Hjörleifur Guttormsson | 18. mars 2019 |
Treysta þarf undirstöður í íslensku samfélagi Það fer ekki fram hjá neinum að mikil ólga og óvissa einkennir samfélag okkar nú um stundir og á það raunar við um flest vestræn ríki. Slík staða hefur vissulega verið uppi fyrr á tíð en það sem er nýtt er hraði breytinganna í umhverfi okkar og hversu djúptækar þær eru í smáu og stóru. Gagnvart einstaklingum og í atvinnulífi er mest áberandi gjörbreytt tækni jafnt í samskiptum og vinnuumhverfi og krafa um aðlögun sem henni fylgir jafnt til sjós og lands. Hér er horft til um átta áratuga sem svarar til meðalaldurs manna nú um stundir. Fyrir undirritaðan sem í barnæsku hafði þann starfa að handmjólka kýr, moka flór, reka búpening í haga og standa svo við slátt með orfi og ljá eru nútímastörf á sveitabæjum ósambærileg. Litið til sjávarsíðunnar eru umskiptin síst minni og raunar stórtækari miðað við inngrip í auðlindina. Þrennt hefur valdið mestum umskiptum litið til baka: Sívaxandi orkuframleiðsla með kol og olíu sem meginorkugjafa, tilkoma tölvu og nettenginga og flutningur fjármagns og varnings að heita má heimshorna á milli. Það fyrstnefnda veldur háskalegum loftslagsbreytingum, talvan hefur gjörbreytir mannlegum samskiptum og uppsöfnun fjármagns á æ færri hendur aukið á misskiptingu í áður óþekktum mæli. Ófullnægjandi þekking á íslenskri náttúru Höfuðatvinnuvegir okkar byggja nú sem fyrr meira á náttúrugæðum en almennt gerist í iðnvæddum ríkjum. Það á einnig við um ferðaþjónustuna sem vaxtarsprota þar sem íslensk náttúra er meginaðdráttaraflið. Því skiptir góð grunnþekking á íslenskri náttúru höfuðmáli og sjálfbær nýting auðlinda lands og hafs. Rannsóknir á íslenskri náttúru voru lengi hornreka samanborið við önnur Norðurlönd. Þótt smám saman hafi verið úr því bætt vantar enn mikið á að viðunandi undirstaða sé til staðar. Þetta á m.a. við um landgrunn og hafsbotn þar sem veiðar með botnvörpu og fleiri veiðarfærum hafa valdið miklum breytingum í tímans rás. Á landi hefur ofbeit búfjár, jafnt sauðfjár og hrossa, reynst afdrifarík, að ekki sé talað um stórfellda þurrkun votlendis á seinnihluta síðustu aldar. Endurheimt þessara náttúrugæða er enn að mestu einskorðuð við hátíðarræður. ‒ Takmörkuð þekking á náttúrunni kemur niður á skipulagi um ráðstöfun lands þar sem handahóf hefur alltof víða ráðið för. Þetta birtist okkur m.a. í virkjun vatnsafls þar sem verkfræðileg hagkvæmni hefur ráðið för, oft á kostnað verðmætra náttúrugæða. Enn er þetta sérstakt áhyggjuefni þegar um er að ræða virkjanir undir 10 megavöttum í afli, sem ekki falla undir ákvæði laga um verndar- og orkunýtingaráætlanir, þ.e. svonefnda rammaáætlun. Fallvaltur ferðamannaiðnaður Vöxtur í komu erlendra ferðamanna til Íslands undanfarinn áratug er meiri en annars staðar þekkist og langt umfram það sem hóflegt getur talist. Gjaldeyristekjurnar hafa vissulega komið sér vel í kjölfar hrunsins en áhrifin á náttúru vinsælla ferðamannastaða eru víða farin að valda verulegu tjóni. Þótt nú sé reynt að bregðast við, m.a. með lagningu göngustíga og friðlýsingum, kemur það ekki í veg fyrir stækkandi vistspor af vaxandi fjölda, einkum sunnan- og vestanlands. Vegna útleigu til ferðamanna hefur framboð á almennu leiguhúsnæði dregist verulega saman og leitt til mikilla verðhækkana, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Stefnumarkandi ákvarðanir af hálfu stjórnvalda um gjaldtöku af ferðaþjónustunni, m.a. til að fjármagna mótvægisaðgerðir, hefur dregist úr hömlu og við það bætist óhjákvæmileg endurnýjun vegakerfisins á allra næstu árum. Þótt við höfum upplifað margföldun í fjölda ferðamanna á örfáum árum, getur samdráttur verið á næsta leiti af ýmsum ástæðum, þar á meðal vegna brýnna aðgerða gegn loftslagsbreytingum af flugumferð. Evrópumet í losun gróðurhúsalofts Við höfum lengi talið okkur í fremstu röð þjóða varðandi raforkuframleiðslu frá endurnýjanlegum orkulindum, vatnsafli og jarðvarma. Það kemur því mörgum í opna skjöldu þegar fyrir liggur að Ísland eigi ótvírætt Evrópumet þegar kemur að losun gróðurhúslofts á hvern íbúa. Tala hérlendis á árinu 2016 var um 17 tonn á mann skv. Hagstofu Íslands en aðeins rúm 7 tonn að meðaltali í löndum Evrópusambandsins. Er þá losun frá íslenskum flugfélögum innan Evrópu meðtalin (ETS-kerfið), en færi hér upp í um 20 tonn á mann í ef allt alþjóðaflug, þ.e. til Ameríku og víðar, væri tekið með í reikninginn. Nú er unnið að því að fella allt flug undir svonefnt CORSICA-kerfi með gjaldtöku á alla losun, fyrst valfrjálst frá árinu 1921 en bindandi fyrir flest ríki eftir 2027. ‒ Við innleiðslu Kyoto-samkomulagsins 1997 fékk Ísland heimild til 10% aukingar í losun miðað við árið 1990. Það dugði hins vegar ekki þáverandi stjórnvöldum sem tóku upp betlistafinn og náðu 2001 fram sérákvæði sem rúmaði álver Alcoa ofl. Nú er hins vegar Parisarsamkomulagið að taka við af Kyoto og þá blasir dapurleg staða Íslands við með tilheyrandi skuldadögum. Nú keppa stóriðja og ferðamannaiðnaður um hvor greinin losi meira af gróðurhúsalofti! Erfið glíma framundan Fátt er brýnna en að upplýsa almenning um þá erfiðu glímu sem er framundan vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum. Í því efni á sjónvarp RÚV lof skilið fyrir þá þáttaröð sem hófst fyrir viku. Afar brýnt er að skólakerfið verði búið undir staðgóða fræðslu um þetta flókna samspil, ekki síst grunnskólastigið. Þar skiptir miklu að kennsla í náttúrufræði og vistfræði verði traust og beinist ekki síst að íslenskum aðstæðum. Boðað átak menntamálaráðherra til að lyfta skólastarfi er mikilvægt í þessu samhengi, með áherslu sérstaklega á kennarastarfið. Mikill samdráttur í losun gróðurhúsalofts er óhjákvæmilegur hér sem annars staðar og honum verða að fylgja breytingar í atvinnu- og viðskiptalífi sem og í heimilishaldi og neyslu. Sem tegund er mannkynið komið í miklar ógöngur og verður héðan í frá að virða takmörk plánetunnar til að eiga hér trygga framtíð. Við Íslendingar erum þar hluti af heild og verðum að leggjast á árar með ungu kynslóðina í stafni reiðubúna að moka flórinn. Hjörleifur Guttormsson |