Hjörleifur Guttormsson 18. febrúar 2019

Loftslagsháskinn, uppreisn æskufólks og íslensk viðhorf

Skýrar vísbendingar eru um skyndilega vakningu meðal skólaæsku í mörgum Evrópulöndum og víðar vegna  loftslagsbreytinga af mannavöldum sem kemur í hlut þeirra og komandi kynslóða að glíma við. Kveikjan að þessu verður rakin til sænsku stúlkunnar Greta Thunberg, sem var 15 ára þegar hún sl. sumar  hóf langa mótmælastöðu utan við sænska þinghúsið til að vekja athygli á þessu máli mála, aðgerðaleysi stjórnmálamanna og þögn fjölmiðla um raunverulega stöðu og horfur. Eins og fyrir tilviljun rauf hún þagnarmúrinn og hefur síðan vakið heimsathygli með ræðu sinni á COP-24 í Katowice 3. desember sl. og aftur í Davos í síðasta mánuði. Framganga hennar hefur nú leitt til alþjóðlegrar hreyfingar meðal ungs fólks sem tekur sér frí frá skólagöngu einn dag í viku hverri til að krefjast aðgerða í loftslagsmálum og á tengdum sviðum umhverfismála. Í Þýskalandi náði þessi hreyfing fyrir mánuði til 120 borga og yfir 30 þúsund ungmenni höfðu þá tekið þátt í kröfugöngum, sem efnt er til á föstudögum. Síðan hefur boðskapurinn breiðst út til Bretlands þar sem þúsundir námsmanna hafa þyrpst út á götur og krafist aðgerða strax. Nú hefur föstudagurinn 15. mars nk verið  valinn fyrir sameinandi átak og til að vekja athygli á kröfunni um að hefjast verði handa strax fyrir alvöru gegn losun gróðurhúslofts og afleiddum breytingum á umhverfi okkar. Þessi tímabæra krafa og skjótur stuðningur æskufólks við hana er ávöxtur netsamskipta sem ungt fólk tekur öðrum fremur þátt í.

Aðeins áratugur enn til stefnu

Árið 2030 á samkvæmt Parísarsamkomulaginu að vera viðmiðun fyrir þjóðir heims sem þá eiga að hafa náð tökum á aukningu í losun þannig að meðalhiti á jörðinni fari ekki yfir 1,5°C fyrir miðja öldina. Aðeins áratugur er þannig til stefnu og hann verður að nota til markvissra ákvarðana eigi ekki allt að fara á versta veg. Enn er allt í óvissu um hversu til tekst, og á síðasta ári mældist meðalhiti hærri en nokkru sinni fyrr. Nýlegir útreikningar bresku veðurstofunnar (MetOffice) benda til að á næstu 5 árum kunni meðalhiti eitthvert árið að ná umræddum 1,5-gráðu mörkum og eykur það ekki bjartsýni á framhaldið. Grete Thunberg og baráttufélagar hennar benda réttilega á að enn sjáist fá ef nokkur merki um þær róttæku ákvarðanir sem taka verður eigi umrædd markmið að nást. Þeim verði að fylgja gerbreyttur lífsstíll með róttækri lækkun á kolefnisspori, fyrst af öllu hjá iðnvæddum ríkjum, samhliða jöfnuði lífskjara á heimsvísu. Þau gagnrýna harðlega vettlingatök stjórnmálamanna og  hversu fjölmiðlar þaga þunnu hljóði um alvöru málsins og veita því lítið rúm. Ferðaiðnaðurinn með ómældri losun gróðurhúsalofts flugvéla og skemmtiferðum og vöruflutningum loftsleiðis heimshorna milli er oft nefndur sem dæmi um sólund sem heyra verði sögunni til, sem og skefjalaus notkun einkabílsins. Hergagnaiðnaður og stríðsátök kóróna síðan feigðarflanið.

Fyrir norðurslóðir er mikið í húfi

Fyrir almenning hér sem annars staðar er erfitt að gera sér grein fyrir þeim flóknu og margþættu afleiðingum sem hlýnun lofts og sjávar muni hafa á okkar umhverfi og afkomu. Við þekkjum vel til kuldabola af langri sögu og eigin reynslu. Því finnst mörgum jákvætt að hann hefur þegar gefið nokkuð eftir og að frekari hlýnun sé í vændum. Hér í Morgunblaðinu hafa ýmsir sérfróðir, konur og karlar, vikið að loftslagsbreytingum í viðtölum og nýlegum blaðagreinum. Afar fróðlegt viðtal við Trausta Jónsson veðurfræðing gaf af sér forsíðuuppslátt (Mbl. 3. febrúar sl), enda mælir hann af víðtækri þekkingu og yfirsýn. Hann bendir réttilega á að margt óvænt geti fylgt hækkuðum meðalhita á okkar slóðum. Þannig geti slæm kuldaköst komið í mjög hlýju veðurfari, eins og nýleg dæmi eru um  frá meginlandi Evrópu. Ábending hans um að mikilvægt sé að tryggingasamfélagið sé tilbúið að taka á móti þeim breytingum sem verða í tengslum við hlýnun og bendir sérstaklega á gróðurelda í því samhengi. Við það má bæta áhrifum af hækkun sjávarborðs, einkum á vestanverðu landinu, að ekki sé talað um horfurnar ef Grænlandsjökull lætur undan síga. – Viðtal við Hrönn Egilsdóttur sjávarvistfræðing (Mbl. 8. febrúar sl.) um áhrif hlýnunar á fiskistofna var einnig mjög athyglisvert um brýnt umhugsunarefni. Þar segir hún m.a.: „Við hreinlega vitum það ekki hvort þorskurinn geti eða geti ekki þraukað ef sjórinn hlýnar og súrnar á sama tíma“. Eina lausnin sé að reyna að stemma stigu við losun koltvísýrings, en súrnun sjávar er einkum rakin til þess að um fjórðungur útblásturs frá samgöngum og iðnaði blandist yfirborði sjávar. Hér er því mikið í húfi og rannsóknir í engu samræmi við breyttar aðstæður.

Nú reynir á þolrif íslensk æskufólks á mörgum sviðum

Æskufólk hérlendis veitir því eflaust athygli sem er að gerast handan Atlantsála vegna loftslagsmála, enda síst minna í húfi hér en annars staðar. Þrátt fyrir ríkulegar endurnýjanlegar orkulindir er kolefnisfótspor Íslands, ekki síst vegna stóriðju, með því hæsta sem gerist og því mikið verk að vinna. Íslendingar eiga flestum þjóðum meira undir náttúrulegum auðlindum og því er hófleg nýting þeirra og verndun lykilatriði fyrir framtíðarafkomu. Í því samhengi skiptir mestu að Ísland sem fullvalda ríki haldi óskertum yfirráðum sínum yfir þessum auðlindum lands og hafs innan efnahagslögsögunnar. Annað nærtækt atriði er verndun íslenskrar tungu og menningararfs sem henni tengist og einnig það brothætta fjöregg er í höndum þeirra sem nú eru ungir að árum.Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim