviðurkenningu á ársfundi sínum og var það gert nú í fjórða sinn. Minjaverndarviðurkenningin er veitt aðila, hvort heldur sem er einstaklingi, fyrirtæki, stofnun, sveitarfélagi eða öðrum aðila, sem skarað hefur fram úr á einhvern hátt á sviði minjaverndar á Íslandi.
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, hlýtur viðurkenninguna að þessu sinni fyrir ötult starf í þágu minjaverndar um áratuga skeið. Hjörleifur nam náttúrufræði í Þýskalandi og á hann sér fjölbreyttan starfsferil sem ómögulegt er að rekja í fáum orðum, en m.a. sinnti hann þingmennsku, sat í ráðherrastóli, sinnti landbúnaðarstörfum, skógrækt og landmælingum. Hjörleifur hefur beitt sér ötullega í þágu náttúruverndar og sat í Náttúruverndarráði um tíma auk þess sem hann stofnaði og rak Náttúrugripasafnið í Neskaupsstað svo örfá dæmi séu tekin. Hjörleifur átti frumkvæðið að stofnun Safnastofnunar Austurlands árið 1972 en það voru regnhlífarsamtök safna á vegum sveitarstjórna á Austurlandi og var hann stjórnarformaður Safnastofnunarinnar fyrstu sex árin. Hjörleifur beitti sér fyrir húsvernd á Austurlandi, m.a. fékk hann Hörð Ágústsson til að skrá og meta gömlu húsin á Seyðisfirði og beitti sér fyrir friðun Löngubúðar á Djúpavogi. Umhyggja Hjörleifs og seigla hans við að skrifa og miðla upplýsingum um fornleifar á Austurlandi og þáttur hans í fornleifaskráningu er ein af meginástæðum þess að hann hlýtur minjaverndarviðurkenningu Minjastofnunar árið 2019.
Auk þess sem Hjörleifur hefur skrifað um fornleifar og örnefni í átta Árbókum Ferðafélags Íslands um Austfirði og birt þar myndir af minjum þá hefur hann skrifað um fornleifar á öðrum vettvangi og átt samvinnu um skráningu þeirra við ýmsa fornleifafræðinga, þeirra á meðal Guðnýju Zoëga, Mjöll Snæsdóttur, Birnu Gunnarsdóttur, Ingu Sóley Kristjönudóttur, Ragnar Edvardsson og Bryndísi Zoëga.
Meðal þeirra greina sem Hjörleifur hefur birt um þá samvinnu eru:

  • Örnefni og þjóðminjar í Álftafirði
  • Hallormsstaður í Skógum. Náttúra og saga höfuðbóls og þjóðskógar
  • Krossanes við Reyðarfjörð – fornleifaskráning
  • Fornleifar og náttúruminjar í Hálsþorpi við Djúpavog.
  • Búsetuminjar á Hraundal í Útmannasveit.
  • Minjar um sjósókn í Héraðsflóa.
  • Seley við Reyðarfjörð. Náttúrufar, nytjar og fornleifar.
  • Í spor Jóns lærða. Greinar með fornminjauppdráttum
  • Fornleifaskráning á Héraði 2015.

Af þessari upptalningu má sjá að Hjörleifur er vel að viðurkenningunni kominn og fyrir hönd minjavörslunnar á Íslandi þökkum við honum innilega fyrir sitt framlag til minjaverndar í landinu.
(Af heimasíðu Minjastofnunar, 4. des. 2019)



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim